03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (2485)

150. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jón Baldvinsson:

Á þinginu 1927 bar hv. þm. G.-K. fram frv. um benzínskatt, og þá notaði flokkur hv. 3. landsk. öll tækifæri til að níða þetta frv., og ég minnist þess, að þá gaf Tíminn því nafn og kallaði það „litla, ljóta frumvarpið“. Nú hefir farið svo, eins og oft vill verða hjá þessum flokki, að hann hefir skipt um skoðun, og ber nú fram frv. þetta, aukið og endurbætt, þannig að nú mætti kalla það á Tímamáli: stóra og ljóta frv. — Hv. flm. hefir gert grein fyrir því, til hvers ætti að verja þessu fé og sagt, að það skyldi renna til viðhalds vega. Hann hefir ennfremur sagt, að svipaður skattur og þessi sé hjá öðrum þjóðum, en þá er því til að svara, að þar er ólíku saman jafnað, því að nágrannaþjóðir vorar hafa fyrir löngu komið upp hjá sér járnbrautakerfi, og því er ekki eins rík þörf hjá þeim eins og okkur að vernda bifreiðanotendur gegn of háum gjöldum, enda ætti hið opinhera að gera hér allt, sem hægt er að gera, til þess að létta undir flutninginn, en gera mönnum ekki erfiðara fyrir með hann en nú er.

Hv. 1. landsk. benti á, að þessu fé ætti ekki að verja til að leggja nýja vegi, og það er nú ágalli út af fyrir sig, en við það bætist, að flutningskostnaður á vörum og fólki eykst til muna, og það kemur ekki hvað sízt niður á bændum í landinu. Ég hefi átt tal við ýmsa bændur úr nágrannahéruðum Reykjavíkur, og þeir kvarta mjög undan því, hvað allur flutningur sé dýr, þó að það, að fá t. d. heim til sín eitt bílhlass, sé nú ódýrara en áður var, þegar gamla lagið var notað.

Ég hygg, að hv. flm. hafi ekki gert grein fyrir því, hve hár þessi skattur er á gúmmíinu og benzíni fyrir hverja flutningabifreið, en ég hygg, að hann muni nema 600 kr., og mun það þykja alltilfinnanlegur skattur fyrir slíkar bifreiðir, enda hygg ég, að svo myndi fara innan skamms, að eigendur bíla mundu ganga frá þeim. Að vísu er það tilætlunin, að skattur þessi sé tekinn af innflytjendum, en auðvitað kemur þetta niður á bifreiðaeigendum, sem þykir slíkur rekstur ekki arðvænlegur nú, hvað þá heldur þegar þetta bætist nú við, og hygg ég þá, að frv. geri þeim erfiðast fyrir, sem mest þurfa á flutningum að halda. Fyrir utan allar þessar ástæður, er það þó meginhugsun frv., sem fær mig til að rísa gegn því, en hún er sú, að hér er verið að leggja nefskatt á, sem kemur jafnt niður á fátækum sem ríkum. Ég mun því greiða atkv. gegn þessu frv. þegar við þessa umr., til að sýna andúð mína gegn því.

Hv. 3. landsk. minntist á, að þau héruð, sem enga vegi hefðu, yrðu að leggja nokkuð af mörkum til vegamálanna, og átti þar við Austfirði og Vestfirði, að því er mér skildist. Um það er nú raunar það að segja, að á Austfjörðum er þegar allgott vegakerfi að myndast, og á Vestfjörðum hlýtur að reka að því, að vegir verði lagðir, og þá fá þessi héruð hlutdeild í framlagi ríkissjóðs til slíkra framkvæmda.

Ég hygg, að frv. þetta sé að öllu leyti afturför frá því, sem nú er. Það hefir í för með sér hækkuð flutningsgjöld, íþyngir fátækum bifreiðaeigendum, og hefir í för með sér hækkun á flutningi fyrir bændurna, svo maður tali nú ekki um kaupstaðabúana, sem þurfa að ferðast mikið, en sem hv. flm. mun ekki vorkenna, þótt þeir fái að blæða fyrir slíkt.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um frv. þetta að sinni, en vil leggja sérstaka áherzlu á það, að ég hygg, að það muni draga mikið úr samgöngunum og vöruflutningunum, sem eiga nú við svo mikla erfiðleika að stríða, að þar er engu á bætandi.