15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

1. mál, fjárlög 1932

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að vera margorður. Ég á að vísu 3 brtt., en þær eru allar þess efnis, að þær gera enga röskun á tekju- eða útgjaldaáætlun fjárl.

Fyrsta brtt. er um 15 þús. kr. ábyrgð fyrir Búðahrepp í Fáskrúðsfirði til rafvirkjunar. Á þessari beiðni stendur þannig, að í fjárl. 1930, að ég ætla, var ákveðin ábyrgð til raforkuversins. Síðan var rafveitan byggð á þann hátt, að hún kostaði ekki nema 75 þús. kr., svo að ábyrgðarheimild ríkisins var ekki notuð að fullu. En síðasta vetur voru á Austurlandi eins og annarsstaðar óvenjulega mikil frost. Þá reyndist vatnsmagn stöðvarinnar of lítið til að fullnægja rafmagnsþörf kauptúnsbúa. Verkfræðingurinn, sem mældi fyrir þessari stöð og gizkaði á, að vatnsmagnið mundi reynast nóg, hafði ekki mælt rennsli vatnsfallsins í nægilega mörg ár. Reynslan hefir því sýnt, að vatnsmagnið verður stöku sinnum of lítið með því fyrirkomulagi, sem nú er. Nú er hægt að fá þarna vatnsaukningu, og er gert ráð fyrir, að sú viðbót muni kosta 45–50 þús. kr. Nú þykir kauptúnsbúum nokkuð mikið að ráðast í þetta, þar sem það vatnsmagn, sem þeir hafa nú yfir að ráða, er nægilegt undir flestum kringumstæðum, nema á vetrum, þegar frost eru mikil. Þeir hafa þess vegna horfið að því ráði að fá mótor, sem yrði þá notaður, þegar vatnsmagnið reyndist of lítið, og er kostnaður við það áætlaður um 15 þús. kr., og rafveitun. gerir ráð fyrir, að rekstrarkostnaður muni ekki aukast að mun. Það er því ósk mín, að hv. d. verði við þessari sanngjörnu ósk kauptúnsbúa og endurveiti nú þessa 15 þús. kr. ábyrgð, því að þessi till. fer ekki fram á annað en að gefið loforð sé uppfyllt.

Önnur brtt. mín er líka um ábyrgð. Hún er um að heimila stj. 25 þús. kr. viðbótarábyrgð til Neskaupstaðar til barnaskólabyggingar. Eins og menn muna, var stj. heimilað að ábyrgjast 124 þús. kr. lán til barnaskólabyggingar í Neskaupstað. Nú er þetta hús fullgert og hefir kostnaður við bygginguna farið nokkuð fram úr áætlun, eins og oft vill verða, en þó ekkert geysímikið, því að fyrst var ráðgert, að húsið kostaði 140000 kr., en eftir því sem ég veit bezt, mun kostnaðurinn hafa orðið fullar 160000 kr. Húsið er mjög vandað og er gert ráð fyrir, að þó að það sé erfitt fyrir bæjarbúa að koma þessu húsi upp, muni þetta hús duga sem fullkominn barnaskóli næstu mannsaldrana.

Því er svo háttað með þetta hús, að ein hæðin er að mestu leyti leikfimissalur, og er fyrirkomulagið þannig, að ef þarf, má taka hann og gera úr honum kennslustofur, og mundi hann þá rúma um 200 nem. Það, sem yrði þá að inna af hendi í framtíðinni, væri það að sjá barnaskólanum fyrir leikfimishúsi. Til þess þarf þó varla að taka í náinni framtíð, því að þótt tala bæjarbúa tvöfaldaðist, þá mundi skólinn nægja eins og hann er nú.

Ég vil í þessu sambandi benda á það, að það er mikil sanngirniskrafa, að ríkið styrki þennan bæ til að gera barnaskólann svo úr garði, að hann sé sem beztur, með því að ábyrgjast þetta lán skólans vegna, sem taka á innanlands, því að einmitt vegna þess, að Neskaupstaður fékk nú fyrir nokkrum árum bæjarréttindi, losnaði ríkissjóður undan þeirri kvöð, sem hvílir á ríkinu viðvíkjandi hreppsfélögum að leggja fram til barnaskólabygginga 1/3 kostnaðar, og auk þess sjá fyrir láni hreppsfélaginu til handa fyrir framlagi hreppsins. Við þetta losnaði ríkissjóður við þessa kvöð, þegar kaupstaðurinn fékk sín bæjarréttindi. Ég vænti því þess, bæði vegna þess, sem ég hefi nú tekið fram, og líka vegna þess styrks, sem ríkissjóður hefir úr þessu bæjarfél., að þessi hv. d. vilji samþ. þessa sanngjörnu till.

Þá kemur þriðja og síðasta brtt. mín, og er hún þess efnis, að Alþ. heimili ríkisstj. að ábyrgjast fyrir samvinnufél. Eskfirðinga lán til kaupa á fiskiskipum, allt að 4/5 kaupverðs skipanna, fullbúnum til fiskveiða, allt að 50 þús. kr. Skal lánið tryggt með sjálfskuldarábyrgð félagsmanna, ábyrgð Eskifjarðarhrepps og 1. veðrétti í skipunum.

Hér er farið fram á 50 þús. kr. ábyrgð. En í fjárl. fyrir árið 1930 var ríkisstj. heimilað að taka á sig 90 þús. kr. ábyrgð. Það hefir nú ekki orðið úr því, að ábyrgðin fengist, og þessu fél. hefir ekki lukkazt að geta hrundið þessu máli áfram, að fél. eignist vísi til skipastóls til bjargræðis fyrir kauptúnið. Fiskveiðasjóður hefir neitað um fé til skipakaupa, nema ríkisábyrgð fáist einnig. Ég skal ekkert um það segja, á hverju þetta er byggt, en reyndin er þessi.

Það er sérstök ástæða til að styðja slíkar framkvæmdir, og ekki sízt í því kauptúni, sem hefir orðið fyrir 2 tilfinnanlegum óhöppum á síðastl. ári. Frá Eskifirði hefir verið gert út gufuskip, og hafa Eskfirðingar haft atvinna á skipinu og eins verkafólk í landi við að verka aflann. Þetta skip hefir líka verið gert út á síld. En síðastl. vetur var skipið selt og við það minnkaði skipastóllinn og bjargræðisvegir kauptúnsins. Í byrjun síðastl. mánaðar kom annað óhapp fyrir útveginn, að stærsti vélbáturinn, 20 smál. skip. var sigldur í kaf af togara. Mannbjörg varð, en skipið fórst. Þegar menn athuga þennan hnekki, sem orðið hefir í skipastólnum, þá má öllum vera ljóst, að eitthvað þarf að koma í skarðið, ef ekki á að verða tilfinnanlegur hnekkir í atvinnulífi kauptúnsins. Ég hygg, að það sé ekki síður ástæða til að hlaupa undir bagga með þessu kauptúni en gert er í þessu fjárlagafrv. hvað snertir Seyðisfjörð. Ég hygg, að full sanngirni mæli með því, að Eskifjarðarkauptún fái samskonar ábyrgð, og ég vænti þess, að það verði ekki síður tekið til greina fyrir það, hvað till. er hófleg. Þess er líka að gæta, að á Eskifirði hafa valdið rýrnun í skipaflotanum óhöpp, sem kauptúnsbúar geta ekki að neinu leyti kennt sér um. Ég vænti þess, að hv. d. taki þessari brtt. vinsamlega og ljái henni fylgi.

Áður en ég sezt niður, vildi ég minnast með fáeinum orðum á eina brtt. á þskj. 283. Það er brtt. frá fjvn., sem er þess efnis, að tillagið til Fiskveiðasjóðs Íslands falli niður. Það er viðurkennt, að ríkissj. er að l. ekki skuldbundinn til að leggja fram þetta framlag, þó nokkuð hafi verið bætt úr með Fiskveiðasjóði. En hér er ekki um stóra upphæð að ræða, og ég held, að þetta sé óþörf smámunasemi. Það er viðurkennt, að ennþá er Fiskveiðasjóður svo magnlaus stofnun, að það er full þörf á, að hann njóti fjárveitingar. Ég held, að það sé réttara að láta hann halda þessari upphæð, því það kemur honum að ofurlitlu gagni, en ríkissjóð munar ekkert um það. Þessar 6000 kr. ættu að nægja sem lánsfé út á allsæmilegt fiskiskip. Þegar svo Fiskveiðasjóður getur ekki fullnægt nema litlum hluta af þörfum landsmanna til bátakaupa, þá virðist ekki vert fyrir Alþ. að láta sig muna um þessa litlu upphæð. Auk þess gæti það litið svo út frá sjónarmiði þeirra, sem sjóðsins njóta, að þetta væri meir af óvild en sparnaði og ég veit, að hvorki fjvn.Alþ. meina það með þessu. En mér er ekki grunlaust um, að það myndi verða skilið á þann veg. Það væri illa farið, ef sá misskilningur kæmist inn hjá þeim, sem sjóðsins njóta. Ég vænti þess, að fjvn. athugi þennan lið og sjái sér fært að taka þetta til greina.