20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (2423)

38. mál, vegalög

Sveinbjörn Högnason:

Það virðist svo, sem ýmsum hv. þdm. hafi orðið hálfónotalegt af orðum þeim, sem ég lét falla hér áðan, og fundizt ástæða til þess að hera af sér sakir. Ég tel ekki ástæðu til þess að svara þeim miklu, enda skal það ekki gert.

Hv. þm. G.-K. var að biðja mig að sýna samræmið milli þess, að ég hafi í gær verið á móti því, að tóbakseinkasalan væri tekin af dagskrá, og þess, að ég nú er með því að þetta mál sé tekið af dagskrá. Þótt ég í gær hefði verið á móti því að tóbakseinkasalan væri tekin af dagskrá, sem raunar kom aldrei til atkvgr., þá er þar allt öðru máli að gegna. Því máli var við 1. umr. vísað til fjhn. og hefir dvalið alllengi hjá þeirri hv. n., og lengur en hv. þm. vildi vera láta. Ennfremur hefir það mál legið fyrir mörgum undanförnum þingum og mun vera flestum, a. m. k. hinum eldri hv. þdm., þaulkunnugt. Þeir hlutu því þegar áður en málið kom úr n. að vera búnir að taka afstöðu til þess. Þessu máli, sem hér er um að ræða, var á hinn bóginn ekki vísað til n. við 1., heldur 2. umr. Með því lét d. ótvírætt í ljós, að hún æskti dóms samgmn. um það áður en atkvgr. færi fram. En þessum breyt. á vegal. er hrundið hér inn í d. af fáum þm. og einungis miðaðar við fáein kjördæmi á landinu. Síðan hefir rignt niður hinum mesta fjölda brtt., sem óhjákvæmilegt er að taka einhverja afstöðu til. Þetta finnst mér nægja til þess að sýna, að hér er um algerðan mismun á málefnum að ræða. Auk þess er álit samgmn. á leiðinni, en á hinn bóginn var það ekki vitanlegt, að von væri á nokkru slíku bráðlega frá fjhn. um tóbakseinkasöluna.

Hv. þm. G.-K. vildi fá frá mér nokkra skýringu á mannlegu eðli. Ég get sagt hv. þm. það, að það gæti bæði verið mjög fróðlegt og skemmtilegt að rannsaka slíkt, bæði hvað hann og aðra snertir, en satt að segja hafði ég hugsað mér, að margir aðrir staðir væru betur fallnir til slíkra rannsókna og lýsinga en hið háa Alþingi.

Hv. þm. Borgf. talaði um það, að ég væri með þessu atferli mínu að reyna að vaka yfir sálarheill minni og meðnm. minna. En sú mun vera raunin á, að ég er öllu fremur að vaka yfir sálarheill hv. þm. Borgf. og flokksmanna hans með því að reyna að koma í veg fyrir, að hann geri tilraun til þess að flaustra jafnþýðingarmiklu máli af og slá hendinni á móti þeim upplýsingum í málinu, sem kostur er á.

Hv. þm. vildi segja, að þegar tekin væri ákvörðun um, hvort þetta mál skyldi nú tekið út af dagskrá eða ekki, þá væri um leið teflt um framgang þess á yfirstandandi þingi. En mér finnst miklu sennilegra, að sé málið tekið á dagskrá í dag, þá verði það til þess að tefja fyrir því, þar sem allar þessar till. koma þá órannsakaðar og óflokkaðar til umr. Mér þykir það einnig mjög sennilegt, að oss dm. endist það, sem eftir er þingtímans, til þess að ræða hverja einstaka brtt., sérstaklega ef við á að hafa sama ákafann og hv. þm. Borgf. hefir sýnt í þessu máli, og ef það verður nokkuð, sem þessu frv. verður að fjörtjóni, þá er það einmitt hinn barnalegi ákafi þessa hv. þm. Annars er þetta kapp og þessi ákafi hv. þm. Borgf. í ýmsum þeim málum, sem hann beitir sér fyrir, svo alkunnugt, að menn munu telja það broslegri áhuga en þann, sem ég að hans dómi sýni í því að koma þessu máli fyrir kattarnef.

Ég skal svo ekki fara mörgum fleiri orðum um þetta, en vil aðeins geta þess, að hv. þm. Vestm. virtist það engu máli skipta, hvernig færi um afgreiðslu þessa máls, né heldur þótt hvorki væri komið nál. frá honum eða meiri hl. n.; honum virtist einnig liggja í léttu rúmi, hver rök lægju til grundvallar fyrir þeirri afstöðu, sem meiri hl. hefði tekið í þessu máli og væntanlega mundu hafa komið fram í nál. hans.