20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (2421)

38. mál, vegalög

Magnús Guðmundsson:

Ég skal ekki segja nema örfá orð. Mér heyrðist hv. 2. þm. Rang. vera að tala um það, að menn hefðu ekki ennþá kynnt sér, hvað n. legði til í þessu efni. En hv. þm. Vestm., sem er í minni hl. n., hefir látið það uppi, að meiri hl. n. vilji vísa málinu til stj. Ef svo er, þá veit maður, hvaða tromp hv. meiri hl. hefir á hendi. Það skiptir því engu máli, hvort menn fá þetta nál. skriflegt fyrir framan sig eða ekki.

Ég vil minna hv. 2. þm. Rang. á það, að hann vill ekki fara eins að nú eins og í gær í tóbakseinkasölumálinu. Það, sem máli skiptir í þessu efni, er það, hvort stj.flokkurinn hefir það á tilfinningunni, að hér sé um mál að ræða, sem andstöðuflokkarnir séu meðmæltir. Það er það, sem skilur. En ég á nú von á því, að það séu margir hv. þdm., sem hafi hug á því að koma þessu máli fram, og það jafnvel menn úr flokki sjálfrar stj. Og þótt n. vilji gjarnan fá máli þessu vísað til stj., þá getur þó farið svo, að nokkuð kvarnist út úr stj.flokknum, þegar honum er ætlað að drepa þetta mál við atkvgr., því að það er rétt, sem hv. þm. Borgf. segir, að annaðhvort verður að taka mál þetta til meðferðar nú þegar í dag eða það er dauðadæmt á þessu þingi.