21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

Stjórnarmyndun

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vil þakka hv. 1. landsk. vinsamleg ummæli í minn garð. Er mér ekki ókunnugt um það, að orðalag af því tægi, sem hann hafði um mig, hefir hjálpað mér og veitt mér traust í mínum flokki. Þess vegna veit ég, að allt, sem hann mun framvegis gera af því tægi, mun heldur bæta fyrir núv. stj. Ég hjó eftir því, að hv. 1. landsk. taldi þingrofið ólöglegt. Er það hryggilegt, ef hann hefir ekki lesið stjórnarskrána, því að þingrof er ekki annað en eitt þeirra stjórnskipulegu úrræða, sem stj. hefir, þegar með þarf. Hv. þm. er kunnugt, að eftir að liðnir voru fyrstu dagarnir frá þingrofinu, trúðu fæstir íhaldsmenn á þennan barnaskap og kenndu lögfræðingi einum um vitlausa lagaskýringu. Munu að vísu margir hafa verið í góðri trú upphaflega, en að skömmum tíma liðnum var svo gersamlega búið að slá botninn úr þessari kenningu, að ekki fannst einn einasti lögfræðingur, nema sá, sem villtist á málinu í upphafi, sem héldi henni fram. Á sameiginlegum fundum okkar vestanlands í vor var hv. 1. landsk. orðið þetta svo ljóst, að hann reyndi ekki að færa kjósendum heim sanninn um það, að þingrofið hefði verið ólöglegt. Verð ég að segja það hv. 1. landsk. til sorgar, að þetta frumhlaup prófessors hér við háskólann er almennt skoðað utanlands sem hlægilegt og til minnkunar bæði fyrir flokk hans og háskólann. Þetta þingrof var framkvæmt einungis til þess, að ekki yrði laumað í gegnum þingið stórræði án þess að þjóðin hefði gefið samþykki sitt til þess. Þjóðin átti að fá að láta í ljós vilja sinn um þetta stóra atriði, en andstæðingar Framsóknar héldu því fram, að stj. gengi ekki það til, heldur löngun til að sitja áfram í valdasessi. Forsrh. hefði ekki dottið í hug að rjúfa þing, ef ekki hefði verið kjördæmaskipunarmálið, og til þess að undirstrika þetta, ákvað stj. að sýna vilja sinn með því að láta meiri hl. ráðherranna segja af sér, en fá manni, sem annars hafði ekki gefið sig að pólitískum störfum, atvmrh.embættið í hendur. Þjóðin átti að skera úr, og ef íhaldsmenn hefðu unnið kosningarnar, hefði forsrh. þegar sagt af sér. En Framsóknarflokkurinn vann, eins og hv. 1. landsk. veit, og kom þar fram dómur þjóðarinnar. Er það ekki annað en vitleysa, þegar hv. þm. heldur því fram, að annað komi til greina en þingmeirihluti. Hefir aldrei verið litið á annað en hann í nágrannalöndunum. Það, að forsrh. fékk mann, sem ekki á setu á þingi, til að vera ráðh. frá þingrofinu til kosninga, sýndi ekki annað en þá ósk hans, að þjóðin fengi tækifæri til að segja álit sitt um þetta deilumál. En þegar þjóðin sendi framsóknarmeirihl. inn á þing, var stj. Tryggva Þórhallssonar orðin fullpólitisk stj. aftur.