24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (2462)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Flm. (Jón Þorláksson):

Það var búið að svara því áður, sem hv. 2. þm. Eyf. kom með áðan um samábyrgð kaupstaðanna. Það getur náttúrlega komið til mála, svo framarlega sem menn vilja slá því föstu, að þessi gæði falli ekki til annara en kaupstaða. Ég er ekki á því að ganga inn á það, að sveitirnar verði afskiptar og því beri ríkinu ekki að hafa neina íhlutun um þetta mál, eða það skilst mér vera afstaða hv. 2. þm. Eyf. til málsins. Ég get skilið uppástungu hans frá því sjónarmiði. Ég vil baæa því við, að Sogsrannsóknirnar, sem utanþingsn. í raforkumálum hefir gert, þær hafa gefið skýra bendingu um það, að svo framarlega sem menn hugsa til að leysa þetta spursmál fyrir landið í heild, eða a. m. k. fyrir alla aðalhluti landsins, þá er varhugavert að hlaupa til og koma upp í kaupstöðum og sjávarþorpum sjálfstæðri rafmagnsstöð fyrir kaupstaðina eina, áður en rannsókn er um það gerð, hvort ekki sé betra að taka fyrir stóra landshluta í einu og veita raforku þangað frá einni stöð með raforkutaugum frá miðstöðinni til þeirra kaupstaða, sem um er að ræða. Sú niðurstaða hefir orðið hér við rannsóknir á Sogssvæðinu, að einmitt það, að sameina marga kaupstaði og sveitir um eitt orkuver, greiði afarmikið fyrir því, að allir geti orðið raforkunnar aðnjótandi og sveitirnar með. Þess vegna teldi ég það mesta óráð eins og nú stendur að slá því föstu, að um þetta mál sameinist kaupstaðir eins og Reykjavík, Ísafjörður og Siglufjörður og aðrir, sem vilja einangra sig og leysa málið út af fyrir sig.

Ég legg nú ekki eins mikið og hv. 2. þm. Eyf. upp úr því, þótt einhverjir lánveitendur íslenzka ríkisins kvarti yfir því, að verið sé að leita fyrir sér með lán frá öðrum en þeim og að umboðslausir menn séu á ferðinni og reyni að útvega lán. Ég veit, að einstakir menn geta gengið svo langt í þessu, að ekki sé sæmilegt. En engum banka eða fjármálamanni ætti að verða skotaskuld úr því að spyrja, hvort hlutaðeigandi maður hefði umboð, og láta hann sýna umboð sitt. Enginn lætur blekkjast, þó að svona menn séu á ferð. Hinsvegar er nauðsynlegt, að umleitanir séu gerðar, til þess að lánveitendur viti, að hér er um samkeppni að ræða að þeir verða að bjóða lán með samkeppniskjörum.