15.07.1931
Sameinað þing: 1. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

Rannsókn kjörbréfa

Magnús Torfason:

Eins og tekið hefir verið fram, þá eiga þessar aths. hvað kjörskrárnar snertir ekki við kjörskrárnar frá í fyrra, heldur í ár. Þm. ættu að vita, að kjörstjórnir senda sýslumönnum samrit af kjörskrám. Þær komu til mín í fyrra, og man ég ekki til, að neitt væri fremur að athuga við kjörskrána úr þessum hreppi en aðrar úr sýslunni.

Að því er snertir það, að lykil og kjörbók vantaði, þá er frá því að segja, að ég gerði ítrekaðar tilraunir til þess að fá kjörbækur frá landskjörstjórn, sent af vangá höfðu verið til hennar sendar. Það var fyrst eftir að ég hafði kært til dómsmálaráðuneytisins, að farið var að leita að þessu. Þegar ég fékk þær í hendur, örfáum dögum áður en kjósa átti, sendi ég þær eins fljótt og ég gat til kjörstjórnanna. Biskupstungur eru ofarlega í sýslunni, og munu bækurnar hafa komið þangað daginn eftir kosninguna. — Um lyklana er það að segja, að þeir fylgdu kjörbókum.

Að því er snertir það, að hreppstjóri hafði setið sem oddviti kjörstjórnar, þótt frambjóðandi væri, vil ég geta þess, að í 8. gr. kosningal. er tekið fram, að oddviti yfirkjörstjórnar á að víkja, ef hann er í kjöri, þegar á að telja atkvæði; en ekkert slíkt er tekið fram um oddvita undirkjörstjórnar. Það er því mjög hæpið, að rétt sé, að kjörstjóri víki sæti fyrir þessa sök.

Hinn setti hreppstjóri var settur löglega af mér í stað hins reglulega hreppstjóra, meðan hann var á þingi, og hélt hann því umboði, þangað til hreppstjóri kom úr ferð sinni á Ströndum vestur.

Ég get tekið undir með hv. 2. landsk., að það hafi verið að ýmsu leyti ábótavant um kjörskrár o. fl. að þessu sinni. Það mun ekki hafa verið vandað til þess eins og gert er, þegar menn eiga von á kosningum. En ekki er ástæða til að gera rekistefnu út af þessum smámunum, enda eru verri lögleysur víða, sem þá hefði átt að kæra. Ég skal t. d. taka það fram, að hjá sumum lögreglustjórum vantaði vottorð vitundarvotta um, að kosið hefði verið í einrúmi, þannig að viðkomandi lögreglustjóri hefir verið einráður um þetta. En á eyðublöðunum fyrir kosningar utan kjörstaðar er tekið fram, að þau eiga að vera undirskrifuð af vitundarvottum. Þetta er miklu alvarlegri yfirsjón, ef út í það er farið.

Ennfremur get ég skýrt frá því, að eftir að kosning hafði farið fram, barst mér kjörseðill úr Reykjavík frá einum kjósanda í Árnessýslu, sem var neitað um að kjósa í Árnessýslu, af því að hann gat ekki kosið sjálfur, en hann fer til Reykjavíkur og fær að kjósa þar. Náttúrlega getur verið, að hann hafi eignazt eiginleika til að kjósa þar sjálfur, í millibilinu, en litlar líkur þykir mér fyrir því.

Ég verð því að leggja á móti því að gera sérstaka rekistefnu út af þessum hótfyndnu aths. við kosningarathöfnina í Biskupstungnahreppi.