10.08.1931
Neðri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

3. mál, landsreikningar 1929

Einar Arnórsson:

Ég var einn af þeim 3 þm. hér í þessari hv. deild, sem greiddu atkv. móti fjáraukal. fyrir 1929, þegar þau voru hér til 2. umr. Ég fékk þá ekki tækifæri til þess að gera grein fyrir, hvernig stóð á því, að ég greiddi þannig atkv. En með því að sömu ástæður liggja til þess frv. og frv. um samþykkt á LR., sem hér liggur fyrir, skal ég rökstyðja það nokkru nánar.

Frv. um samþykkt á landsreikningnum, það, sem lagt er hér fyrir þingið, fer nú sem fyrrum fram á syndakvittun handa stj. fyrir það fjárhagstímabil, sem landsreikningurinn nær yfir. Það er yfirlýsing þingsins um það, að það sé eftir atvikum ánægt, eða a. m. k. ekki svo óánægt með ráðsmennskuna, að það segi annað en já við henni. Það hefir líka oftast verið svo, að afskipti þingsins af þessu máli hafa verið meira að formi til en efni. Það hafa venjulega aðeins komið fram einhverjar till. í fleiri eða færri liðum, þar sem skorað er á stj. að gera eitthvað eða gera eitthvað ekki. Slíkar till. eru þó, að því að mér skilst, í sjálfu sér lítils virði.

Nú er það kunnugt, að andstöðuflokkar hæstv. stj., a. m. k. annar þeirra, hefir talið stj. ýmislegt til synda um meðferð fjárins, og þá einnig fyrir það tímabil, sem hér um ræðir, 1929. Ég er sammála mörgum þeim áfellisdómum, sem andstöðumennirnir hafa kveðið upp um fjármeðferðina, og af því að ég er sammála þeim, er það rökrétt afleiðing, að ég get ekki greitt atkv. með frv. um samþykkt á landsreikn. Það eru greiðslur á honum, sem mér er ómögulegt að gefa stj. kvittun fyrir.

Eins og kunnugt er, eru greiðslur umfram það, sem stendur í fjárl., venjulega margar. Sumar eru óhjákvæmilegar, og hefi ég vitanlega ekkert að þeim að finna. Það er oft um hreinar áætlunarupphæðir að ræða í fjárl., og þá getur þingið ekki gert annað en að samþ. greiðslurnar. Þá eru umframgreiðslur, sem eru tiltölulega ósaknæmar, því þeim er varið til þarflegra hluta. Þótt ekki sé víst, að hyggilegt sé að verja svo miklu afgangsfé til verklegra framkvæmda sem gert hefir verið, er ekki hægt að segja annað en að stj. hafi varið því til nauðsynlegra hluta, er hafi komið þjóðarbúinu að liði. Um þessa eyðslu gæti ég líklega líka gefið stj. kvittun, þó með þeim fyrirvara, að hún hafi farið óbúmannlega að ráði sínu.

Svo eru margir aðrir liðir, sumir ekki stórir, aðrir nokkuð stórir, sem ég vil ekki gefa stj. kvittun fyrir.

Endurskoðendur landsreikninganna hafa gert ýmsar aths. við þá, en ég verð að segja það, að mér virðast þær gerðar af töluvert miklu handahófi. Mér finnst, að þeir hafi gripið niður á ýmsum stöðum, sem rétt hefir verið að gera aths. við, en þeir hafa líka sleppt ýmsum atriðum, sem mér skilst, að ekki hefði síður verið athugaverð. Hv. frsm. fjhn. hefir nefnt 4 af þessum aths. endurskoðendanna, og mun hafa átt að skilja það svo, að hann sé að benda stj. á að breyta eftir þeim.

23. aths. er um það, að það vanti reikningsskil fyrir því fé, sem farið hefir til Laugarvatnsskólans. Meðan þau reikningsskil eru ókomin, virðist mér ógerlegt að gefa stj. kvittun fyrir greiðslu alls þess fjár.

Þá er það 27. aths., um 1350 kr. fyrir kappróðrarbát. Þótt þessu sé eytt í heimildarleysi, álít ég þetta tiltölulega saklaust á móts við sumt, sem óátalið er látið. Og hefði því verið fullt svo mikil ástæða til þess að gera aths. við einn lið í 19. gr. fjáraukal., þar sem greiddar eru 5–6 þús. kr. fyrir ferð í Vaglaskóg. Ég veit ekki, með hvaða heimild þetta hefir verið borgað út. (MG: Þetta er frá því 1926, en ekki borgað fyrr en 1929). Ég get samt ekki séð, að ríkinu hafi borið nein skylda til að borga þetta út. Það er víst tepruskapur hjá yfirskoðunarmönnunum, að þeir hafa ekki að þessari greiðslu fundið.

Þá gera yfirskoðunarmennirnir aths. við það, að prestinum í Vallanesi hafa verið greiddar 86 kr. til þess að hita upp kalt steinhús. Ég held, að þeir hefðu átt að sleppa því að gera aths. við þennan lið, þar sem af mörgum fleirum er að taka. Ég held, að það megi segja það sama um starf yfirskoðunarmannanna og skráð var við formála í bók nokkurri. Bók þessi var skrifuð á latínu, og getur höfundur þess í formálanum, að hann hafi leitað til sérstaks kunnáttumanns í latínu og hafi hann leiðrétt margar villur. Annar latínumaður skrifaði þá út á spássíuna „en skyldi þó margar vitleysur eftir“. Mér finnst, að sama megi segja um starf yfirskoðunarmannanna. Þeir hefðu mátt gera margar fleiri aths.

Í 40. aths. finna þeir að því, að bifreiða- og hestakostnaður, um 21 þús. kr., hefir verið settur á reikning landhelgisjóðs. Mér er sama, á hvaða lið þessi upphæð er færð, fyrst féð hefir verið borgað út. Ég hefði fundið að því, að það skyldi yfirleitt hafa verið borgað út. Auk þessa er allmikill bifreiðakostnaður færður annarsstaðar. Rekstur ríkissjóðsbílanna er t. d. talinn 6000 kr., og á öðrum lið eru 3000 kr. o. s. frv. Virðist varla hafa verið bráðnauðsynlegt að verja svo miklu fé í slíkan hégóma. Þar er líka risna o. fl. Hví finna endurskoðendur eigi að öllum þessum fjáraustri?

Þá kem ég að 13. aths., um styrkinn, sem Tíminn fékk til að flytja dóminn í máli Jóhannesar Jóhannessonar. Ég skil ekki, að neinu hefði þurft til að kosta til að fá þetta birt, þótt nauðsyn hefði þótt bera til að birta. Hvert blað hefði átt að vera fegið að fá svona efni til birtingar, sem hefði valdið því, að blaðið hefði verið meira lesið og mátt selja það í stórum stíl á götum úti. En engin ástæða var að styrkja blað til að birta dóminn.

Ég hefi heyrt sagt, að hæstv. forsrh. sé mjög óánægður með ýmislegt, sem gert hefir verið, og efa ég ekki, að það sé rétt. Sést það m. a. af því, að hann vildi gefa yfirlýsingu um það, eftir að breytingin varð á stj. í vetur, að ríkisvaldinu skyldi ekki verða misheitt fram yfir kosningarnar í vor, því að með því gaf hann það svo ótvírætt upp, að áður hefði ekki allt verið með felldu. (Forsrh.: Þetta er mjög hæpin lagaskýring). Vill hæstv. ráðh. neita því, að hann léti bera þessi boð til flokkanna? (Forsrh.: Þetta var miðað við framtíðina, en ekki við fortíðina). Það er undarlegt, að hæstv. ráðh. skyldi taka upp á því að gefa svona yfirlýsingu, ef stj. hefði áður verið flekklaus í þessum efnum. Það væri eins og ef maður, sem alltaf hefði verið heiðarlegur, færi upp úr þurru að gef, yfirlýsingu um það, að hann skyldi ekki stela næstu 2 mánuði. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. hugsi of rétt til þess að hann sjái þetta ekki.

Þó að hægt sé að taka miklu fleiri liði, þá ætla ég að sleppa því. Ég hefi gert grein fyrir því, hvers vegna ég get ekki samþ. frv. til landsreikningalaga, eins og það liggur hér fyrir. Hitt skil ég ekki, að fjhn. öll hefir orðið sammála um að samþykkja frv. En auðvitað erum við hinir ekki bundnir af þeim till. hennar og verðum að haga okkur eftir því, sem okkur réttast þykir.