21.07.1931
Efri deild: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (2368)

20. mál, framfærslulög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hv. 6. landsk. talaði vinsamlegt eitt um þetta mál, og þykir mér gott, að hún skuli styðja það. Hún talaði nú ekki kuldalega um það, eins og mér virtist hún gera á þinginu í vetur. — Hv. 3. landsk. sagðist ekki hafa tekið sinnaskiptum eins og hv. 6. landsk. hefði gert. En ef hv. 6. landsk. hefir tekið sinnaskiptum í þessu máli, vænti ég þess, að hún leitist við að fá flokk sinn til þess að styðja það. Mér er kunnugt um, að ýmsir úr Framsóknarfl. eru því hlynntir, svo það lítur út fyrir, að það komist áfram.

Hv. þm. gat þess, að hún bæri nú ekki fram frv. það, sem hún bar hér fram í vetur um það, að gamalmenni væru ekki flutt sveitaflutningi. Ég sagði þá, að það væri dálítill fleygur í mitt frv. að fara fram á þetta, því það væru margir með þjóð vorri, sem væru þeirrar skoðunar, að rétt væri að breyta til í þessu efni.

Hv. þm. var þeirrar skoðunar, að það væri betra að komast lítið eitt áfram heldur en ekki neitt. Það er rétt hjá hv. þm., að það getur stundum verið gott að vera lítilþægur, en oft er það svo, ef maður hefir von um að geta komið stóru fram, að þá eiga kröfurnar ekki að vera litlar.

Þar sem hv. 6. landsk. tekur svo vel í þetta mál. vona ég, að hún hafi áhrif á flokk sinn, þótt hann áður fyrr, þegar hann gat ráðið, væri því ekki sérstaklega hlynntur. Verið getur, að mótlætið hafi mýkt hjörtu flokksmanna hennar.