17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (2410)

38. mál, vegalög

Hannes Jónsson:

Ég ætla ekki að fara að blanda mér í þær deilur, sem hér hafa orðið út af því, hvort vísa skyldi þessu máli til n. eða ekki, en ég hefi leyft mér að bera fram ásamt hæstv. forsrh. skriflega brtt. við frv., III C. a, þess efnis, að nýr vegur verði lagður frá þjóðveginum hjá Reykjum í Hrútafirði að héraðsskólanum á Reykjatanga. Þessi vegarspotti verður ekki nema um 1 km. að lengd, og stendur svipað á um hann og Laugardalsveginn, sem tekinn hefir verið upp í frv. Vona ég því, að hv. d. taki vel í þessa till. (HV: Á ekki að leggja þjóðvegi heim á hvern bæ í Vestur-Húnavatnssýslu?). Það á að leggja þar vegi engu síður en í öðrum héruðum landsins, og þm. eru hingað á þing komnir til þess að sjá fyrir þessum þörfum landsbúa sem öðrum, þó að hv. 3. þm. Reykv. sé starblindur á allt nema það, sem gerist hér á götunum í Reykjavík. — Ég þykist ekki þurfa að hafa fleiri orð um þessa till. mína. Allir þeir, sem þarna hafa farið um, vita hve mikil nauðsyn er á því, að þessi vegur verði lagður heim að skólanum, því að þangað er ekki um aðrar samgöngur að gera nema á sjó, fyrr en þessi vegur er kominn, en hann ætti ekki að verða mjög dýr, því að hann verður ekki nema um 1 km., eins og ég áður sagði, enda geri ég ekki ráð fyrir, að horft verði í þennan lítilfjörlega útgjaldaauka.