20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (2418)

38. mál, vegalög

Sveinbjörn Högnason:

Þar sem deildin hefir vísað málinu til samgmn., þá hefir hún í raun og veru þar með fallizt á það, að málið yrði ekki tekið fyrir fyrr en n. hefði skilað áliti, en eftir því yrði nú ekki langt að bíða, þar sem n. hefir unnið að málinu, en aðeins er eftir að prenta álit hennar. Mér virðist því óþarfi að bera þetta mál undir atkv. Það er ómögulegt að álasa n. fyrir það, að hún hafi tafið málið; hún hefir þvert á móti því sem næst afgr. það á þessum stutta tíma. Það er því ekkert nema broslegur ákafi hjá hv. þm. Borgf. og hv. þm. Vestm. að fá málið undir atkv. áður en nokkrum hv. þdm. gefst tækifæri til að kynna sér álit samgmn. og vegamálastjóra á málinu. Það er eins og hv. þm. Borgf. sagði, að hann vill láta slag standa, þ. e. a. s. atkvgr. Mér þykir einkennilegt, þegar svona víðtækar breyt. er um að ræða, að þær skuli enga afgreiðslu eiga að fá öðruvísi en að láta slag standa. Hv. þm. Vestm. mun vera sá, sem minnstra hagsmuna hefir að gæta í vegamálum vegna síns kjördæmis. Hann tekur þó fram, af hvaða ástæðum hann vill játa málið koma fram nú og hann geti ekki fylgt hinum að málum. Hann viðurkennir þar með, að málið þurfi betur að athugast. En ég býst við, að það sé af því, að hann er ekki ánægður með stj., að hann vill heldur afgr. málið án athugunar en að vísa því til stj. Hann vill ekki taka þá ábyrgð á sig, að málið sé nú tekið af dagskrá, en hann vill taka þá ábyrgð á sig, að stórkostlegt fjárhagslegt atriði og mikið hagsmunaatriði fyrir mörg héruð landsins verði afgr. hugsunarlaust, án þess að hv. þdm. viti, hvað hefir verið reynt að undirbúa það í n. Ábyrgðartilfinning hv. þm. er því harla einkennileg í þessu efni.

Ég mun því eindregið styðja þá till., að taka málið út af dagskrá, þangað til nál. er komið, því að þar er ekki heldur nema um einn einasta dag að ræða.