21.07.1931
Sameinað þing: 2. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

Stjórnarmyndun

Jón Baldvinsson:

Ég vil nota tækifærið til þess hér í Sþ. að beina þeirri fyrirspurn til þingmeirihlutans, hvenær vænta megi þess, að föst stjórn verði sett á laggirnar. Þó að Framsóknarflokkurinn hafi fengið nægan meiri hl. til að mynda stjórn einn, bólar á engri stjórnarmyndun ennþá: Slíkt fer að verða með öllu óviðunandi. Nú eru ýms þingmál komin svo langt, að farið verður að tala um framkvæmd þeirra, og verða þm. þá að vita, hvort ætlazt er til, að bráðabirgðastj. sú, er nú situr, haldi völdum áfram eða ekki, því að væntanlega haga menn fyrirspurnum sínum öðruvísi til bráðabirgðastjórnar en pólitískrar stjórnar. Vil ég einkum beina þessum spurningum til hæstv. forsrh. og vona, að hann gefi greið svör.