23.07.1931
Efri deild: 8. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Jónas Jónsson:

Ég vildi koma með nokkrar aths. út af ræðu hv. 2. landsk. Hann sagði, að Framsókn hefði verið fylgjandi þessu máli þangað til í vetur. Þetta þarf leiðréttingar við. Sannleikurinn er sá, að Framsókn hefir ávallt verið og er enn fylgjandi því, að þessi virkjun sé framkvæmd á skynsamlegum grundvelli. Á þeim árum, sem Íhaldið drap þetta mál 16 sinnum í bæjarstj. Rvíkur, lögðum við framsóknarmenn þessu máli hvað eftir annað liðsyrði á þingi. Við höfum ávallt verið því fylgjandi að tryggja vatnsaflið til skynsamlegrar notkunar fyrir landið eða bæinn. M. a. hefir verið talað um járnbraut austur, er fengi kraft frá Soginu. Sú braut hefði komið ríkinu við. En um það hefir aldrei verið rætt í sambandi við þetta mál áður, að ríkið ætti að ganga í ábyrgð fyrir sveitar- eða bæjarfélag. Framsóknarmenn eru allir með því sem borgarar í Reykjavík að ganga í þessa ábyrgð, að því er snertir bæjarfélagið. En þingflokkurinn hefir ekki séð enn, að ástæða sé fyrir ríkið að ganga í ábyrgð fyrir bæinn. Þetta er alveg ný hlið á málinu. Og í þessu máli kemur fleira til greina en hv. 2. landsk. læzt vita af. Hann sagði eins og rétt er, að íhaldsmeirihl. í bæjarstj. hefði jafnan beitt sér gegn málinu, og þýðir ekki fyrir hv. 4. landsk. að ætla sér að hrekja þá staðreynd. Hin fullyrðing hv. 2. landsk., að Íhaldið í bæjarstj. sé nú snúið til fylgis við málið, orkar aftur á móti meira tvímælis. Nú er meiri hl. búinn að ákveða að bæta stórum við Elliðaárstöðina og hefir verið að reyna að fá fé til þess að láni. Hvað meinar meiri hl. með því að vera að bæta við Elliðaárstöðina og koma þar fyrir rafvélum af ýmsu tægi með ærnum kostnaði, ef á svo að fara að byggja stöð við Sogið, svo stóra, að Reykjavík getur ekki hagnýtt sér allt það afl, sem hún framleiðir? Þetta sýnir, að meiri hl. dettur ekki í hug, að virkjun Sogsins sé nálæg. Eftir því sem ég hefi heyrt, var Sigurður Jónasson hvað eftir annað keyrður aftur á bak af íhaldsmeirihl., er hann vildi láta halda undirbúningi málsins áfram, enda mun hann hafa álitið, að bæjarstj. vildi ekkert um málið hugsa. Það er líka alkunnugt, að Íhaldið og málgögn þess hafa sérstaklega svívirt Sigurð Jónasson út af afskiptum hans í þessu máli, einmitt af því hann hefir ótrauðlegast barizt fyrir þessu máli.

Þessi sami maður hefir lagt fram tilboð frá erlendu félagi um rafmagn með föstu verði handa Reykjavík og Hafnarfirði. Þessar áætlanir hafa e. t. v. ekki verið fyllilega ábyggilegar, en þeir, sem þekkja mismuninn á rafmagnsverðinu eins og það er og eins og hv. l. landsk. reiknaði út að það yrði, ættu ekki að láta sér slíkt í augum vaxa. Eftir reynslu af útreikningum þessa hv. þm. er ekki gott að gera sér í hugarlund, hvað hin nýja stöð við Sogið myndi kosta. Hér er beðið um sjö millj. kr. ábyrgð, en eins sennilegt er, að stöðin kosti 14 millj., ef miðað er við útreikninga hv. 1. landsk. Borgarar í Reykjavík eru farnir að kannast við, hversu ábyggilegar áætlanir verkfræðinganna eru. Það virðist því ekki vera nein goðgá, þótt þeirri spurningu sé varpað fram, hvort ekki gæti komið til mála, að hagkvæmur samningur við erlent félag gæti verið jafngóður. Það þarf ekki að ganga að neinu verði blindandi. Eðlilegast að miða verðið á rafmagni við kostnaðarverð á nokkrum sambærilegum stöðum.

En maður getur betur skilið en áður, hvers vegna Íhaldið hefir ekki kært sig um að hraða málinu meira en þetta. Það er sem sagt vegna þess, að það sér, að Rvík muni ekki njóta allra þeirra fríðinda af virkjuninni, sem lofað hefir verið á kjósendafundum. Hv. 1. landsk. lét svo um mælt á kosningafundum í Ólafsvík og Sandi, að þegar virkjunin væri komin í kring, gætu Sandarar og Ólsarar haft nóg rafmagn til ljósa, hita og suðu. Menn þar vestra efuðust um þetta, og ég líka. Nú er komið fram í skjölum verkfræðinganna, að rafmagn frá Soginu muni vera helmingi dýrara í sjálfri Rvík til hitunar en má vera.

En þetta brá einkennilegu ljósi yfir það, hvernig ástatt er um þetta mál, þannig, að forgöngumennirnir sjálfir tala svo, að það sé ekkert nema suðurafmagn og eitthvað til iðnaðar, sem Reykjavík á að geta fengið upp úr þessu. Það sé ekki hægt að spara kol til upphitunar með rafmagninu, sem er náttúrlega stór liður í hitaorkuþörfinni í Rvík, nefndin hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að rafmagnið gæti ekki keppt þar við kolin. Reykjavík þarf ekki ljós frá þessari fyrirhuguðu stöð, bærinn hefir nóg ljós frá gömlu stöðinni, sem er nú verið að stækka, svo að það er aðallega suðurafmagn fyrir einhvern hluta Reykjavíkur, sem hér er farið fram á, og eitthvað til iðnaðar.

Það er í mesta máta ólíklegt, að þetta spursmál um það, hvort konur í Reykjavík geti soðið við rafmagn, en ekki við kol, sé svo stórt, að það þurfi að taka 7 millj. að láni með ríkisábyrgð. Þetta mál kemur, ef bærinn stækkar mikið ennþá og hefir það lánstraust, sem hann að réttu lagi á að hafa. En það er skiljanlegt, að íhaldsmenn vilji ekki sjálfir hætta sér í það fyrirtæki, svo mikill kostnaður og ábyrgð sem hlýtur að fylgja því, en tiltölulega lítils hagnaðar af því að vænta, eftir því sem forgöngumennirnir sjálfir segja.

Það er náttúrlega fjarstæða, að Reykjavíkurbær geti ekki fengið lán til þessa fyrirtækis á eigin ábyrgð, af því að útlendir fjármálamenn búist við, að Reykjavík verði íþyngt af landinu. Það hefir aldrei komið raunverulegur vitnisburður um þetta frá útlendum fjármálamönnum, enda hefir lélega verið unnið að því að útvega fjármagn í fyrirtækið. Og auk þess er þetta sama og að halda því fram, að okkar þjóðfélag sé á lægra stigi en önnur þjóðfélög skyldra þjóða, ef fjármagninu er ekki óhætt á Íslandi fyrir því, að þjóðfélagið ráðist á það með rangindum. Raunar veit ég, að vissar blaðagreinar, visst umtal, t. d. hér í höfuðstaðnum, gæti komið þeim til að halda, að sumum leiðtogum hér á landi væri ekki trúandi fyrir fjármagni, — en það er hlutur, sem bæjarbúar verða að venja sína menn af. En það hefir hvergi komið fram, svo að sannað verði, nokkur tortryggni gagnvart Alþingi um að svona fyrirtæki stæði hætta af ranglæti þess, enda vita þeir, sem eru nokkuð kunnugir okkar sögu, að ekkert dæmi er til slíks. Það má nefna sænska íshúsið hér eða hinar útlendu síldarhræðslustöðvar. Þau fyrirtæki lifa undir sömu vernd og fyrirtæki landsmanna sjálfra.

Þessi ummæli vildi ég láta fylgja frv. um leið og það fer í nefnd.