23.07.1931
Efri deild: 8. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (2447)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Einar Árnason:

Eins og hv. 1. flm. tók fram, er þetta frv. næstum því shlj. frv. um sama efni, sem já fyrir síðasta þingi.

Höfuðatriði þessa frv. er það hvað ríkissjóð snertir, að farið er fram á ábyrgð ríkissjóðs á allt að 7 millj. kr. láni til að virkja Sogið. Nú er það sjálfsagt, þegar ríkissjóður á að ganga í ábyrgð fyrir fyrirtæki, að þá sé athugað, hvort nokkur áhætta fylgi þeirri ábyrgð, og í öðru lagi, hvort ábyrgðin sé óhjákvæmileg.

Hv. 1. flm. tók fram tvær ástæður fyrir því, að ríkisábyrgð þyrfti að fá. Hin fyrri var sú, að með því fengjust betri lánskjör. Hin síðari var sú, að nokkur uggur væri nú með fjármálamönnum erlendis um það, að þrengt yrði svo kosti Reykjavíkurbæjar af pólitískum ástæðum, að áhætta væri fyrir erlenda menn að leggja peninga í þetta fyrirtæki, ef ríkissjóður væri ekki bundinn í málið.

Fyrra atriðið hefi ég ekkert um að segja. Það kemur hvorki fram í grg. frv. eða í ræðu hv. flm., hvað gert hefir verið að því að útvega lánsfé í þessu skyni, eða hvort nokkur tilboð liggi fyrir, og þá hver þau séu. Ég minnist þess að hafa heyrt um það talað, að á síðastl. ári færu menn utan af hendi bæjarstjórnar til þess að, útvega lán til þessa fyrirtækis, og að þeir hafi ef til vill fengið tilboð um lán með ríkisábyrgð.

Eftir því, sem ég hefi heyrt, virðast þessi lánstilboð ekki vera sérstakl. hagstæð. Væri gott að fá að vita, hvernig þau kjör hefðu verið og hvort þau stæðu enn til boða.

Þá kem ég að þeirri ástæðu hv. flm., að þrengt yrði svo kosti Reykjavíkur af pólitískum ástæðum, að fyrirtækinu gæti staðið hætta af því. Mér kom þessi ástæða nokkuð á óvart: hafði ekki heyrt hennar getið á þinginu í vetur. Mér þykir hún æðiótrúleg. Ég veit ekki, hvort nokkuð hefir gerið gert í þessu máli af hálfu bæjarstj. Reykjavíkur, en býst við, að það komi fram í þessu máli, ef svo væri. Vil ég þá biðja hv. flm. að skýra frá því og þá um leið, hvernig nú er útlit um fjárútvegun til þessa fyrirtækis.

Um þetta liggja engar upplýsingar fyrir, og því gefur að skilja, að örðugt muni vera fyrir þingið að taka ákvörðun um mál, þar sem aðalatriðið er óupplýst. Ég viðurkenni, að hér er mikilsvert mál á ferðinni, en þeim mun meiri ástæða er til að krefjast þess, að allar upplýsingar liggi fyrir, áður en ákvörðun er tekin um það.