17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ekki er laust við það, að ég hafi gaman af, hversu hv. stjórnarandstæðingar eru áfjáðir í að fá sem gleggstar ræður frá mér (ÓTh: Ræður, sem eitthvað er leggjandi upp úr). Það gleður mig, að hv. þm. G.-K. gerir sér meiri vonir um mig en samherji hans, hv. 4. þm. Reykv., sem sagði, að enginn okkar framsóknarmanna mundi fást til að leiðrétta þær skekkjur, sem vitanlegt væri, að verið hefðu í fjárlagaræðu fyrrv. fjmrh. Skal ég að sjálfsögðu taka til athugunar þessa fýsi andstæðinga minna til að hlýða sem rækilegustum ræðum af mínum munni, þó að ég hinsvegar álíti nægilegt, að fjvn. séu látnar í té allar þær upplýsingar, sem n. æskir eftir viðvíkjandi fjárhagnum, í fjármálaráðuneytinu. Þess er að gæta, að nú eru ekki liðnir nema 3 mánuðir síðan vetrarþinginu lauk, og þá gaf þáv. fjmrh. rækilega skýrslu um þessi efni, og síðan hefir ekki farið fram neitt uppgjör á þjóðarbúinu, því að reikningar ríkissjóðs eru ekki gerðir upp nema um áramót, eins og hjá bönkum og öðrum einstökum stofnunum.