15.07.1931
Sameinað þing: 1. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Jónsson:

Út af till. 1. kjördeildar vil ég taka það fram, að ég var sammála meðdeildarmönnum mínum um það, að öll kjörbréfin væru tekin gild, en hinsvegar sé ég ekki ástæðu til þess, að nauðsyn beri til að vísa kæru þeirri, sem fram hefir komið út af kosningunni í Barðastrandarsýslu, til kjörbréfanefndar. — Kæruatriðin eru aðallega tvö, og bæði lítilvæg. Hið fyrra er það, að sýslumaðurinn í Barðastrandarsýslu, hinn nýkjörni þm. kjördæmisins, hafi útbýtt óútfylltum eyðublöðum undir vottorð um, að þessi eða hinn kjósandinn afsalaði sér kosningarrétti á einum stað til þess að kjósa á öðrum. Hitt atriðið er það, að einn kjósandinn hafi ekki haft atkvæðisrétt. Bæði eru þessi atriði órökstudd, og liggja engin vottorð frammi, er sanni neitt í þessu máli. Hinsvegar var atkvæðamunurinn á sýslumanni og þeim frambjóðandanum, sem næstur honum varð að atkvæðamagni, svo mikill, að ekki er ástæða til að ætla, að þetta hafi haft nein áhrif á kosninguna, enda þótt á fullum rökum væri reist. Ég tel því sjálfsagt, að taka beri kosningu Bergs Jónssonar gilda umsvifalaust, eins og kosningu hinna annara þm.