24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

67. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Jón Baldvinsson:

Við hv. þm. Hafnf. þurfum ekki að deila um efni þessa frv., því að þar erum við sammála, heldur kemur okkur ekki saman um forsögu þess. Það er að vísu gott og blessað að segja sem svo, að það hafi enga þýðingu, hvernig flokkarnir, hafa staðið áður í málunum, ef þeir eru komnir á rétta braut á annað borð. Þó að afturhvarfið sé, að sjálfsögðu gott, er hinsvegar ekkert á móti því, að upplýst sé, hvernig fyrri afstaða flokkanna hefir verið. Ég fæ því ekki séð, að það sé nema gott, að við Alþýðuflokksmenn bendum á, hver hefir verið afstaða Íhaldsflokksins og Framsóknarafturhaldsins í hinum ýmsu málum. Íhaldsflokkurinn var á móti Sogsmálinu, þangað til málið var knúið fram af borgurum þessa bæjar, og Framsóknarflokkurinn var málinu hlynntur þangað til átti að fara að framkvæma það. Þá snerist hann öndverður gegn málinu, með þeim ósköpum, sem kunn eru. Íhaldsflokkurinn fyrrv. og núv. Sjálfstæðisflokkur, Borgaraflokkurinn, Sparnaðarbandalagið og Kosningabandalagið svokallaða — (JakM: Hv. 2. landsk. var sjálfur í kosningabandalaginu). Rétt er það, að ég var í kosningabandalagi við hv. núv 1. þm. Reykv. 1921, en ég var aldrei í þeim pólitíska flokki, sem nefndist Kosningabandalagið. Allir þessir flokkar, sem ég nefndi, hafa verið á móti 21 árs kosningarrétti, afnámi réttindamissisákvæðanna og breytingu kjördæmaskipunarinnar. Það gekk meira að segja svo langt, að íhaldið rak Kristján Albertson frá Verði, af því að hann hafði verið svo djarfur að skrifa um það í þetta málgagn flokksins, að kjördæmaskipunin væri svo ranglát, að henni yrði skilyrðislaust að breyta. Það þýðir ekkert fyrir þessa flokka að ætla sér nú að stinga höfðinu í sandinn og neita þessu. Hér er um ómótmælanlegar staðreyndir að ræða. Að vísu er það svo, að batnandi manni er bezt að lifa, og ég vildi feginn, að íhaldsmenn yfirleitt tileinkuðu sér sem flestar umbótatill. okkar jafnaðarmanna, en það er þá bara, að þeir snúist ekki frá þeim á síðustu stundu, eins og tilfellið var með Framsóknarflokkinn í Sogsmálinu. (BSn: Þetta mál er þó fyrst komið frá mér). Alþýðusambandið varð fyrst til að taka þetta mál upp, eins og ég hefi skýrt frá áður, og það var að þess tilstuðlun, að málið var reifað í Alþýðublaðinu, og mun síðar koma fram í frv. því, sem þm. Alþýðuflokksins í Nd munu innan skamms bera þar fram vegna yfirstandandi kreppu. Það er náttúrlega gott að geta síðar afsakað sig með því, eins og hv. þm. Hafnf., að flokksbræður hans hafi séð hann skrifa frv. kl. 1 á laugardaginn var, áður en Alþýðublaðið kom út, og ég efast ekki um, að allir 5 flokksbræður þessa hv. þm. hér í d. eru reiðubúnir til að leggja æru sína við, að þetta sé rétt, en það haggar í engu því, sem ég hefi hér sagt um forsögu þessa máls.

Við erum sammála um það, ég og hv. þm. Hafnf., að þetta sé nauðsynjamál, sem þurfi fram að ganga, og það sem fyrst, og vænti ég því þess, að hv. þm. taki vel í hverja þá till., sem styður að fljótum framkvæmdum.