23.07.1931
Efri deild: 8. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (2448)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Jón Baldvinsson:

Þegar þetta mál var flutt í vetur að tilhlutun allshn. Nd., bjuggust fylgjendur málsins við því, að það væri komið í trygga höfn. Þá var loksins lokið þeim undirbúningi, sem andstæðingar málsins höfðu staðið í vegi fyrir, og möguleikar voru fyrir hendi að fá fé. Ég segi þetta því fremur, þar sem aðalforustumenn Framsóknar hafa látið svo alla tíð frá 1918, að þeir hefðu áhuga á virkjun Sogsins. Má sjá ummæli og tillögur í Alþt. frá þeim tíma, sem staðfesta þetta, enda veit ég af viðtali við suma þeirra, að þeir létust jafnvel ekki vera fjarri því, að ríkið virkjaði þessi fallvötn fyrir Reykjavík. Þessi ár var Íhaldið í bæjarstj. Reykjavíkur algerlega andstætt Sogsvirkjuninni og sú andstaða var fyrst brotin á bak aftur með bæjarstjórnarkosningum 1930. Meiri hl. bæjarstjórnar var þá orðinn málinu fylgjandi og þar með var þeim þrándi velt úr götu, sem til þessa virtist einkum hafa tafið fyrir framgangi málsins. Þannig leit þetta út frá mínu sjónarmiði. En einmitt þegar ástæða er til að ætla, að allir flokkar séu orðnir sammála um málið, ráðast ráðherrar Framsóknarflokksins harðlega á móti frv. og berjast á móti því sem grimmilegast, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir Reykjavík. Aldrei hafa þó verið færð nein rök fyrir því, að hætta fylgdi þessari ábyrgð. Andstæðingar málsins hafa sagt, að Reykjavík væri svo vel stæð, að hún ætti að geta fengið þetta lán upp á eigin ábyrgð. Þetta er einmitt sönnun fyrir því, að áhættan er alls engin fyrir ríkissjóð. En það er til önnur ástæða fyrir því, að bænum er ríkisábyrgð nauðsynleg og hv. flm. hefir þegar drepið á hana. Hún er sú, að með ríkisábyrgð er erlendum lánardrottnum tryggt, að ekki verði lagðar neinar þar kvaðir á fyrirtækið af löggjafarvaldinu, sem gætu orsakað tap á því. Þetta getur alltaf komið fyrir, ef ríkissjóður hefir þar engra hagsmuna að gæta.

Úr því nú að engin áhætta fylgir ábyrgðinni og allir eru sammála um þörf virkjunarinnar, þarf ekki að eyða að því mörgum orðum, að stjórninni ætti að vera það hið mesta kappsmál, að þetta mál næði fram að ganga, einmitt á þessum tímum, þegar öll vopn standa á stj. og Alþingi um að halda uppi framkvæmdum og atvinnu. Ekkert væri eðlilegra en að stj. og flokkur hennar tæki slíku frv. tveim höndum. Þótt hér sé að vísu engin ríkisstjórn skipuð enn, sem lýst geti yfir vilja sínum í þessu máli, þykir mér þó leitt, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera viðstaddur hér, þar sem hæstv. forseti Sþ. hefir lýst því yfir, að skoða bæri þá stj., er nú fer með völdin, sem pólitíska stj. Væri fróðlegt að heyra, hvernig hæstv. fjmrh. færi að því, að fóðra andstöðu sína gegn frv. sem þessu, sem enga áhættu hefir í för með sér, hrindir af stað nauðsynlegu fyrirtæki fyrir sveitir og kaupstaði og eykur atvinnu í landinu.

Spurt hefir verið af hálfu Framsóknar. hvað gert hafi verið í þessu máli, hvort Reykjavík hafi ekki getað fengið lán sjálf, og verið talað um aðrar leiðir. En ég á bágt með að trúa því, að þingið telji það æskilegri leið að selja útlendingum þessar orkulindir á leigu eða veita þeim sérleyfi til að selja landsmönnum rafmagn. Vitanlega yrði stjórnin og löggjafarvaldið að binda sig á ýmsan hátt um að vernda rétt þeirra útlendinga, sem virkjunina hefðu með höndum, og veita þeim hlunnindi, ef sú leið yrði farin. Ég hefði satt að segja vænzt þess, að stj. léti eitthvað til sín heyra um þetta mikilsverða mál, sem er eins mikilsvert fyrir framsóknarmenn og aðra. Þó að Framsókn hafi notað það sem agn í kosningunum, að Reykjavík hafi ætlað að véla landið út í hættulega milljónaábyrgð, þá eru slíkar blekkingar ekki góð og gild vara í þingsalnum, enda þótt þær kunni að hafa hjálpað einhverjum framsóknarþingmanninum þangað.