13.08.1931
Efri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (2501)

265. mál, umboðslaun opinberra starfsmanna

Jónas Jónsson:

Ég álít, að hv. 1. landsk. hafi gert d. gagn, og landinu náttúrlega líka, með því að setja hreyfingu á þetta mál, því út af till. þeirri, sem hann bar hér fram í sambandi við tóbakseinkasöluna, hefir komizt skriður á þetta mál, þó að hún gengi svo miklu skemmra en þetta frv.

Ég vil einnig láta ánægju mína í ljós við hv. 2. landsk., sem hefir stækkað hugmynd hv. 1. landsk. og tekið hana til flutnings í frv. formi.

En ég er ekki sammála hv. 2. landsk. um það, að frv. geti farið nefndarlaust í gegnum þingið, m. a. af því, að það er ein vöntun í frv., sem er ástæða til að bæta úr, sem sé sú, að frv. nái einnig til trúnaðarmanna hlutafélaga. Það er svo mikil ástæða til að tryggja þá mörgu menn, sem eiga afkomu sína undir hlutafélögum, gegn þessu þjóðfélagsmeini, að ég álít, að þeim megi ekki sleppa.

Ég álít, að þessu máli eigi að vísa til allshn., og vil skjóta því til hennar, að hún athugi, hvort ekki sé rétt að taka hlutafélög og innheimtumenn inn í frv.

Ég legg til, að málinu verði vísað til allshn., og vil eins og hv. 2. landsk., að því verði hraðað svo, að það geti komizt í gegn á þessu þingi.