24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (2458)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Jakob Möller:

Þegar hv. 2. þm. Eyf. var að spyrja að því í gær, hvort nokkuð nýtt væri fram komið viðvíkjandi fjárhagshlið þessa máls, skildi og það svo, að hann ætti við það, hvort nokkrar frekari ráðstafanir hefðu verið gerðar af hendi bæjarstj. Rvíkur um tilraunir til að útvega fé til virkjunarinnar. Og ég svaraði því svo, að bæjarstj. hefði engar slíkar ráðstafanir gert, þar sem málið væri nú komið inn á aðra braut. Þar sem málið er nú komið inn á þá braut, að búast má við, að samvinna takist milli bæjarstj. og ríkisstj. um framkvæmdirnar, sá bæjarstj. ekki ástæðu til frekari aðgerða í málinu að svo stöddu. En mér skildist nú, að það, sem hv. þm. hefði átt við, þegar hann í gær var að spyrja um það, hvort nokkuð nýtt hefði gerzt í málinu, væri, hvort tilboð hafi komið fram um virkjun Sogsins. En sem kunnugt er hefir komið fram tilboð um það, að eitt útlent félag tæki að sér virkjunina á sína ábyrgð og ræki fyrirtækið fyrir eiginn reikning. Ég skildi það ekki svo í gær, að hv. þm. ætti við þessa lausn málsins, þegar hann var að spyrja, hvort nokkuð nýtt hefði komið fram í því, því þetta er ekkert nýtt. Þetta er ekkert nýtt, því bæjarstj. Rvíkur hafði áður haft til meðferðar tilboð frá fossafélaginu Titan, sem hafði ráð á vatnsafli úr Þjórsá, þar sem það bauð henni að selja Rvíkurbæ það rafmagn, sem hann þyrfti að nota, frá stöð við Þjórsá. En því tilboði var hafnað, því bæjarstj. vildi ekki fara þá leið að fá útlendu stórgróðafélagi í hendur sölu á öllu rafmagni til bæjarins og láta þannig alla bæjarmenn gjalda háan skatt til útlendra fjáraflamanna, heldur vildi hún láta bæinn eða ríkið starfrækja fyrirtækið. Í sambandi við tilboð í Sogsvirkjunina er því þetta ekkert nýtt. Þrjú erlend félög höfðu í fyrra gert tilboð í virkjunina, og ég veit ekki betur, samkv. þeim útboðum, en að þau hafi öll tjáð sig fús að taka að sér verkið fyrir eiginn reikning og reka það á eigin ábyrgð eða í concession. Og þeir menn, sem ég talaði við í Svíþjóð, er ég fór utan í fyrra sumar, voru ekki aðeins fúsir, heldur fúsastir að taka að sér verkið á þennan hátt. En bæjarstj. Rvíkur hefir verið og er því mótfallin að veita útlendum stórgróðafélögum aðstöðu til að taka skatt af bæjarbúum. En hinsvegar er það, að ef öll önnur sund yrðu lokuð, þá kæmi málið fyrir bæjarstj. af nýju, og myndi hún þá taka til athugunar, hvað fært væri að gera. En ég geri ekki ráð fyrir, að hún mundi hverfa að því ráði að selja Sogið til virkjunar í sérleyfi. Það gæti þá frekar komið til mála að leita samninga um rafmagn annarsstaðar frá og reyna að fara að semja við Titan aftur um að láta bæinn fá rafmagn til bráðabirgða, þar til innlendir menn væru færir um að koma á fót slíku fyrirtæki. En að selja þetta vatnsfall burt, sem er hið hentugasta vatnsfall á landinu til virkjunar, og fá útlendingum það í hendur til virkjunar og starfrækslu væri gersamlega óforsvaranlegt.

Þar sem hv. 2. þm. Eyf. sagði, að það væri hæpin fullyrðing, að lánstraust landsins mundi vaxa, ef slíkt fyrirtæki sem þetta kæmist á, þá er því til að svara, að þetta er ekki aðeins fullyrðing frá mér. Frá eigin brjósti hefi ég ekkert um þetta sagt, heldur farið hér með orð eftir merkum fjármálamanni, sem ég hefi talað við og leit svona á málið. Og ég veit nú satt að segja ekki, hvort þetta er svo hæpin fullyrðing. Það er a. m. k. skiljanlegt, að því fleiri mikilsverðar þjóðþrifaframkvæmdir, sem gerðar eru, því byggilegra verður landið, og því meiri líkur eru fyrir því, að landsfólkið geti staðið undir þeim byrðum, sem á það verða lagðar. Svo það virðist nú vera alveg rökrétt ályktun þetta, að lánstraust landsins vaxi við virkjun Sogsins, — auðvitað gangandi út frá því, að fyrirtækið beri sig. En það álít ég hafið yfir allan efa, þar sem það er álit allra, sem málið hafa rannsakað.

Viðvíkjandi þeim orðrómi, sem gengið hefir um það, að ríkissjóður mætti ekki taka á sig ábyrgðir — ég er nú hér að fara inn á verksvið hv. 1. landsk., en ég get búizt við, að sá flokkur, sem ég tilheyri, verði sakaður um að hafa bætt við þennan orðróm út af því, sem hann hefir borið fram um ríkisstjórnina —, þá verð ég að segja það, að það gleður mig, að hv. 2. þm. Eyf. bar á móti þessum orðrómi. En ég vil vekja athygli hans á því, að það er að kenna fyrrv. samverkamönnum hans í ríkisstj., að orðrómur þessi er kominn upp, og sömuleiðis er það þeim að kenna, að hann hefir breiðzt út. Í umr. um þetta mál á þingi í vetur vék þáv. hæstv. dómsmrh. að því í ræðu, lauslega að vísu, að einhverjar aðvaranir hefðu komið um það frá erlendum fjármálamönnum, að takast ekki á hendur þessa ábyrgð. En svo var það eftir þingrofið, að hæstv. forsrh. kvað fast að orði um einhverja aðvörun frá erlendum fjármálamönnum um að ganga ekki í ábyrgðir. En nú segir hv. 2. þm. Eyf., að hæstv. stjórn hafi engin bréf fengið um þetta mál. Þá verð ég að segja það, að þessir tveir hæstv. ráðh., fyrrv. samverkamenn hans, hafa mjög misbrúkað þetta bréf, sem kom til eins bankastjóra Landsbankans viðvíkjandi þessu máli. Því eftir því, sem hann segir frá innihaldi þess bréfs eftir bankastjóranum, þá gefur það ekkert tilefni til þeirra ummæla, sem hæstv. forsrh. og fyrrv. hæstv. dómsmrh. hafa um þessar ábyrgðir haft.