15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

1. mál, fjárlög 1932

Pétur Magnússon:

Ég held, að ég geti lofað því fyrirfram, að hneyksla ekki hv. þm. A.-Húnv. með neinum hjartnæmum orðum, enda fer það saman, að ég hefi enga námsmenn að mæla fyrir, og ég býst við, að hjartnæm orð myndu verka lítið á hina mörgu tómu stóla hér í d.

Ég á tvær till. á þskj. 297. Sú fyrri er við 13. gr. a, 2, IV, Holtavörðuheiðarvegur, þar sem lagt er til að hækka fjárveitinguna til hans úr 30 þús. kr. upp í 60 þús. kr.

Eins og hv. dm. er vafalaust kunnugt, er Holtavörðuheiði vestust þeirra heiða, sem skilja Borgarfjarðarhérað og Norðurland, og liggur hún milli Norðurárdals og Hrútafjarðar. Vegur um þessa heiði hefir um langt skeið verið aðalsamgönguleiðin milli Borgarfjarðar og Norðurlands. Fyrir 2–3 árum var heiðin rudd, og bifreiðaferðum hefir síðan verið haldið uppi um sumartímann. Vegurinn er þó mjög slæmur, og hefir verið talinn versti kaflinn á allri leiðinni frá Rvík til Akureyrar. Sérstaklega er suðurhluti heiðarinnar stórgrýttur og kostnaður við lagfæringu á honum svo mikill, að vegamálastjórinn hefir ekki séð sér fært að leggja það fé til, að vegurinn gæti orðið sæmilegur.

Vegurinn liggur mjög óheppilega, er víða í lægðum, sem fyllast af snjó strax á haustin, og liggja undir snjó þangað til langt fram á vor. Ég fór yfir Holtavörðuheiði 8. júní. Þá var um langan tíma búið að vera algerlega snjólaust á mörgum heiðavegum, en á Holtavörðuheiði voru þá 4–5 mjög stórir og djúpir skaflar, sem hindruðu alla vagnaumferð. Síðan var svo mokuð braut gegnum skaflana, og hefir það kostað allmikið fé.

Eins og nú er ástatt, er það því aðeins um hásumarið, sem þessi aðalleið milli Norður- og Suðurlands er vagnfær, en um aðrar vagnfærar leiðir er ekki að ræða. Vor og haust verða því ferðamenn að basla við að útvega hesta með ærnum tilkostnaði, og hljóta allir að skilja, hvílíkur trafali það er, að þurfa að ferðast aðra stundina í lögnum og hina á hestum.

Þetta er einmitt þann tíma árs, — vor og haust, — sem fólksflutningaþörfin er hvað mest milli Norðurlands og höfuðstaðarins. Íbúar sveitanna nota jafnaðarlega þann tíma til þess að fara þær langferðir, sem þeir þurfa að fara; eins er um námsfólk, sem er að fara heim, fólk, sem er að fara í atvinnu o. fl. o. fl. En eins og strandferðunum er hagað, hlýtur aðalleiðin alltaf að verða um Holtavörðuheiði. A. m. k. á þetta við um Húnavatnssýslurnar báðar, talsverðan hl. Skagafjarðarsýslu, og að nokkru leyti Strandasýslu. Svo framarlega sem vegirnir eru þolanlegir, verður bæði ódýrara og fljótlegra að fara landveg heldur en með strandferðaskipunum, sem elta flestar hafnir á leiðinni.

Löggjafarvaldið hefir fyrir löngu komið auga á þörfina á sæmilegum vegi þessa leið. Hefir vegur verið lagður um Borgarfjörð og upp Norðurárdal, og var gert ráð fyrir, að upphleyptur vegur yrði kominn að Hrútafjarðará árið 1932; en úr því getur sýnilega ekki orðið og stafar það af því, að undanfarið hefir verið unnið að vegagerð svo víða á landinu, að það hefir þurft að draga úr fjárveitingum til þessa vegar.

Vegurinn er nú kominn upp í heiðarsporð, eða verður það í haust. Nú er verið að vinna fyrir neðan Fornahvamm, en það er aðeins lítið tímaspursmál, hvenær vegurinn fyrir sunnan Norðurá verður kominn í samband við vegarspottann, sem búið er að leggja frá Fornahvammi upp í heiðarsporð.

Í ráði er að breyta vegarstæðinu líka frá því sem nú er og leggja veginn eftir hæðum, þar sem gera má ráð fyrir, að hann verði miklu lengur vagnfær en þar sem hann liggur nú. En þannig hagar til, að þetta fyrirhugaða vegarstæði sker gömlu brautina í tveim stöðum, og mun vera álíka langt frá vegarendanum, sem nú er, að syðri skurðarpunktinum, sem er lítið eitt fyrir neðan Hæðarstein, og þeim nyrðri, sem er skammt fyrir sunnan brúna á Miklagili. Ef sú leið væri farin, að taka þetta í þrem áföngum, og veitt yrði nægilegt fé til þess að því yrði lokið á 3 árum, gæti það, sem lagt er, jafnóðum komið að fullum notum. Verði þetta ekki gert, heldur fjárveitingar skornar við nögl, þá kemur það, sem gert er fyrsta árið, ekki að neinu haldi fyrr en í fyrsta lagi árið eftir; því að það yrði allt of dýrt að leggja afleggjara yfir á gömlu brautina, enda varla kleift. Sérstaklega er nauðsynlegt, að fyrsta fjárveitingin verði það há, að vegurinn komist þegar næsta sumar að skurðarpunktinam fyrir neðan Hæðarstein, vegna þess að vegurinn sunnan í heiðinni er svo illur yfirferðar, að það er rétt á takmörkunum, að hann geti talizt vagnfær, og ef á að halda áfram að leggja fé í viðhald hans, hlýtur það óhjákvæmilega að fara vaxandi ár frá ári.

Ég skal taka það fram, að ég hefi átt tal við vegamálastjóra um þetta, og hann leggur eindregið til, að fjárveitingin verði hækkuð frá því, sem áætlað er í fjárlagafrv., og mun hann telja, að í till. minni sé sízt farið fram á of mikið.

Það þarf ekki að benda á, að það er veigamikið fyrir sýslurnar norðanlands, að þessi vegur sé gerður vagnfær og honum haldið sem lengst opnum. Ef stöðugir flutningar geta hafizt milli Húnavatnssýslna og höfuðstaðarins, verða þær lítið verr settar en t. d. Rangárvallasýsla um að koma afurðum sínum á markað. Ennfremur er á það að líta, að flutningar yrðu miklu ódýrari en nú er, því slitið á vögnum verður mjög mikið, meðan vegirnir eru jafnslæmir og nú.

Þessi vegur er ein af lífæðunum í vegakerfi landsins, og ég held, að hvergi sé meiri þörf fyrir aukna vegagerð heldur en einmitt á þessu svæði. Ég vænti þess því, að hv. dm. líti á þessa tillögu með velþóknun og sjái sér fært að samþ. hana.

Hin brtt., sem ég flyt, er X. brtt. á þskj. 297. Þar hefi ég lagt til, að fjárveiting til flóabátaferða verði hækkuð um 500 kr. Þessi till. er miðuð við það, að framlag til Hvalfjarðarbátsins verði hækkað um þessa upphæð. Nú er gert ráð fyrir 1500 kr. til hans.

Ég hefi fyrir framan mig áskorun frá þingmálafundi, sem haldinn var 6. febr. síðastl. á Ferstiklu, þar sem samþ. var að skora á Alþ. að auka styrkinn til Hvalfjarðarbátsins.

Það hagar þannig til, að næstu hreppar fyrir norðan Hvalfjörð, og að nokkru leyti Kjósarhreppur líka, flytja afurðir sínar, mjólk og rjóma, til Rvíkur, eftir því sem föng eru á. Þessi bátur hefir aðeins fáar fastar áætlunarferðir, en auk þess fer hann margar aukaferðir. Ef styrkurinn er hækkaður upp í 2000 kr., geta orðið a. m. k. 2 og jafnvel 3 fastar ferðir á viku. Það munar miklu fyrir íbúana, hvort það eru fastar ferðir eða aukaferðir, því að oft vita menn ekki um aukaferðirnar fyrr en of seint. Ef hinsvegar væri fjölgað fastaferðunum, myndu menn geta komið afurðum sínum á markað í Rvík í sæmilegu ástandi.

Ég býst við, að einhver mundi vilja svara því til, að vegurinn, sem nú hefir verið ruddur inn fyrir Hvalfjörð, gæti bætt úr þessu samgönguleysi. En svo er ekki. Sá vegur er vagnfær aðeins lítinn hluta ársins. Hann liggur utan í bröttu fjalli, og auk þess eru þrjár stórár óbrúaðar á leiðinni. — Þetta er svo óveruleg hækkun, sem till. fer fram á, en hagur að henni svo mikill, að ég vænti þess, að hv. þdm. horfi ekki í þessar 500 kr.

Ég skal ekki þreyta hv. þdm. með fleiri orðum um till. mínar, en það eru nokkur atriði önnur, sem ég verð að minnast á.

Fyrst er það 7. brtt. á þskj. 283, þar sem lagt er til, að niður falli tillag til Fiskifél. Íslands, 6000 kr. Eins og hv. þdm. mun kunnugt, gera l. nr. 46 1930, um Fiskveiðasjóð, ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram til sjóðsins Í millj. kr., og sé það samningsatriði milli stjórnar sjóðsins og ríkisstj., hvenær greiðsla fari fram og á hvern hátt. Þessar 6000 kr. eru að vísu ekki mikil upphæð, og munar ekki ýkja miklu fyrir Fiskveiðasjóðinn, hvort hún er af hendi látin eða ekki, en ríkissjóðinn munar þetta heldur ekki miklu. Ég álít hinsvegar, að það sé illa til fallið að fella þetta niður, einkanlega, ef tekið er tillit til þess, að ræktunarsjóðurinn fær aðaltekjur sínar af sjávarafurðum. Því álít ég ekki rétt, að þessi greiðsla sé felld niður.

Ég vil einnig gera grein fyrir afstöðu minni til 25. gr. fjárlagafrv. og vil lýsa yfir því, að ég mun greiða atkv. gegn henni. Hún er þess efnis, að stj. sé heimilt að draga úr þeim útgjöldum, sem ákveðin eru í fjárl., allt að 25%, og fæ ég ekki betur séð en að þessi till. sé einn liður í þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið síðustu árin til þess að draga fjárveitingavaldið úr höndum Alþ. í hendur stj. Ég verð að segja, að mér virðist það næsta merkilegt, hvað þetta hefir gengið fyrir sig hljóðalaust, því að hér er um svo þýðingarmikið mál að ræða, að maður skyldi ætla, að gætt væri hinnar mestu varkárni í því af hálfu löggjafarvaldsins. Í sjálfu sér má náttúrlega um það deila, hvort væri hentara, að fjárveitingavaldið sé í höndum stj. eða þingsins. Ef gert er ráð fyrir, að stj. sé alltaf skipuð beztu og hæfustu mönnum, væri vafalaust heppilegast að láta hana hafa öll völd, jafnt í þessum efnum eins og öðrum. Það er gamla einveldiskenningin. En gallinn er bara sá, að forsjónin virðist ekki alltaf fylgja þeirri reglu að gefa þeim vit og góðvilja, er hún gefur embætti. Hættan er jafnan sú, að stj. hugsi meir um að auka sjálfri sér fylgi en að efla gengi þjóðarinnar. Þessa reynslu höfum við líka fengið. Sú stj., er setið hefir að völdum, hefir haft fjárveitingavaldið í sínum höndum og notað það fyrir sjálfa sig, en ekki fyrir hagsmuni þjóðarinnar. Þetta verður að breytast, og það má merkilegt heita, hvað sá þingmeirihl., sem nú er, lætur leiða sig langt í þessu, því að honum má vera það ljóst, að hann verður ekki eilífur meiri hl., og þótt síðar verði, kann það að koma honum í koll, að hafa látið slíkt viðgangast. [Fundarhlé].

Ég hafði fyrir fundarhléð sýnt fram á, að ákvæði 25. gr. væru einn þátturinn í tilraun stj. til að draga fjárveitingavaldið úr höndum Alþ., til þess að hún gæti verið sem einráðust um það, hvernig fénu væri varið, og ég leiddi rök að því, hversu varhugavert væri að ganga þá braut.

Áður en ég skil alveg við að tala um þetta atriði, vil ég benda á það, að það er ekkert útlit fyrir, að knýjandi ástæða sé til að setja slíkt ákvæði sem þetta inn í fjárlögin. Ég hygg, að ekki sé hægt að segja annað en að tekjuáætlun fjárl. sé mjög varkár, enda þótt hún hafi verið allmikið hækkuð frá því sem hún var í frv. stj. Það er því engin ástæða til að ætla, að tekjurnar hrökkvi ekki til að greiða þau útgjöld, sem frv. gerir ráð fyrir, svo framarlega sem fjármálum landsins verður næsta ár stjórnað af einhverjum hyggindum, en ekki viðhöfð gegndarlaus eyðsla eins og verið hefir síðustu ár, því að þá gæti farið svo, að ekki væri unnt að standa í skilum með þær greiðslur, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég hygg, að stj. hafi nú lært það af reynslunni, að hún verði varkárari í fjármálum en hún hefir verið hingað til. En jafnvel þó að stj. stýrði fjármálunum þannig, að ekki væri unnt fyrir hana að standa í skilum, þá vildi ég þó heldur af tvennu illu láta hana á eigin spýtur grípa til þess að draga úr gjöldum fjárl. heldur en að gefa henni undir fótinn með heimild í fjárl. að mega nota fjárveitingavaldið eftir eigin vild, og ég get ekki séð annað en að eigi að fara þá braut, þegar fyrst er felld till., sem miðar að því að leggja hömlur á það, að stj. veiti meira fé en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, og svo á að setja á eftir ákvæði inn í frv., sem heimilar stj. að draga úr gjöldunum eftir vild. Ef þessi grein yrði samþ., þá hefði stj. vissulega ástæðu til að ætla, að Alþ. væri ekki sárt um það, þó að það afsalaði sér að miklu leyti því valdi, sem það hefir eftir stjórnarskrá landsins til þess að ráða, hvernig farið er með fé ríkissjóðs. Ég mun því, eins og ég hefi áður sagt, greiða atkv. á móti 25. gr. frv.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um till. hv. 1. landsk. um að veita 5000 kr. til að leiðrétta villur í hinum svonefndu skýrslum um framkvæmdir ríkisins 1927–1930. Ég mun greiða atkv. á móti þessari till., og vil ég gera grein fyrir, hvernig á því stendur. Þessi margumtalaða bók er nefnd „Skýrslur um framkvæmdir ríkisins“, en ég get ekki skilið, hvernig nokkur getur haldið því fram, að hér sé um hlutlausar skýrslur að ræða. Allar skýrslurnar, frá fyrstu til síðustu síðu svo að segja, eru látnar líta svo út sem þessar framkvæmdir ríkisins séu fyrir forgöngu eins stjórnmálaflokks í landinu, nefnilega stjórnarflokksins. Aftur á móti er látið líta svo út sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi barizt með hnúum og hnefum á móti öllum framkvæmdum. Bókin er þannig augljóslega ,,agitatorisk“. reynir að draga fram ágæti eins stjórnmálaflokks og niðra öðrum.

En þessi svokallaða skýrsla er ekki eingöngu „agitatorisk“, heldur einnig hlutdræg og röng. Ég skal ekki segja, að svo mikið af tölunum sé rangt. Það getur verið, að þar séu einstöku skekkjur, en ég hygg, að þær séu allflestar í samræmi við sannleikann, án þess þó að ég hafi sérstaklega rannsakað það. En flest annað er hlutdrægt eða rangt. Það eru teknir sannir viðburðir, snúið út úr þeim og reynt að gefa þeim annað útlit en þeir eiga með réttu að hafa. Það þarf engar 5000 kr. til að leiðrétta slíkar skýrslur. Það nægir að gefa út auglýsingu eða senda þeim bréf, sem bókina fengu. Það bréf gæti verið eitthvað á þessa leið: „Flestar tölur eru réttar, allt annað er rangt eða hlutdrægt“.

Þessu til sönnunar vil ég benda á nokkra kafla í bókinni, og þá fyrst þann, sem ætla mætti, að erfiðast væri að koma hlutdrægni að, og það er kaflinn um vegina. Samt skín þar sama hlutdrægnin í gegn og alstaðar annarsstaðar. Þar er ekki talað um, þegar hv. þm. Borgf. og hv. fyrrv. 2. þm. Skagf. báru fram á þingi 1928 till. um að hækka framlag til vega. Nei, það er heldur minnzt á það, að hv. l. landsk. hafi sagt, að hann vildi láta vera kominn bílfæran veg frá Borgarnesi til Akureyrar árið 1940, en athugasemdalaust skýrt frá, að þessari vegagerð hafi verið lokið ári eftir að Framsóknarflokksstj. tók við völdum. Það er svo sem ekki verið að skýra frá, að lagður vegur er kominn skemmra en hv. 1. landsk. hafði ráðgert.

Sama er að segja um kaflann um póstgöngur, strandferðir, skóla, tollgæzlu, ríkisbókhald og ríkisstofnanirnar. Frásögnin um það, sem gert hefir verið í þessum málum, er öll meira og minna hlutdræg. Og ef nú ætti að ráðast í að leiðrétta allar þessar skekkjur., væri ekkert vit í að gefa stj. frjálsar hendur um það. Það yrði þá að fela einhverri hlutlausri stofnun, t. d. hagstofunni, að gefa út réttar skýrslur.

Ég er nú ekki ennþá alveg viss um, að flokkur hæstv. stj. láti henni haldast uppi að gefa slíka bók sem þessar svonefndu skýrslur út á ríkisins kostnað. Ég veit, að margir fylgismenn stj. álita, að ýmislegt af efni þessarar bókar sé öðruvísi en það ætti að vera. Ég vil því í lengstu lög vænta þess, að flokkurinn neyði stj. til að endurgreiða kostnað bókarinnar úr flokkssjóði framsóknarmanna. Bókin er kosningarit og ekkert annað. Það viðurkenndi hæstv. forsrh. sjálfur eftir þingrofið í vor, þegar hann gaf þá yfirlýsingu, að þetta rit skyldi ekki verða sent út fyrr en eftir kosningar. Það var ekki hægt að gefa skýrari yfirlýsingu um það, að þetta væri pólitískt rit, en með þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh.

Ég vænti þess, að ég hafi með þessum orðum gert næga grein fyrir því, hvers vegna ég greiði atkv. á móti þessari till. hv. 1. landsk. Það er ekki af því, að ég telji skýrsluna ekki þurfa leiðréttingar við, heldur af því, að skýrslan er þannig, að það er ekki hægt að leiðrétta hana.