03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (2490)

150. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Halldór Steinsson:

Ég skal játa, að þessi leið er sanngjörn, að þeir, sem hafa mest not veganna, borgi viðhald þeirra. En ég get nú samt ekki verið með frv., af þeirri ástæðu, að hér er verið að leggja á nýjan skatt, án þess að tiltekið sé, hvernig honum skuli varið.

Eins og fjárlagafrv. stj. er úr garði gert, er sama og ekkert áætlað til vegagerða. Og ef það væri rétt, að ekkert fé væri fyrir hendi, sem ég álít nú að ekki sé, þá finnst mér, að stj. hefði átt að eiga frumkvæðið að því að koma fram með slíkt frv. til tekjuauka. Þess vegna furðar mig á því, að þm. en ekki stjórnin skuli bera þetta frv. fram. En þess er ekki látið getið, að frv. fari fram á auknar fjárveitingar til vegagerðar. Þetta er því aukaskattur, sem á að leggja á þjóðina. Stj. hefir í fjárlagafrv. áætlað tekjurnar lægri en þær hljóta að verða raunverulega, og hefði því vel getað tekið upp í frv. meira af verklegum framkvæmdum. En þar sem flutningsmenn þessa frv. ætlast ekki til, að þessum aukaskatti verði varið til vegagerðar, sem þó væri sjálfsagt að gera ráð fyrir, þá get ég fyrir mitt leyti ekki greitt því atkv.