05.08.1931
Neðri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

Stjórnarmyndun

Héðinn Valdimarsson:

Ég vildi leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort það sé ekki í ráði að mynda neina aðra stjórn á þinginu en þá, sem nú situr. Sú stj., sem nú situr að völdum, er bráðabirgðastjórn, eftir því sem hæstv. forsrh. hefir lýst yfir. Mér finnst það varhugaverð braut að ganga inn á, ef það á að verða almennt, að bráðabirgðastjórn sitji lengi að völdum. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort hann hugsi sér að halda því áfram að sitja sem stjórnarforseti í bráðabirgðastjórn, því mér finnst það sérstaklega varhugavert á meðan ástandið er eins og það er nú, að hér ríkir minnihlutastjórn, þ. e. a. s., að enginn flokkur hefir meiri hluta atkvæða í landinu, og Framsóknarfl. jafnvel ekki meiri hl. beggja deilda þings. Vildi ég biðja hæstv. forsrh. að svara því, hvort halda eigi þessari bráðabirgðastjórn áfram, eða hvort það eigi að mynda nýja stjórn.