20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

38. mál, vegalög

Jóhann Jósefsson:

Hv. 2. þm. Rang. var að víkja að mér fyrir þá sérstöðu, sem ég hefði í n. Hann hefir misskilið aðstöðu mína að því leyti, að ég var með mínum orðum alls ekki að leggja það til, að málið væri endilega tekið fyrir í dag. Það komu engar till. frá mér í þá átt, heldur vildi ég aðeins gripa tækifærið til þess að lýsa afstöðu minni til málsins og n., af því að ég hafði ekki gert það skriflega. Ég læt mig það engu skipta, hvort hv. þm. finnst það broslegt eða ekki, en mér finnst það satt að segja fullkomlega eins broslegt hjá honum, þegar hann álítur það svo afarnauðsynlegt, hvernig meiri hl. samgmn. kemur orðum að því, að málinu skuli vísað til stj., hvort honum t. d. þóknast að segja „með því að“ eða „af því að“. Það er ekkert leyndarmál, að meiri hl. n. hefir þegar ákveðið að vísa málinu til stj. (BJ: Skiptir engu máli um rökin?). Ennþá hafa engin rök verið færð fyrir þessu hér í d., og ef satt skal segja, þá hefir heldur ekki bólað á þeim í nefndinni.

Ég ætla ekki að fara að metast við hv. 2. þm. Rang. út af ábyrgðartilfinningu í störfum hér á Alþingi. Hann hefir enn ekki sýnt með afskiptum sínum af þingmálum, að hann sé öðrum ríkari í þeim efnum, og held ég því, að hann geti vel beðið með að fella þunga dóma yfir öðrum, unz hann hefir sjálfur unnið lárviðarsveiginn á því sviði.