23.07.1931
Efri deild: 8. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (2454)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Flm. (Jón Þorláksson):

Ég held, að hv. 1. þm. Reykv. hafi nokkurnveginn verið búinn að svara fyrirspurnum hv. 2. þm. Eyf. viðvíkjandi því, hvernig lánskjör myndu fást, og skoðun lánveitenda á því, hvort þeim þætti það nauðsynlegt, að ríkisstj. væri í ábyrgð til þess að tryggja, að fyrirtækið yrði ekki fyrir áreitni af hálfu löggjafarvaldsins. Ég vil nú taka það fram, að það, sem hann hafði eftir mér, með réttu, að ég hefði sagt, að komið gæti fyrir, að kosti fyrirtækisins yrði þrengt af pólitískum ástæðum, þá átti ég ekki svo mjög við það, að slíkt yrði gert af andúð til Rvíkur, heldur af því, að aðrir vildu e. t. v. fá hlunnindi af þessu fyrirtæki, og tillátssemi gæti orðið við slíkum kröfum á þingi.

Það er yfirleitt svo, að löggjöf um vatnsvirkjanir er um heim allan komin í það horf, að ríkin hafa mikil afskipti af þeim málum. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að engir peningamenn telji nú á tímum tryggt að leggja fé í vatnsvirkjun í neinu landi, nema þeir hafi tryggt sér vinsamlegt hlutleysi viðkomandi landsstjórnar. Þetta liggur í því, að vatnsréttindi hafa í öllum löndum smám saman þokazt yfir á það svið, sem það var á í suðurhluta norðurálfunnar allt frá tímum Rómverja, þ. e. a. s., að stór vötn eru að miklu leyti undir yfirráðum hins opinbera, svo að ég er ekki í neinum vafa um hina stórvægilegu þýðingu, sem það hefir fyrir lánveitendur, að ríkið sé ábyrgt fyrir láninu.

Hv. 2. þm. Eyf. var í sinni ræðu að spyrjast fyrir um það, hvernig útlitið væri um fjárútvegun, og þeirri spurningu hans mun ekki hafa verið svarað. En hvað þýðir að vera að grennslast eftir horfum um það á meðan ekki er vitað, hvernig Alþingi myndi snúast í málinu og hvort það fengist til þess að samþ. þá löggjöf, sem nú er verið að reyna að byggja upp sem grundvöll fyrir fjárútvegunina? Það er ekki hægt að koma til fjármálamanna og spyrja þá, hvort þeir vildu ekki lána féð, ef Alþingi samþ. þetta, sem í rauninni hefði nú ekki verið tekið vel í. Hv. þdm. verða að gera sér ljóst, og ég veit, að hv. 2. þm. Eyf., sem sjálfur hefir verið fjmrh., gerir sér það ljóst, hvaða almennar ástæður eru fyrir því, hvort hægt verði að fá gott lán eða ekki. Frv. sjálft gerir þann fyrirvara í þessu efni, sem ég held, að sé réttmætur og nauðsynlegur, að ríkið bindist því aðeins ábyrgð fyrir láninu, ef fjmrh. samþ. lánskjörin. Með þessu er það tryggt, að ríkisstj. verði ekki teymd út í neitt það, sem henni þykir óráðlegt, af því að henni þyki lánskjörin óheppileg. Ég held, að ekki sé hægt að fá upplýsingar um það, hvaða lánskjör séu fyrir hendi, fyrr en svona löggjöf er afgr. Það hefði alveg eins mátt spyrja hæstv. stj. þegar hún tók síðasta lánið, hvaða lánskjör væru fyrir hendi, áður en hún fékk heimild þingsins til þess að taka lánið. Nei, góð lánskjör fást ekki með því að athuga fyrst, hvaða lánskjör eru fyrir hendi, og fara svo að þinga um, hvort að þeim skuli ganga, heldur með því að hafa fulla heimild í höndunum og geta samið þegar bezt hentar. Annars vil ég taka undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að mér þótti hv. þm. taka þolanlega í málið, og vona ég, að það verði fyrirboði þess, að því verði ekki vísað á bug.

Hv. 2. landsk. var dálítið að endurtaka þessa gömlu fjarstæðu um andstöðu íhaldsins, sem hann svo nefndi, í bæjarstj. Rvíkur gegn þessu máli. Það er nú svo, að þeir, sem eru nógu iðnir við að bera fram ósannindi, ávinna oft töluvert í bili við það að fá menn til þess að trúa sér. Nú á ég ekki við það, að hv. 2. landsk. hafi gert þetta svo mjög, heldur hafa ýmsir aðrir gert það miklu fremur.

Það er nú að vísu rétt, sem sagt var hér áðan, að málið er eldra en 7 ára, og undirbúningsráðstafanir enn eldri; ég held, að 10 ár séu síðan það kom til umr. að virkja annað fallvatnið í Soginu, en það var gert án þess að bæjarstj. væri kvödd þar til. Bæjarstj. hafði þá svo mikinn áhuga á því að ná raforku úr Soginu til bæjarins þarfa, að hún vann það til, að hún keypti vatnsréttindi á þessum stað í Soginu fyrir 20–30 þús. kr., til þess að tryggja sér, að þetta vatnsfall yrði ekki virkjað án hennar samþykkis. Þetta var áður en hv. 4. landsk. kom í bæjarstj., svo gamalt er þetta, þegar talað er um elztu drög til þessa máls. Fyrsta sporið til framkvæmda í þessu máli var, að 1921 var flutt og samþ. á Alþingi frv. til laga um rannsóknir til undirbúnings virkjun Sogsins frá mþn. í vatnamálum, sem starfað hafði hér 1918–1919. Frv. þetta var flutt inn í þingið af stj. Jóns heitins Magnússonar. Það er þessi rannsókn, sem útboðið á virkjun Sogsins var byggt á. Hitt er satt, að sjálfstæðismenn hafa á engum tíma viljað láta bæjarstj. hlaupa til og ráðast í framkvæmdir að órannsökuðu og óundirbúnu máli. Sjálfstæðismenn hafa alltaf krafizt góðs undirbúnings og fylgt málinu fram þegar hann var fenginn.

Hv. 5. landsk. kom hér inn í umr. án þess að hafa heyrt nokkuð af því, sem búið var að segja áður, og skaut auðvitað nokkuð skökku við hjá honum. Ég veit ekki, hvort ég á að þreyta hv. dm. á að tína upp það, sem hann sagði um málið af þekkingarskorti, svo að ég noti þau vægustu orð, sem unnt er, um hans ræðu. Hann talaði yfirleitt alltaf um þetta frv. eins og það væri borið fram vegna Rvíkur og Reykvíkinga, en þetta er auðvitað misskilningur. Eins og hv. 1. þm. Reykv. hefir bent á, þá hafði bæjarstj. þetta mál með höndum að því leyti sem það snerti Reykjavíkurbæ, en það var mþn. í fossamálum, sem átti að gæta þess, að sveitirnar, sem nær liggja, fengju þarna rafmagn með beztu kjörum, og þegar talað er um ástæður fyrir því að ganga í þessa ábyrgð, þá er höfuðástæðan sú, að Rvík lætur nærliggjandi héruðum þarna stórmikil hlunnindi í té.

Það hefir verið dregið dálítið inn í þetta virkjunin við Elliðaárnar, og vil ég gera grein fyrir þeirri hlið málsins. Það er nú verið að framkvæma 3. virkjunarstigið inni við Elliðaár, og með þeirri viðbót má vænta, að ekki verði sérlega mikill rafmagnsskortur í Rvík þau ár, sem væntanlega líða til þess er Sogsstöðin getur tekið til starfa. Það er fyrst og fremst til þess að rafmagn þrjóti ekki í Rvík, að þessi viðbót er gerð, og líka í öðrum tilgangi, sem ég held, að ég verði að gera grein fyrir.

Það er hugsað til þess, að þessi 30 þús. hestöfl, sem virkjanleg eru í Soginu, verði virkjuð í 4 stigum, þannig að fyrst verði tekinn ¼ hluti með einni vélasamstæðu, 7000–7500 hestöfl. Nú er þess yfirleitt krafizt til öryggis, að til séu varavélar, sem megi setja í gang þegar vél bilar og meðan á viðgerðum stendur, en hugsað er, að það muni vera hægt að spara þann kostnað að hafa varavél við Sogið, með því að gera Elliðaárstöðina svo stóra, að hennar vélar samanlagðar nægi sem varavélar á móts við eina vélasamstæðu í Soginu. Og það er ódýrara að stækka Elliðaárstöðina, svo að hún geti sparað þessa vél við Sogið, heldur en byrja með 2 vélasamstæður þar og hafa alltaf einni vélasamstæðu fleira en annars þyrfti. Þetta hefir mætt mótstöðu jafnaðarmanna í bæjarstj., en ég hygg, að það stafi af þekkingarskorti, því að frá hvaða hlið sem á það er lítið, þá er þetta rétt framkvæmd. Auk þess er tryggara fyrir Rvík og héruðin hér í kring að eiga sínar varavélar hér heldur en austur við Sog, því hér eru þær um leið varavélar við háspennuleiðsluna frá Soginu til Reykjavíkur.

Þá minntist hv. 5. landsk. bæði í fyrri og seinni ræðu sinni á tilboð, sem einn bæjarfulltrúinn. hr. Sigurður Jónasson. hefði flutt fram frá þýzku raforkufélagi um að taka við sérleyfi til virkjunarinnar á þessu fallvatni, og þar með fá rétt til þess að selja Reykjavíkurbúum rafmagn til almennra nota. Hann talaði svo ólíkindalega, að honum þótti það undarlegt, að sjálfstæðismenn, sem vildu hlynna að framtaki einstaklingsins, vildu nú ekki fara þessa leið. En hann þarf nú ekki að láta svo ólíkindalega; það eru ýmsir okkar, og þ. á. m. ég, sem ekki hefðu verið hræddir við að leyfa útlendingum að nota einhver fallvötn til rafmagnsframleiðslu til iðnaðarnota í eigin þarfir. Mér hefir alltaf fundizt, að atvinnuvegirnir í landinu voru ekki ennþá orðnir svo fjölbreyttir, að ástæða sé til þess að neita þeim mönnum um vatnsafl, sem geta komið af stað einhverjum iðnaði, en málið snýr öðruvísi við, þegar um rafmagn til almenningsnota er að ræða. Það er ekkert eðlilegra en að bæjarfélag, eða samlag fleiri héraða, sem þarf á rafmagni að halda til smáiðnaðar og annarar hliðstæðrar notkunar, fái að eiga þá orkuveitu, sem lætur úti rafmagni í smásölu til almennings. Það er hliðstætt því, þegar hið opinbera, ríki og bæjarfélög, hafa yfirleitt undir okkar þjóðskipulagi í sínum höndum fyrirtæki, sem miða að því að láta almenningi eitthvað í té, og eru þess eðlis, að þau verða að vera á einni hendi, eins og póstsamgöngur, sími og annað slíkt, sem eru undir stjórn hins opinbera, af því að þau hafa þau einkenni á sér, að almenningur þarf að nota þau, og eru þannig vaxin, að bezt er, að þau séu á hendi eins aðila. Alveg eins er það með raforkuveituna, og þess vegna álít ég, að það verði að halda því nokkuð föstu, að slík fyrirtæki séu í almennings höndum. En það verða menn að gera sér ljóst, að ef það verður niðurstaðan að slá alveg frá sér þeirri hugsun, að sveitirnar verði aðnjótandi þessara gæða, og þess vegna beri að líta svo á, að hér sé aðeins um að ræða fyrirtæki fyrir Rvík, þá má náttúrlega neita um alla aðstoð ríkisins til slíkra framkvæmda og láta þá reka á reiðanum með, hvort Rvík getur fengið fjármagn til að koma þessu upp sem bæjarfyrirtæki og án ríkisins íhlutunar og ábyrgðar. En ef það tekst ekki, þá er hitt framundan, að þetta verður að láta í hendur einstakra manna, og þá er líka þar með alveg fyrirgert, að seinna meir sé hægt að koma þeirra breyt. á, að sveitir geti orðið þeirra hlunninda aðnjótandi, sem hér er farið fram á í frv. Hv. 5. landsk. lýsti yfir því, að hann áliti ekki verra að fá hentugt samninga við einkafyrirtæki. Hann er allt í einu orðinn því fylgjandi að veita einstökum félögum sérleyfi til virkjunar þessarar, og það þótt útlend séu. Ég geri mér von um, að þessi afstaða sé ekki grunduð, heldur fram borin til þess að slá þessu máli á dreif. Það er varla eyðandi orðum að mótbárum eins og þeirri, að það sé ekki ætlazt til, að Rvík fái rafmagn til húsahitunar, og þess vegna geti sveitir ekki fengið frið heldur. Þessi röksemdafærsla er algerlega röng. Húsahitun hér í Rvík er svo ódýr, en hinsvegar kröfurnar um hitamagn svo miklar, að það er óvíst, hvort framþróunin fer í þá átt, að upphitun með rafmagni verði sérlega algeng í bænum. Ef framþróunin fer ekki í þá átt, þá er það af því, að Rvík á kost á ódýrari úrlausn á annan hátt. En ekki er sjáanleg framundan nein úrlausn á þessu spursmáli á sveitaheimilum, sem verður eins ódýr og hitun með raforku frá stöðvum með ódýru afli, ef annars tekst að leysa þá þraut að koma taugunum frá raforkuverinu til sveitaheimilanna. Ég veit ekki, hvort ég get gert næsta grein fyrir þessu, en skýringuna um þetta er að finna að miklu leyti í þeim undirbúningi, sem utanþingsnefnd í raforkumálum hefir gert, og skýringin liggur í því, að taugar þær, sem leggja verður til heimilanna út um sveitir, verða að vera, til þess að þola átök veðráttunnar, svo gildar, að þær nægi til þess að veita raforku einnig til hitunar heim á hin einstöku býli. Þessu fylgir því enginn teljandi aukning á veitukostnaði, þó að býlunum sé ætluð svo rífleg raforka, að hún nægi einnig til hitunar. Þá er það um raforkuna sjálfa að segja, að sá, sem er búinn að kaupa eitthvert visst magn til heimilisins, sem nægir til ljósa og matreiðslu og annarar heimilisnotkunar, sem hægt er að borga tiltölulega háu verði, hann getur átt kost á að fá svo rafmagn til viðbótar, ef hann vill nota það til hitunar, fyrir mjög lítið verð. Það réttlætist af því, að þegar virkjað er stórt fallvatn þá er hægt að framkvæma sérhverja aukningu fyrir örlítið verð. Það er þess vegna allt á sandi byggt, sem hv. 5. landsk. hefir verið að segja, bæði hér og á fundum úti um sveitir, að þeir þurfi ekki að láta sér detta í hug, að þeir fái raforku til hitunar, því það sé ekki einu sinni ætlazt til, að Rvík sjálf fái það.

Þá talaði hv. 5. landsk. mjög mikið um ábyrgðir og mælti fast á móti þeim, og satt að segja hefir hann nú í þessu máli, síðan það kom fyrir þing í vetur, tekið svo gerólíka afstöðu hvað þetta atriði snertir, móts við það, sem hann áður hefir gert í þessu máli, að ég get ekki varizt þeirri hugsun, að eitthvert nýtt atriði sé komið fyrir, sem sé þessari breyttu aðstöðu hans valdandi. Það gengu sögusagnir um það á þingi í vetur, að það hafi komið aðvörun frá London um það, að íslenzka ríkið mætti ekki takast þessa ábyrgð á hendur. Ég veit ekki, hvort þær sögusagnir hafa við nokkurn hlut að styðjast, en ég vil af því tilefni og af þessu, sem hv. 5. landsk. segir nú um ábyrgðir, bera fram þá fyrirspurn til hv. 2. þm. Eyf., sem var fjmrh. þegar lánið var tekið í London í nóv. 1930, hvort íslenzka stjórnin út af þeim lántökum sé bundin nokkrum bakmálum um það, að hún megi ekki ganga í ábyrgð, ef hún fær til þess löglega heimild. Ég vona, að hv. 2. þm. Eyf. sjái sér fært að gefa skýr svör við þessari spurningu við framhald umr., sem verður væntanlega frestað bráðlega.

Hv. 5. landsk. spurði. hvernig við ættum að neita Vestmannaeyingum og Rangæingum og öðrum um ábyrgðir, ef þessi ábyrgð yrði samþ. Mér er það ljóst, að ef við eigum að leysa þessi verkefni, lyfta því Grettistaki að koma raforkunni út um dreifbýlið, þá verður það ekki á annan hátt gert en þann, að þjóðfélagið taki á sig að töluverðu miklu leyti áhættu við það og að nokkru leyti, eins og gefur að skilja, kostnað, en þó ekki nema að tiltölulega litlu leyti. En það, sem ég tel á hverju stigi þessa máls eiga að vera afgerandi fyrir því, hvort þjóðfélagið eigi að ganga í einhverja tiltekna ábyrgð til þess að greiða fyrir framkvæmdum í þessu efni, er það, hvort fyrir hendi sé sá fjárhagsgrundvöllur fyrir þeirri framkvæmd, að hún geti borgað sig, annaðhvort sjálf eða þá með því framlagi af opinberu fé, sem ríkið er viðbúið og vill láta í té. Ég álít, að það verði á hverjum tíma að vera afgerandi fyrir ábyrgð, að það sé fjárhagslega forsvaranlegt fyrirtæki, sem lagt er út í. Ef Vestmannaeyingar koma og biðja um ábyrgð, og ef það er fjárhagslega skynsamlegt, þá er sjálfsagt að taka hana. Og eins væri það með Rangæinga. Hv. 5. landsk. talaði eins og þessi ábyrgð væri sérstaklega lamandi fyrir lánstraust landsins, en það er ekki rétt. Aðrar hliðstæðar framkvæmdir til almennra þarfa, sem komizt hafa á hér á landi, hafa verið gerðar fyrir ríkisfé eingöngu, eða sama sem eingöngu, þannig að lagt hefir verið fram til þeirra af sköttum. Það verður aldrei meira lamandi fyrir lánstraust landsins, þó að gengið sé í skynsamlega ábyrgð fyrir framkvæmdum á þessum sviðum heldur en þó að ríkið tæki sjálft lánið og framkvæmdi það. Í mínum augum er hér um það að gera, hvort sú viðreisn landbúnaðarins, sem allir óska eftir, eigi að heppnast eða misheppnast. Í mínum augum er það barnaskapur að ímynda sér, að mögulegt sé að fá fólkið til að vera í dreifbýlinu í sveitunum með því að neita því um þann hagnað og þau lífsþægindi, sem raforkan hefir í för með sér og kaupstaðir og sjávarþorp eru fær um að veita sínum íbúum.

Það heimskulegasta, sem unnt er að gera að mínu viti, er það, að vera með stórfelldar og kostnaðarsamar framkvæmdir landbúnaði til viðreisnar, en sleppa jafnframt einhverju því meginatriði, sem þá er óhjákvæmilegt til þess að framkvæmdin heppnist og beri arð. Þá væri betra að leggja ekki út í neitt. Ég álít, að um tvennt sé að gera fyrir ríkið: annaðhvort að greiða fyrir því með ábyrgðum og fjárframlögum, að þetta verkefni lánist, eða að gera það allt á ríkisins kostnað. Og ég er sannfærður um, að fyrri leiðin, að ríkið veiti þá hjálp í ábyrgðum, sem annars er hægt að veita áhættulaust, og með fjárframlögum, sem ríkið treystir sér til að leggja fram á hverjum tíma, verður miklu farsælli. Ég geri ekkert úr því, sem hv. 5. landsk. skaut fram, að það mætti búa til samábyrgð kaupstaða og mætti láta hana vera í ábyrgð fyrir opinberri lántöku. Ef það væri alveg afráðið að gera sveitir afskiptar og hugsa ekkert um að veita raforku út til þeirra, þá mætti tala um þetta. Þá væri þetta mál kaupstaðanna einna og þeir gætu passað sig sjálfir. En ég fyrir mitt leyti er ekki fáanlegur til þess, vegna þeirrar mótstöðu, sem þetta mál hefir sætt hingað til, að gefa upp alla von um það, að þetta geti orðið sveitum að gagni líka, og ef þetta á að ná til sveitanna einnig, þá er engin sanngirni í því að heimta, að kaupstaðir fari að búa til nýja og erfiða skipulagstegund til þess aðeins að komast hjá því, að sveitamenn taki þátt í ábyrgðum við fyrirtæki, þar sem fjárhagsþunginn og erfiðleikarnir stafa þó fyrst og fremst af þátttöku sveitanna. Ég sé engan aðila réttari annan en ríkissjóð til þess að taka þær ábyrgðir á sig. Ekki sé ég heldur, að sú úrlausn geti verið rétt, sem hv. 5. landsk. sló fram, af því að hann fann, að það var óheppilegur grundvöllur, sem hann var kominn yfir á, þegar hann var að tala um að veita útlendum félögum sérleyfi til þessarar framkvæmdar, að það megi veita Reykjavíkurkaupstað sérleyfi til framkvæmdarinnar. Það gæti skapað Rvík heppilega aðstöðu að fá sérleyfi til virkjunar. En við í raforkumálan. berum ekki fram þetta frv. til þess að halda fram hluta Rvíkur, heldur til að tryggja sveitunum sem bezta úrlausn í þessu máli, — að eiga kost á ódýru rafmagni. Og það er ekki hægt að ná beztum árangri fyrir héruðin hvað þetta snertir með öðru en því að tryggja þeim eins og gert er í frv., að þeir geti á sínum tíma staðið sem eigendur að sínum hluta orkuversins.