13.08.1931
Efri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (2502)

265. mál, umboðslaun opinberra starfsmanna

Jón Þorláksson:

Ég vil taka undir það með hv. 5. landsk., að það sé óhjákvæmilegt, að frv. fari í n. Það eru sérstaklega tvö atriði, sem ég vil leiða athygli að og sem ég álít, að þurfi að athuga í n, og ef til vill að breyta orðalagi frv.

Hið fyrra er það, að ég álít, að það þurfi að samræma 2. gr. þessa frv. við tilsvarandi ákvæði í 13. kap. hegningarlaganna. Ég álít það varla rétt að hafa mismunandi refsiákvæði samkv. þessum lögum og hegningarlögunum, þegar teknir eru upp í þetta frv. embættis- og sýslunarmannaflokkar, sem tvímælalaust falla undir 13. kap. hegningarlaganna.

Hitt atriðið, sem ég sérstaklega vil leiða athygli að og athuga þarf í n., er ef svo má segja, takmörkunin á útjöðrunum á þeim flokkum manna, sem ætlað er að falla undir þessi lög. Því það er nú komið svo, að í starfsemi ríkisins eru orðnar til þær starfsgreinar, þar sem álíta verður, að slík lög sem þessi ættu að ná til, en þar sem ekki einu sinni mun vera hægt að segja, hvað þá heldur svo ótvírætt sé, að hlutaðeigendur séu starfsmenn ríkisins.

Ég vil taka til dæmis, að Áfengiverzlun ríkisins hefir útsölu, sem hún ekki rekur sjálf, en hefir falið hana manni, sem sjálfur rekur útsöluna og fær fyrir það tiltekinn hundraðshluta af því, sem hann selur. Er þessi maður starfsmaður ríkisins? Nú hefir þessi maður í þjónustu sinni menn, sem afgreiða skiptavinina. Þeir eru ekki starfsmenn ríkisins, heldur starfsmenn forstjórans. En það er álitamál, hvort forstjórinn getur talizt vera starfsmaður ríkisins. Sama fyrirkomulag mun vera við annað ríkisfyrirtæki, sem sé einkasölu ríkisins á útvarpstækjum. Þar er salan, a. m. k. hér í Reykjavík, falin firma, sem fær fyrir hana tiltekinn hundraðshluta af andvirði seldra útvarpstækja. Ég tel efamál, að forstjóri þess firma verði talinn starfsmaður ríkisins, án þess að það sé nánar tiltekið en gert er í þessu frv. En ég vil leiða athygli að því, að það er óheppilegt, ef slíkir forstjórar fyrirtækja, sem hafa útsölu fyrir ríkið, mega taka umboðslaun af þeim viðskiptum, t. d. ef þeir eru umboðsmenn fyrir tiltekið firma, er selur mikið af þeim vörutegundum, sem einkasalan lætur þá hafa til útsölu. Ef þeir fá umboðslaun af þessum vörum, þá hafa þeir fjárhagslegan hagnað af því að selja þær vörutegundir öðrum fremur, sem þeir eru umboðsmenn fyrir, og mundu því fremur halda þeim að skiptavinum sínum en öðrum tegundum. Mér finnst það varla rétt gagnvart þessum einkasölum ríkisins, að skiptavinum þeirra sé gert misjafnt undir höfði, eða að slík stofnun sem einkasala leyfi, að útsölurnar dragi taum sumra viðskiptavinanna á kostnað annara.

Ég vildi leiða athygli hv. n. að þessu, því þarna er svið, sem þarf sérstaklega að athuga um, hvort eigi að láta löggjöfina ná yfir. Og sömuleiðis þarf að athuga orðalag frv., hvort það nái yfir þetta.

Að öðru leyti óska ég frv. sem beztrar framgöngu, og ekki sízt, að það verði að öllu leyti vel úr garði gert.