15.07.1931
Sameinað þing: 1. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Baldvinsson:

Mér skilst á hv. 1. þm. Árn., að hann telji allt hafa verið löglegt, bæði við samningu kjörskránna og annað, sem fram fór. En ég vil benda á, að í 11. gr. kosningalaganna er beint fyrirskipað, að í fyrri hluta maímánaðar ár hvert skuli semja aukakjörskrá. Hún liggur síðan frammi fyrir kjósendur eins og aðalkjörskrá, nema frestir eru nokkru styttri. Það, sem ég hélt fram, að væri ólöglegt, hefir því líka verið ólöglegt. Í þessum hreppi hefir því verið framin hin mesta lögleysa. Hinsvegar er spurning, hvort þessi lögbrot hafa getað haft áhrif á úrslitin, og um það skal ég ekkert segja.

Annað er það, að vissara þykir alstaðar, að sæmilega sé gengið frá atkvæðakössunum. Nú er það játað, að þarna hafi enginn lykill verið til. Sennilega hefir kassinn verið settur í poka og bundið fyrir, en þær sögur heyrast, að losaralega hafi þar verið gengið frá. Kosningalögin gera ráð fyrir mjög strangri meðferð á atkvæðum, eftir að þau eru komin í kassa. Mér sýnist því, sem hér hafi verið allt í ólagi og brotin lög á kjósendum.

Ég endurtek þá till. mína, að þessum aðfinnslum við kosninguna í Árnessýslu verði vísað til kjörbréfanefndar til frekari athugunar.