31.07.1931
Neðri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (2335)

109. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jón Ólafsson:

Ég er á sama máli og hv. l. þm. S.-M. um það, að verksvið Fiskveiðasjóðs er mikið af stórt fyrir þau peningaráð, sem hann hefir. Það er nú svo mikil eftirspurn eftir fé til ýmsra fyrirtækja, er sjávarútveg varða, að erfitt er að fullnægja henni. Ef nú verður opnuð ný leið að sjóðnum, þ. e. „lendingarbætur og bryggjugerðir“, mun eftirspurnin aukast, og gæti það orðið til þess eins að gera sjóðinn aðgerðalausan við aðaltilgang sinn, sem sé þann, að styðja landsmenn í því að halda í horfinu með bátaútgerð. Auk þess er nú á þessum tímum vafasamt, hvort sum af þeim þorpum, sem nú biðja um bryggjugerðir og lendingarbætur, muni í framtíðinni geta staðið straum af lánum til þeirra.

Ennfremur má leiða athygli að því, að bátaútgerð frá hinum ýmsu smærri sjávarþorpum, oft í námunda við góðar hafnir, virðist nú á hverfanda hveli.

Í frv. er talað um lendingarbætur og bryggjugerðir fyrir smábátaútgerðina. Þetta eru ekki mikil mannvirki, en þótt útgerð sé byrjuð, verða þessi mannvirki sáralítils virði eða jafnvel óþörf, ef útgerð verður lögð niður.

Þegar lánið til Reykjavíkurhafnarinnar var veitt hér um árið, var lítil eftirspurn eftir fiskveiðasjóðslánum, því þá var sá annmarki á, að það fékkst ekki nema fasteignaveð væri sett fyrir því, en það skilyrði settu aðrar lánsstofnanir ekki fyrir láni til skipakaupa. En þar sem svo lítil eftirspurn var eftir fé Fiskveiðasjóðs, gat hann lánað svo mikið fé til hafnargerðarinnar. En nú er það svo, að þeir, sem vilja halda smábátaútgerðinni við, verða að leita hjálpar Fiskveiðasjóðs. Hann er nú eina leiðin, því aðrar lánsstofnanir eru að mestu hættar að lána til bátakaupa.

Ég verð að segja það, að það er í raun og veru fyrsta skilyrðið fyrir því, að menn geti gert út skip og báta, að einhver lánsstofnun sé til, sem veiti lán til viðhalds útgerðinni í framtíðinni. En það getur Fiskveiðasjóður því aðeins gert, að hann hafi ekki of vitt starfssvið. Nú er svo komið, að fé Fiskveiðasjóðs hrekkur ekki langt fyrir þeirri eftirspurn, sem er eftir fénu. Hvað þá ef verksvið hans væri aukið.

Tel ég svo sjálfsagt að vísa málinu til 2. umr. og sjútvn. að lokinni þessari umr.