15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Jónsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að standa upp aftur við þessar umr., og þarf ég þess ekki vegna þeirra till., sem hér liggja frammi til atkvgr. En það, sem olli því, að ég stóð upp, var það, að nokkrir hv. þm. gátu ekki stillt sig um að rifja upp eldhúsdagsumr., og drógu mín ummæli inn í þær umr. Bæði hv. 1. og hv. 2. landsk. sögðu, að mín ummæli um „Skýrslur um framkvæmdir“ hefðu fallið á þá leið, að ég hefði viljað hvetja stjórnina til þess að gefa út enn hlutdrægara rit. Hv. 2. landsk. var að benda hv. 1. landsk. á, hvílíkur voði gæti stafað af till. hans um leiðréttingu við þetta rit, ef menn eins og ég gætu þar einhverju um ráðið.

Ég kann ekki við annað en að leiðrétta þetta. Ég sagði, að ég teldi það æskilegt, að slíkar skýrslur kæmu út öðru hvoru, helzt eftir hvert kjörtímabil, og auðvitað ætti ekkert annað að ráða um þessar skýrslur en köld óhlutdrægni. Ég sagði það um þessa skýrslu, að hún fullnægði þessum skilyrðum að miklu, en ekki öllu leyti; hún væri ekki gallalaus, sem varla væri von um frumsmíð. Ég veit ekki, hvernig kjósendur eiga að fylgjast með í stjórnmálastarfi landsins, ef slíkar skýrslur eru ekki gefnar út öðru hvoru. E. t. v. væri heppilegra að láta hagstofuna gefa þessi rit út. — Hinsvegar mun ég aldrei snúa aftur með það, að í þessari bók, sem nú er rætt mest um hér, er margt stórfróðlegt og merkilegt, og ekkert í henni gefur tilefni til þeirra ádeilna og skamma, sem hér hafa farið fram í sambandi við hana. — Hv. 4. landsk. sagði ennfremur, að í þessari skýrslu, sem hér ræðir um, væri á hverri einustu blaðsíðu meiri og minni hlutdrægni, stíluð upp á hagsmuni eins flokks. Nú ætla ég að biðja hann að sanna mál sitt, með því að henda mér á slíka hlutdrægni, ekki á einstökum blaðsíðum, heldur í heilum köflum. Ég ætla að nefna t. d. kaflana um vita, brýr, síma og landbúnaðarmálin. Ég hefi ekki haft tíma til þess að fara yfir fleiri kafla, en mér þykir ólíklegt, að þessir séu þeir einu. Það, sem aðallega hefir stýrt tungu stjórnarandstæðinga í umræðum um þessa bók, er lítilfjörleg gremja. Ég held, að hún stafi ekki af öðru en því, að þeir sjái ofsjónum yfir hagkvæmni stj., sem hún hefir sýnt með útgáfu þessa rits, og þyki framkvæmdirnar, sem orðið hafa í tíð núv. stj., tala of berlega máli hennar við þjóðina alla.

Hv. 4. landsk. taldi lítið varhugavert að samþ. ýmsar till., sem miðuðu að auknum útgjöldum, af því að nauðsyn bæri til þess, að stj. hefði sem minnst fé undir höndum, sem hún gæti farið með eftir eigin geðþótta. Hv. þm. tók munninn mjög fullan um öll þau ógætilegu fjárútlát, sem stj. hefði framkvæmt á undanförnum árum. Það getur verið, að eitthvað sé hæft í þessu, en ég ætla að benda hv. þm. á það, að slíkt hefir tíðkazt áður. Ég ætla í því sambandi að minna á árið 1925. Ég hygg, að það ár hafi þær greiðslur, sem voru umfram fjárlög, oltið á milljónum. Ég er ekki að halda því fram, að þetta sé heppileg fjármálastjórn, auðvitað á að halda sér sem mest við fjárlögin.

Eins og hv. frsm. fjvn. benti á, eru fjárhagshorfurnar nú svo svartar, að þörf er fullrar gætni, og það mun sýna sig, að á þessu þingi hefir verið farið allt of ógætilega með fjárveitingar; það mun tíminn sanna.