23.07.1931
Efri deild: 8. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Jakob Möller:

Ég held að okkur flm. megi á sama standa, þótt þessi ummæli hv. 5. landsk. fylgi frv. Ég sá ekki betur en að jafnvel flokksmenn þm. nenntu ekki að hlusta á hann, enda er sannleikurinn sá, að það var ekki þess vert.

Hv. 5. landsk. var ekki viðstaddur framsöguræðu málsins, ekki ræðu hv. 2. þm. Eyf., heldur ekki ræðu hv. 4. landsk., og heyrði yfirleitt ákaflega lítið af því, sem búið var að segja um þetta mál. Hann er hér á flökti fram og aftur, heyrir eitt hjá einum og annað hjá öðrum. Hann hlustaði eitthvað á ræðu hv. 2. landsk., en vissi ekki, að þau atriði, sem hann talaði um, var búið að hrekja, t. d. það, að sjálfstæðismenn í bæjarstj. Rvíkur hefðu verið á móti Sogsvirkjunjnni, og að mótstaða þeirra hefði ekki verið brotin á bak aftur fyrr en við bæjarstjórnarkosningarnar 1930. Enda má sanna það skjallega, að þetta er algerlega rangt. Árið 1929 var Sogsvirkjunin boðin út, og bæjarstj. var því búin að samþ. virkjunina áður en kosningin fór fram. Og meiri hl. í rafmagnsstjórn, sem er sjálfstæðismenn, var búinn að hafa þetta mál til undirbúnings um langt skeið. Hv. 5. landsk. hefði því átt að geta komizt hjá því að taka upp þessa vitleysu eftir hv. 2. landsk.

Hinsvegar þykir mér leitt, að hv. 2. þm. Eyf. er hér ekki viðstaddur, því að honum vildi ég þakka fyrir undirtektir hans undir þetta mál. Mér skildist, að hann vildi athuga þetta mál með fullum skilningi. Hins óskaði hann, að fá vitneskju um, hvað gerzt hefði í málinu síðan þingi sleit í vor. Þar til er því að svara, að ákaflega lítið hefir gerzt í málinu, en til þess liggja ofureðlilegar ástæður. Bæjarstj. var búin að taka málið í sínar hendur og gera ráðstafanir til þess að koma því í framkvæmd. Þá er skipuð raforkumálanefnd ríkisins, sem tekur málið upp á nokkuð öðrum grundvelli; og þá var ekkert annað fyrir en að bíða og sjá, hvað þingið gerði í málinu. Það er því eðlilegt, að ekkert verulegt hafi gerzt í því, síðan það komst inn á þennan rekspöl. Ég get bætt því við, að bæjarstj. unir því vel, að svona er nú komið málum.

Hv. 1. landsk. taldi tvær ástæður fyrir því, að slík samvinna, sem frv. fer fram á milli bæjar og ríkisins, sé æskileg, og þá líka ríkisábyrgð fyrir fé til virkjunarinnar. Ég hefi heyrt hv. ræðumenn véfengja, að það sé rétt, að ábyrgð ríkisins á láni til kirkjunarinnar hefði nokkra þýðingu í sambandi við afstöðu þess gagnvart erlendum lánardrottnum. Ég get þó upplýst, að þegar talað er við útlenda fjármálamenn um lánveitingar til svona fyrirtækja, þá er hið fyrsta, sem þeir spyrja um, hvort þetta sé pólitískt mál og skipti flokkum. Og ef þeir fá að vita, að ákveðinn flokkur sé mótfallinn því, þá horfir málið þannig við, að þeir vilja ekkert eiga við það. Það er mesti misskilningur, ef menn halda, að það hafi engin áhrif á möguleika fyrir láni, hvernig afstaða þingsins er til framkvæmdanna. Enda er sannleikurinn sá, að eini lánveitandinn, sem verulega hefir verið talað um, setti sem ákveðið skilyrði, að ríkisábyrgð yrði fyrir láninu. Ekki af því, að hann áliti ekki bæinn fulltryggan lántakanda eða fyrirtækið gott; því var yfir lýst, að hann áliti fyrirtækið fullkomlega fært um að bera sig sjálft. En samt var ríkisábyrgð ófrávíkjanlegt skilyrði, og hvaða ástæður geta verið til þess, nema að hann óttaðist, að ríkið gæti haft áhrif á afstöðu fyrirtækisins?

Hv. 2. þm. Eyf. drap á það, að lánskjörin, sem bæjarstj. hefðu boðizt, væru ekki góð. Það er satt. En það verður að athuga, hvernig á stóð. Verkið var boðið út þannig, að framkvæmd verksins og lánveitingin voru boðin út saman. Þegar tilboðin komu, voru aðeins tvö fullkomin, en þó fylgdi aðeins öðru fyrirheit um lánsfé. Þessi lánveitandi stendur því þannig að vígi, að hann hefir engan keppinaut og var ekkert áður búinn að láta uppi um lánskjörin í tilboðinu. En þó get ég upplýst, að þessi sami lánveitandi, sem er í Stokkhólmi, bauð ríkisstj. lán, og það með nákvæmlega sömu kjörum og bænum. En þess ber líka að gæta, að þessi tilboð bæði komu rúmum mánuði áður en ríkislánið var tekið. Eftir að þau hafði verið tekið, símaði þessi áðurnefndi lánveitandi til bæjarstj. og bauð betri kjör. En út af umtali um tilraunir bæjarfélagsins til að fá lán vil ég geta þess, að menn þeir, sem sendir voru utan, fóru til þess að semja við þennan eina lánveitanda, en ekki til þess að gera almennar tilraunir til lántöku, enda hafa slíkar tilraunir ekki verið gerðar af þeim ástæðum, að þegar á þingið kom, komst málið inn á annan grundvöll. Síðan hefir bæjarstj. beðið eftir úrslitum í þinginu. Í vor fór svo, að þingið var rofið. En ef sú verður niðurstaðan, að þingið leggst alveg á móti þessu máli, þá býst ég við, að bæjarstj. leggi ekki árar í bát, heldur reyni á eigin ábyrgð að útvega lán. En þá vil ég benda á það, sem hv. 1. landsk. einnig minntist á, að með því móti verður varla komizt hjá hærri vöxtum. Þetta er fjárhagsstjórnarleg vitleysa, því að með þessu er ríkið ekkert að gera annað en skaða sig. Því betri lánskjör sem Reykjavíkurbær fær, því öflugri þáttur verður hann til þess að standa undir þeim byrðum, sem ríkið þarf að bera. Og þótt ríkið gangi í slíka ábyrgð, fer því fjarri, að það verði því til lánstraustshnekkis. Það er þvert á móti. Því meira sem gert er af slíkum framkvæmdum, því meira verður lánstraust ríkisins.

Út af lestri hv. 5. landsk. hefi ég ekki fleira að segja en ég þegar hefi gert. En þar sem hann talaði um, að „íhaldið“ í bæjarstj. Rvíkur hafi drepið tillögur Sigurðar Jónassonar, þá má geta þess, að það voru flokksbræður hv. 5. landsk, sem voru á móti þeim, ekki síður en aðrir bæjarfulltrúar, því að Sig. Jónasson stóð einn uppi með sínar tillögur,og það fór jafnvel svo, að hann stóð ekki uppi sjálfur.