15.07.1931
Sameinað þing: 1. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

Rannsókn kjörbréfa

Héðinn Valdimarsson:

Mér finnst það ekki rétt hjá Bergi Jónssyni, að hér sé um smávægileg atriði að ræða. Enda sagði hann í annari andránni, að kæran hljóðaði um glæpsamlegt athæfi. Ekki getur þetta hvorttveggja staðizt. Ég hefi ekki fulla trú á, að kosning hans sé ólögmæt, en eftir venju er slíkum málum vísað í kjörbréfanefnd. Sé ég ekki ástæðu til, að meiri hl. fari að beita sínu valdi til að komast hjá að rannsaka þetta mál. Því betur er hann kominn að kosningu sinni, þingmaður Barðstrendinga, ef það sýnir sig, að kæran er á engum rökum byggð.

Í kærunni stendur, að sýslumaður hafi undirskrifað nafn sitt, á óútfyllt eyðublöð, sem síðar voru notuð hingað og þangað af hans mönnum. Er tekið fram eitt dæmi, þar sem útfyllt er í Flatey nafn manns á vottorði, sem er undirskrifað af Bergi Jónssyni, sem ekki hafi getað komið fram á annan hátt. Getur verið, að hann geti afsannað þetta. En þetta er ekkert smáatriði. Kjörbréfanefnd er líka höfð til að rannsaka slík mál. Þess vegna er ég alveg með því að vísa þessu til kjörbréfanefndar.