21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (2572)

Stjórnarmyndun

Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. G.-K. talaði hér, eftir því sem mér skildist, fyrir hönd stjórnarandstæðinga. Ég veit ekki fyrir hönd hverra andstæðinga, sennilega fyrir sinn flokk, a. m. k. talaði hann ekki fyrir hönd okkar jafnaðarmanna. Við höfum oft kvartað undan því, að ekki skyldi hafa verið mynduð pólitísk stj. strax í byrjun þings, í stað þess að láta ábyrgðarlausa ópólitíska bráðabirgðastj. sitja við völd, eins og hæstv. þáv. og núv. forsrh. hafði lýst yfir, að sú stj. skoðaði sig. Nú á þessu þingi hefir það valdið nokkrum erfiðleikum um afgreiðslu mála, að menn vissu ekki, hverjir kæmu til með að taka við þeim úr höndum þingsins, sem var þó gagnstætt því, sem hæstv. forsrh. hafði lofað.

Það máttu allir búast við því eftir að kosningaúrslitin voru orðin kunn, að Framsóknarflokkurinn mundi verða einráður um stj.myndun, þótt það væri hinsvegar vitað, að hann styddist ekki við nema um þriðjung allra kjósenda í landinu. En það, sem nægir í því efni, er atkv. meiri hl. flokksins hér í þinginu. Hitt er annað mál, að það er óhæfa, sem þarf að kippa tafarlaust í lag, að þriðjungur kjósenda geti haft meirihlutavald á Alþingi og verið einráður um stjórn landsins.

Hv. þm. lýsti yfir því, að hann og hans flokkur hefði búizt við einhverju samstarfi um stjórnarmyndun, og þá meiru en því, sem sýnilegt er orðið. En það er fjarri því, að við jafnaðarmenn höfum búizt við nokkru slíku af okkar hálfu. Við höfum hvorki ætlað okkur að setja mann í stj. né skipta okkur á nokkurn hátt af því, hvernig Framsóknarflokkurinn skipar hana. Það er okkar álit, að Framsókn eigi að öllu leyti að ráða vali þeirra manna, og jafnframt bera ábyrgð á gerðum þeirra. Ég sé satt að segja enga ástæðu til þess að undrast yfir vali þessarar stj., nema hvað það hefði e. t. v. verið eðlilegra, að gamla stj. hefði verið tekin eins og hún var. Annars er það mál, sem okkur kemur ekki við og mundi ekki miklu breyta, svo lengi sem Framsóknarfl. hangir saman og gerir sig samábyrgan stjórninni. Okkar afstaða til stj. hefði ekkert breytzt, hvernig svo sem hún hefði verið skipuð, og við hefðum ekki tekið þar þátt í neinu samstarfi. En ég verð að játa það í ljós, að mér finnst hv. þm. G.-K. megi vera ánægður með að eiga einn fulltrúa fyrir sinn flokk í stj., þótt hann á hinn bóginn ráði ekki vali allra ráðherranna.