23.07.1931
Efri deild: 8. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (2453)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Jón Baldvinsson:

Hv. 5. landsk. hefir nú haldið hér tvær ræður. Í fyrri ræðunni flöktaði hann á við og dreif, og varð eiginlega hvergi vart við, að honum væri ljóst, hvernig málið stæði. Hann talaði um, að það væri einhver ný aðstaða í málinu, að ríkið þyrfti að taka ábyrgð á láni til virkjunarinnar. En ég geri ráð fyrir, að þeim mönnum, sem hafa hugsað sér virkilega framkvæmd málsins, hafi aldrei dottið annað í hug en að bæjarfélagið þyrfti aðstoð við slíkt stórfyrirtæki.

Það hefir tíðkazt á undanförnum árum, að ríkissjóður hefir styrkt allar meiri háttar framkvæmdir, sem gerðar hafa verið, og má í því sambandi minna á allar hafnarbæturnar, sem ríkissjóður hefir ýmist veitt lán til eða ábyrgðarheimildir fyrir lánum. Það, sem hv. 5. landsk. sagði, að hann sem borgari í Rvík hefði ekkert á móti því að ganga í ábyrgð þessa, þá fannst mér það hálfspaugilegt, því bæjarstj. er búin að samþykkja þetta og vitanlega þar með búið að binda alla borgara bæjarins í þessu máli.

Í fyrri ræðu sinni minntist hv. 5. landsk. á þessa nýju virkjun, sem verið væri að gera inni við Elliðaár. Virkjun þessi er aðeins viðbót við stöðina, sem fyrir er. Það er verið að leggja nýja leiðslu niður að stöðinni, og á þann hátt er mögulegt að framleiða meira rafmagn en áður hefir verið gert.

Hv. 5. landsk. var að spyrja um, hvernig þingið stæði sig við, eftir að hafa samþ. þessa ábyrgðarheimild, að neita svo Vestmannaeyingum, Rangæingum og Árnesingum um ábyrgðarheimild til þess að leiða rafmagn til sín, ef þeir kynnu að fara fram á slíkt. Til þess er því að svara, að ég álít, að Alþingi skuldbindi sig ekki á neinn hátt til þess að veita Vestmannaeyingum, Rangæingum og Árnesingum lán eða ábyrgðarheimildir, þótt það veiti þessa ábyrgðarheimild. Það er nú einu sinni svo, að Alþingi á að styrkja þau fyrirtæki, sem það álítur heppilegast, og það hefir fullkomið vald til þess að velja og hafna í þeim málum. Við höfum t. d. veitt ¾ millj. kr. til þess að byggja skóla á Laugarvatni, og nú koma Rangæingar og vilja líka fá skóla, þá er ekki þar með sagt, að við séum skyldir að veita einnig lán til þeirrar stofnunar, þó að Rangæingar áliti sig hafa fullkomna þörf fyrir það. (JónasJ: En Vestmannaeyinga vantar rafmagn). Já, þá vantar rafmagn, og fyrsta sporið til þess að veita þeim það er að veita nú þessa ábyrgðarheimild til Sogsvirkjunarinnar, og er virkjuninni er lokið, þá er, ef hv. 5. landsk. endilega vill, að veita Vestmannaeyingum lán til þess að leiða rafmagnið til sín. Það er hvort sem er ekki hægt að veita þeim ljósið fyrr en búið er að koma upp stöðinni. En ég vil ítreka það, að það er fjarstæða hjá hv. 5. landsk., þar sem hann heldur því fram, að við þurfum að veita slíkar heimildir fyrir alla aðra, þó að samþ. verði ábyrgðarheimild fyrir Reykjavík til Sogsvirkjunarinnar. Ég hefi sjálfur oft séð hv. þm. greiða atkv. á móti ýmsum till. til framkvæmda í þessu eða hinu héraði, þótt þeir hafi greitt atkv. með samskonar till. fyrir önnur héruð, og í þessum málum verðum við alveg eins að velja úr, veita lán og ábyrgðarheimildir til þess, sem vér teljum bezt til þess fallið, og hafna hinu. Og þó þessi heimild til Sogsins verði veitt, þá fer fjarri, að með því sé skapað neitt algilt fordæmi.

Það á nú ef til vill ekki við að fara að rifja upp gamlar væringar; en þó að við jafnaðar- og íhaldsmenn séum nú á þessum degi sammála um þetta mál, þá get ég ekki stilli mig um að rifja upp hina fornu og fjandsamlegu baráttu Íhaldsins gegn Sogsmálinu. Það má segja, að Íhaldið í bæjarstj. Rvíkur hafi frá því þetta mál kom fyrst fram verið eindregið á móti því fram til ársins 1930, er nýir menn komu í bæjarstj., þ. á. m. hv. 1. þm. Reykv., og þessir nýju menn tóku ráðin í sínar hendur, en borgarstjóri, sem ávallt hafði verið á móti málinu og neytt áhrifa sinni í bæjarstj. til þess að hindra framgang þess, varð að láta undan. Meiri hl. bæjarstj. hafði að vísu druslazt til þess að samþ. útboð í virkjunina árið 1929, en það vissu allir, að ekki var ætlazt til, að sú samþ. væri tekin alvarlega, og útboðin, sem þá voru gerð, voru einungis til málamynda. En nú er meiri hl. bæjarstj. orðinn málinu fylgjandi. En það má segja, að það sé Íhaldinu í bæjarstj. að kenna, að við þurfum nú að kasta fé til viðbótar Elliðaárstöðinni. Sogsmálið átti að vera komið í kring fyrir löngu, þó að hinsvegar geti verið, að Tímaflokkurinn hefði snúizt á móti því, þegar hann hefði verið farinn að óttast, að það næði fram að ganga, en hefði málinu verið hraðað og unnið að því eins og hv. 4. landsk. vildi vera láta, að sjálfstæðis- eða íhaldsmennirnir í bæjarstj. hefðu viljað, þá hefði málið ekki legið fyrir þinginu 1931, heldur þinginu 1927 eða '28, á sama hátt og það lá fyrir síðast. Það er nú söguleg vitleysa hjá hv. 4. landsk., að það hafi verið á dagskrá í bæjarstj. í 7 ár. Hann miðar líklega við þann tíma, er hann kom í bæjarstj., en þegar 1920 var farið að ræða málið þar, og það hefir verið miklu lengur á dagskrá.

Það hefir alltaf verið ljóst mörgum mönnum hér í bænum, að það þyrfti að virkja Sogið, og það hefði óneitanlega verið gott, ef hægt hefði verið að komast hjá því að leggja meira fé í Elliðaárstöðina, sem hvort sem er aldrei nægir bænum.

Ég vil svara hv. 5. landsk. því, að það liggur mikið á, að þessu máli sé hraðað, því að það tekur alltaf 4-5 ár unz búið er að virkja Sogið, svo að hægt sé að fá þaðan rafmagn, og þó að peningar fengjust til þess í haust, þá er nú, úr því sem komið er, nauðsynlegt að gera þessa viðbót við Elliðaárstöðina.