15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

1. mál, fjárlög 1932

Guðrún Lárusdóttir:

Ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi mikla þýðingu að tala um þessar brtt. Það er sennilegt, að þær séu dauðadæmdar fyrirfram, en ég vil þó reyna áður að klóra ofurlítið í bakkann.

Ég verð að taka undir það, sem hv. 2. landsk. sagði um XXXVIII. brtt. á þskj. 297, þar sem farið er fram á lítilsháttar viðurkenningu til Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Ég er hissa á því, að fjvn. skuli hafa komið sér svo vel saman um að fella þennan lítilfjörlega styrk, 1200 kr., eða 1000 kr. til vara. Þegar ég sé þennan höfðingsskap n., þá verð ég að segja, að þetta er ekki sparnaður, heldur nánasarskapur. Þarna ræðir um konu, sem er komin fast að áttræðu og á eftir mannlegum útreikningi ekki eftir að níðast á landinu svo ákaflega lengi, og það er víst, að það er eindreginn þjóðarvilji, sem stendur á bak við þetta smáræði. Konurnar eru ekki vanar að taka til sín svo mikið, en í sinni góðu trú og þakkláta huga til þessarar konu, sem oft hefir tekið svari þeirra og beint huga þeirra á menningarbraut, þá langar þær til þess að sýna henni einhvern sóma; og þá mæna allra augu í þennan háa sess, til Alþingis. Það er hægt að fletta upp í fjárl. runu af mönnum og konum, a. m. k. ekki fáum karlmönnum, sem árs árlega fá háa styrki, og þar eru menn innan um, sem ekki hafa sýnt sömu ósérplægni í því að berjast fyrir góðum málsstað eins og þessi kona, sem hv. fjvn. Ed. á því herrans ári 1931 er svo hjartanlega samdóma um að fella. Þetta kann ég ekki við. Það getur verið af því, að kona á í hlut, en ég myndi gera jafnt undir höfði karlmanni, sem eins væri ástatt um. Ég gerði grein fyrir þessu í dag, og ég ætlast til þess, að hv. þdm. séu svo vel að sér í því, sem gerzt hefir í kvenréttindamálunum, að þeir viti, að þar hefir Bríet Bjarnhéðinsdóttir gengið fram fyrir skjöldu og unnið mikið starf. Ég get því ekki annað en hneykslazt á þessari framkomu hv. fjvn., og þegar þar að auki er kominn í mann hálfgerður svefngalsi, verður maður að segja út úr pokanum það, sem maður meinar.

Mig furðar líka á afstöðu n. til styrksins til Halldóru Bjarnadóttur, en þó kunni ég betur við, að nm. skuli hafa þar óbundnar hendur í atkvgr. heldur en þegar því er lýst skýlaust yfir, að n. sé öll á móti.

Ég vil ennþá vænta þess, að hv. þd. sýni þessu máli viðurkenningu og samþ. það, sem farið er fram á.

En út af brtt. um barnaheimilið á Sólheimum vildi ég taka það fram, þar sem mér heyrðist hv. frsm. þykja eitthvað tortryggilegt þetta samningsleysi milli jarðeigandans, Prestafél. Íslands, og ábúandans, ungfrú Sesselju Sigmundsdóttur, að það mál hefir verið upplýst í sjálfri fjvn. af form. þessa félagsskapar, sem réttara er að kalla barnahælisnefnd þjóðkirkjunnar heldur en Prestafél. Íslands, þótt hún sé starfandi nefnd úr Prestafél. Séra Ásmundur Guðmundsson mun hafa komið á fund n. og upplýst þá samninga, sem eru milli jarðeigandans og ábúandans. Ég skal ekki bæta neinu þar við, því að ég veit ekki meira en n. sjálf. Prestafél. er eigandi að þessari jörð og hefir lánað þessari unglingsstúlku hana til þess að hjálpa henni í þessu áhugamáli sínu.

Mér virtist hv. frsm. ekki laus við áhyggjur út af barnaheimilum, sem sama n. ætlaði að koma á fót. Það þarf þó ekki að óttast, að þau verði baggi á ríkissjóði, a. m. k. meðan þau eru ekki til. En ég verð að líta svo á, að ríkissjóður hafi skyldu til þess að styrkja slíkar uppeldisstofnanir, sem þjóðin öll hefir gagn af; og þeim peningum, sem þangað fara, er verulega vel varið; það er ekkert eyðslufé, heldur lagt í þann sparisjóð, sem verður drýgstur á metunum fyrir ísl. þjóðina, þegar unglingum og börnum, sem enginn sómi er sýndur, er veittur kostur á góðu og notalegu heimili.

Annars skal ég viðurkenna, að það mun ekki vera fyrir þá sök, sem fjvn. setur sig á móti ýmsu því, sem stungið er upp á, að hún vilji þetta í raun og veru ekki, heldur fyrir þá erfiðleika, sem yfir standa. Maður fer að trúa því, að þetta sé ástæðan, því að barlómurinn hefir verið svo mikill allt þingið, ef nokkrar krónur komast í tal. Það stendur einhversstaðar, að sá sé ekki búmaður, sem kann ekki að barma sér, og það reynist víst svo hér.

„Þegar átti til að taka, tómahljóð var í buddunni“, og þegar hugsað er um veltiárin undanfarið, sem allir róma, og svo kemur krepputími og ekkert fé er til, þá getur manni ekki annað en gramizt. Þegar við horfumst í augu við atvinnulausa menn, sem biðja fyrst um vinnu, og svo um styrk, þegar þeir fá hana ekki, þá rennur mér til rifja. Þess vegna tek ég undir með hv. 2. landsk., sem benti greinilega á brýna nauðsyn á því, að ríkisstj. gerði tryggingarráðstafanir til þess að forða fólkinu frá hungri. Þessu trúa ekki þeir hv. þm., sem búa í sveitum og eiga til hnífs og skeiðar, en ef þeir sæju atvinnulausu mennina, sem koma daglega og biðja um vinnu og styrk til þess að geta lifað, þá myndu þeir skilja þetta. Því að það er að gefa þeim steina fyrir brauð að rétta þeim fáeinar krónur í sveitarstyrk.

Ég treysti því, að þrátt fyrir allt og allt verði Alþingi Íslendinga ekki svo illa statt, að það reyni ekki að lita réttu auga allt það, sem til réttarbóta heyrir, bæði fyrir einstaklinga og heildina.