20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (2419)

38. mál, vegalög

Ólafur Thors:

Ég vil undirstrika og biðja menn að athuga það, sem hv. 2. þm. Rang. sagði. Hann sagðist líta svo á, að þegar deildin vísaði máli til n., þá hefði hún afsalað sér rétti til að fjalla um málið þar til n. hefði skilað áliti. Með þessum rökum vildi hv. þm. knýja það fram, að málið yrði tekið af dagskrá og n. fengi að ljúka við afgreiðslu þess. Ég vil nú í þessu sambandi minna á mál, sem hér var í gær til umr. Þá lét þessi hv. þm. skoðun sína í ljós á svona málefni. Þá var um það að ræða, hvort taka skyldi á dagskrá frv. um einkasölu á tóbaki. Frv. hafði verið vísað til n. fyrir örfáum dögum og n. lét í ljós, að hún óskaði eftir, að málið yrði ekki til umr., þar sem hún væri ekki búin að athuga það. Þá beitti þessi sami hv. þm. sér gegn því, að það næði fram að ganga, sem hann reynir nú af fremsta mætti að berjast fyrir. Þó liggur þetta mál að því leyti öðruvísi fyrir, að samgmn. hefir þó fjallað um þetta mál, sem nú liggur fyrir, en fjhn. hafði ekkert tækifæri haft til að fjalla um frv. um tóbakseinkasöluna.

Ég vildi aðeins henda hv. þd.m. á það ósamræmi, sem kemur fram hjá hv. 2. þm. Rang. í dag og í gær, og vil heyra, hvernig hann skýrir þær breytingar, sem verða á mannlegu eðli á svo skömmum tíma.