24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (2457)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Einar Árnason:

Þegar ég tók til máls um þetta frv. í gær, var það eingöngu gert til þess að fá upplýsingar frá hv. flm. um það, hvort nokkuð nýtt um fjáröflun í þessu skyni hefði komið fram frá því á síðasta þingi. Ég hefi nú helzt fengið þau svör, að ekkert hafi gerzt í málinu frá því á síðasta þingi og engin breyt. á orðið. Ég spurði um þetta meðfram vegna þess, að í vor heyrðist talað um nýtt tilboð. En enginn hefir talað um það hér í hv. d. Á þeim fáu orðum, sem hér komu fram um þetta, var ekkert hægt að byggja í þessum efnum. En mér hefir skilizt, að það væri víst, að eitthvert tilboð hafi komið fram, og finnst mér, að þingið ætti að fá um það fulla vitneskju.

Hv. 1. flm. sagði, að ég hefði misskilið þau ummæli, að pólitískt vald myndi þröngva kosti Rvíkur. Það má vel vera, að ég hafi misskilið hv. þm. Hann hélt því fram, að flestir myndu líta svo á, að vissara væri að tryggja sér ábyrgð ríkisins, því þá væri síður hætta á því, að kosti fyrirtækisins yrði þröngvað. Nú hygg ég, að litið sé töluvert öðrum augum á það í útlöndum, hvort lán á að ganga til almennings- eða einstaklingsþarfa. Veit ég ekki til, að slíkar tryggingar sem þessar séu heimtaðar, þótt lán sé veitt til almenningsþarfa.

Það er mitt álit, að jafnvel þó að engin hætta sé á því, að fyrirtækið geti ekki staðið í skilum með vexti og afborganir, þá sé það samt til þess að rýra lánstraust ríkisins, ef ríkissjóður gengur í mjög miklar ábyrgðir. Það vita allir, að það rýrir mjög lánstraust einstaklingsins, ef hann gengur í miklar ábyrgðir fyrir aðra. Því hlýtur einnig að vera svo farið um okkar litla og fátæka ríki.

Ég tel það mjög hæpna fullyrðingu hjá hv. 1. flm., að lánstraustið muni vaxa, því meira sem sé framkvæmt í landinu. Þessi skoðun getur alls ekki verið óyggjandi.

Þá minntist hv. 1. landsk. á aðvaranir frá útlöndum viðvíkjandi ábyrgðum ríkissjóðs. Þykir mér gott, að hv. flm. gefur mér tilefni til að minnast á orðróm, sem hefir gengið um það, að ríkisstj. hafi fengið aðvörun um, að hún mætti ekki takast á hendur þessa ábyrgð eða aðrar vegna lánstrausts ríkisins. En einmitt þetta, sem hann kallar orðróm, það hefir komið skýrt og allákveðið fram í blöðum Sjálfstæðisflokksins. Og einnig kom þetta mjög ákveðið fram í kosningabaráttunni, og var þá tekið svo djúpt í árinni að segja, að stj. hafi verið bannað að taka á sig þessa ábyrgð fyrir hönd ríkissjóðs, með fleiri fullyrðingum. Nú vildi ég taka það fram, út af ummælum hv. þm. og út af því, sem almennt hefir komið fram og verið gefið í skyn að ríkisstj. hafi gengið inn á ákveðin loforð viðvíkjandi ábyrgðum, þegar hún tók lánið í London, að mér finnst ástæða til að mótmæla þessu. Eins og ég hefi áður sagt, þá hafði stj. engin bréf fengið um þetta efni. Engir samningar hafa verið gerðir um þetta og engin orð fallið um það við stjórnina frá útlendum fjármálamönnum. Þetta mál bar alls ekki neitt á góma, þegar stj. var að leita fyrir sér um lán í útlöndum. En ástæðan til þess, að þessi orðrómur hefir komizt á loft, er sú, að í bréfi til eins af bankastjórum Landsbankans er minnzt sérstaklega á ábyrgðir ríkissjóðs, þar sem talað er um óheppilegt fyrirkomulag á framkvæmdum á þeim ábyrgðarheimildum, sem Alþingi veitir héruðum og stofnunum. Þetta bréf hefi ég nú reyndar ekki séð, en viðkomandi bankastjóri skýrði mér frá þessu atriði úr því, af því að hann taldi rétt, að ríkisstj. fengi að vita um þetta. því sá maður, sem bréfið er frá, er mjög merkur fjármálafræðingur, og fannst bæði bankastjóranum og landsstj. það vera rétt að taka tillit til þess, sem hann legði til málanna. Bankastjórinn skýrði frá því, eða ég skildi það svo, að maðurinn hefði skrifað þetta sem velviljaða bending um, að þetta fyrirkomulag okkar sé ekki heppilegt. Það er líka skiljanlegt, að það sé ekki heppilegt að hafa það fyrirkomulag, að ríkisstj. ákveði að ganga í þessa eða hina ábyrgðina, án þess að vita, hvaða tilboð væri um lán eða hvaða tilboði ætti að taka.

Reynslan hefir líka verið sú, að þegar Alþ. hefir verið búið að samþ. heimild fyrir stj. til að ganga í einhverja ábyrgð, hafa hinir og aðrir menn, sem hafa verið að hugsa um að fá sér tekjur af því, verið að ganga á milli banka í útlöndum til að vita, hvort þeir vildu lána féð, og hampað því, að það væri ríkisábyrgð. Og dæmin eru deginum ljósari, að þegar ríkisstj. hafði fengið heimild til að taka lán fyrir ríkissjóð, þá fóru ýmsir menn á stúfana til að leitast fyrir um það, og þóttust hafa umboð, sem þeir vitanlega höfðu ekki. Þetta hlýtur auðvitað að spilla fyrir þeim lánútvegunum, sem á að framkvæma. (JónÞ: Þvert á móti). Ja, það var nú samt svo, að það var verið að skrifa ríkisstj. gegnum utanríkisráð Danmerkur vegna manns, sem hafði verið að reyna að útvega lán hjá banka í Ameríku, og hv. 1. landsk. þarf ekki að ætla, að þetta sé til bóta á fjármálum Íslands. (JakM: Hvaða lán var það?). Það var ríkislánið.

Þetta eitt hefir komið fram við ríkisstj. í þessu máli, og að mínu áliti er ekki úr vegi að taka bendingum frá kunnugum mönnum, sem þekkja þessa hluti. Eins og ég hefi tekið fram, hefi ég ekki séð bréfið sjálfur, en þetta mun vera aðalatriðið í því. Nú er á það að líta, að þegar litið er á þetta frv., sem hér liggur fyrir, þá er hér aðeins um það að ræða að koma á virkjun fyrir Reykjavík. En fyrir þá upphæð, sem hér er farið fram á ábyrgð fyrir, verður ekki hægt að koma leiðslum um sveitir landsins. Ef þær sveitir á Suðurlandsundirlendinu og hér í umhverfinu eða jafnvel lengra í burtu, sem hv. flm. minntist á, eiga að fá rafmagn til ljósa og hita frá þessari virkjun, þá þarf að taka nýtt stórlán til þess. Og ég get ekki hugsað mér, að ríkisstj. geti undan því skorazt að taka það lán eða ganga í ábyrgð fyrir því, ef þessi ábyrgðarheimild verður veitt. Menn verða að gera sér það ljóst, að þetta er aðeins byrjun á miklu meiri ábyrgðum, ef sveitir landsins eiga að njóta góðs af þessari virkjun.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða meira um þetta mál nú, þar sem þetta er l. umr. Ég geri ráð fyrir, að málið verði látið fara í nefnd, og þá er alltaf hægt að taka nánari afstöðu til þess við síðari umr.