15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Þorláksson:

Ég á 3 brtt. á þskj. 297 og ætla að minnast lítilsháttar á þær. Fyrst er brtt. II, við 10. gr., sem fer fram á, að settur verði inn nýr liður til að semja og senda út leiðréttingu við „Nokkrar framkvæmdir ríkisins“. Var nokkuð rætt um mál þetta við 1. umr. fjárl. Lagði ég áherzlu á tvennt: Fyrst það, að í þessari skýrslu eru svo margar missagnir, að þeir menn, sem fengu hana að gjöf frá landsstj:, fá alveg rangar hugmyndir um þau efni, er skýrslan fjallar um, og annað hitt, að fé til útgáfunnar er tekið í heimildarleysi. Það liggur ekki fyrir að þessu sinni, hvort þingið vilji nú veita heimild fyrir útgáfukostnaðinum eftir á. Það kemur í sambandi við fjáraukal. og landsreikninga á sínum tíma. En á hinu er enginn efi, að fjöldi manna víðsvegar um land fær rangar hugmyndir um þau efni, er bókin fjallar um, og eiga þeir heimtingu á því, að bætt verði úr þeim rangindum, er þeir hafa þannig orðið fyrir af hálfu stj. Sé ég ekki aðra leið til að bæta þennan órétt gagnvart þessum mönnum en þá, að senda þeim nauðsynlega leiðréttingu. Álít ég, að hver sem úrslitin verða um kostnaðargreiðsluna til útgáfu skýrslunnar, hvort sem stj. fær að halda fé því, er hún tók, eða ráðherrum verði gert að endurgreiða það, þá eigi menn heimtingu á því, að leiðrétting sé kostuð af ríkissjóði. Lít ég svo á, að ekki megi draga að senda út leiðréttinguna, þangað til úrskurður er fallinn um fjárnotkun þessa. Fer ég því fram á, að fé verði veitt í því skyni. Er upphæðin, 5000 kr., lítil í samanburði við þá miklu fúlgu, sem ritið kostaði. Geri ég ráð fyrir, að þingið samþ. slíka fjárveitingu. Er auðvitað til þess ætlazt, að eftirlit verði með því haft, að úr mistökunum verði bætt. Kemur mér ekki til hugar, að hér verði gefnar út á ríkiskostnað missagnir um menn og málefni, eins og hv. 2. landsk. virðist skilja þessa till. Treysti ég ekki stj. til að semja þessa leiðréttingu, en geri ráð fyrir því, að til þess verði fengnir óhlutdrægir aðiljar, fyrst og fremst forstöðumenn stofnana þeirra, er um ræðir.

Hefi ég þá svarað aths. hv. 2. landsk., og er ég honum sammála um það, að ekki er stj. trúandi til að vinna þetta verk. Er því síður en svo, að í þessari till. felist nokkur kvittun til stj. fyrir fé það, er hún tók í heimildarleysi. Get ég tekið undir við hv. 2. landsk., er hann segir, að það sé þakkarvert, þegar hv. 3. landsk. viðurkennir, að skýrslan sé ekki eins og skýrslum ber að vera. Hitt þótti mér miður, er hann taldi það heppilegt, að stj., sem setið hefir eitt kjörtímabil, taki fé úr ríkissjóði til slíkra hluta. Honum þótti heppilegt að fá slíkt rit við og við fyrir kosningar. En slíkt tíðkast ekki í nokkru landi. Stendur þetta gerræði stj. í sambandi við þá staðreynd, að framsóknarstj. hefir aldrei getað lyft huga sínum frá því að vera flokksstjórn til þess að vera landsstjórn. Virðist stj. helzt líta á hlutverk sitt sem það, að gefa út gyllingarrit fyrir sig og flokk sinn. Heiðarleg stj. leyfir flokki sínum að gera þetta, en gerir það ekki í ríkisnafni og á ríkiskostnað. Afleiðingin af því, að slík regla færi að tíðkast, yrði sú, að ef hlutlaus landslýður trúir slíku, þá er lagt upp í hendur þeirri stj., sem lygnust er og sjálfhælnust, að standa með mestum ljóma í augum samtíðarmanna sinna, og verður það sú handleiðsla í sannleika, sem landslýður fær á þessu sviði. Væri slíkt og þvílíkt meira en litið óheilbrigt, og er krafa mín aðvörun við því, að komandi stj. niðurlægi landið með iðju eins og bókaútgáfu þessari.

Þá hefi ég borið fram brtt. við 12. gr. um það, að aftan við 15., síðasta staflið, bætist nýr liður, 1200 kr. sjúkrastyrkur til Unnar Vilhjálmsdóttur. Þekki ég ekki konu þessa sjálfur, en hefi fengið réttar upplýsingar í málinu. Hún var áður kennslukona, en fékk erfiðan sjúkdóm og liggur nú rúmföst, óstarfhæf og undir læknishendi. Hefir hún haft þenna sjúkrastyrk í fjárl. áður, en þó ekki á yfirstandandi ári, og nú eru efni hennar gersamlega þrotin. Sjúkdómur hennar er að vísu ekki sama eðlis og þess sjúklings, er um getur í 15. lið q í fjárlagafrv., en skyldur, svo að hún verður að vera undir hendi sama ágæta læknis. Þessum sjúklngum er varnað að njóta þeirra hlunninda, sem aðrir sjúklingar njóta, af ástæðum, sem allir þekkja, og geta því ekki á sjúkrahúsi notið hjálpar þess læknis, sem einn hér á landi getur veitt þeim hana.

Enn á ég 3. till. við 14. gr. XIX. á sama þskj., nýr liður, styrkur til Soffíu Stefánsdóttur, til þess að halda uppi námsskeiðum fyrir konur og karla í teikningu og tréskurði allt árið. Stúlka þessi er dóttir Stefáns heitins Eiríkssonar, og heldur nú áfram atvinnu og kennslu hans. Hefi ég heyrt, að henni farist það prýðilega úr hendi. Auk þess kennir hún dráttlist við kvennaskólann. Þessi litli styrkur, sem till. fer fram á, er veittur henni í fjárl. yfirstandandi árs, og sé ég enga ástæðu til að fella þessa styrkveitingu burt úr fjárl. Þau er svo lítið, sem iðnaðarmannastétt landsins nýtur úr ríkissjóði, að ósæmilegt væri að fella niður þá sárafáu styrki til þeirrar stéttar. Vil ég minna á starf Stefáns Eiríkssonar og geta þess, að hann var brautryðjandi á sviði íslenzks listiðnaðar, og þótt einn af lærisveinum hans njóti lítilsháttar styrks í fjárl., tel ég ekki rétt gagnvart minningu hans að svipta heimili hans þeirri aðstoð, sem hér er um að ræða.