20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

38. mál, vegalög

Sveinn Ólafsson:

Það er vorkunnarmál, þótt hv. þm. Borgf. leggi slíkt ofurkapp á framgang þessa máls í dag, sökum þess, að þær umbætur, sem frv. á að gera á vegalögunum, lúta meira að hans eigin kjördæmi en nokkurs annars þm. En að sama skapi, sem breyt. þessar eru honum áhugaefni, af því að þær snerta svo mjög hans eigið hérað, þá lýsir sér hjá hv. þm. lítil umhyggja fyrir öðrum sveitum landsins, sem þó hafa eigi síður þörf og réttmæta heimtingu á því, að þeim sé rétt hjálparhönd í þessu efni. En nú er ekki annað sýnilegt en að einu möguleikarnir til þess, að þetta mál geti fengið fulla afgreiðslu á þessu þingi sé að skera niður allar brtt., sem fram eru komnar, og samþ. frv. óbreytt. Um þennan eina möguleika er hv. þm. vel kunnugt, enda virðist hann berjast ötullega fyrir því, að sú leið verði farin og frv. lögfest eins og það nú liggur fyrir. En ég verð að minna hv. þm. á það, að vegamálastjóri, sem hefir áður gert till. til samgmn. Ed. í þessu efni, hefir ákveðið lagt á móti ýmsum þeim vegum, sem í frv. eru teknir upp, og bent á það, að ýmsir þeirra séu með öllu óþarfir. Svo er t. d. um dýrasta veginn, þann sem ætlað er að girði Snæfellsnes. Má heita, að hann liggi um óbyggðir og verstu torfærur. Um aðra vegi í frv. má þó segja, að þeir liggi um mannabyggðir, þótt reyndar séu þeir í héruðum, sem bezt eru áður búin vegum. Það, sem hér kemur til álita, er það, hvort daufheyrast eigi við óskum allra landsmanna um vegabætur, nema þeirra fáu, sem koma til greina í þessu efni skv. frv. Þykir mér það næsta undarlegt, að hv. þm. Borgf., og þeir, sem honum fylgja að málum, skuli taka það svo óstinnt upp, þótt óskir komi fram um það að vísa málinu til stj. Af hvaða ástæðum munu slíkar óskir fram komnar? Það liggur í augum uppi, að þær byggjast á því, að með þeim hætti verði hægt að gera þá heildarrannsókn og undirbúning á málinu, sem nauðsynlegur er til þess að skera réttlátlega úr því, en sem ekki mundi verða gert, ef frv. yrði samþ. eins og það nú liggur fyrir.