21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (2574)

Stjórnarmyndun

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Þær ræður, sem fluttar hafa verið siðan ég talaði hér, gefa ekki tilefni til mikilla andsvara.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ég hefði sagt fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, að við hefðum búizt við því, að mynduð yrði samsteypustjórn. Ég sagði, að alstaðar annarsstaðar myndi undir svipuðum kringumstæðum vel hafa getað komið til mála, að mynduð yrði samsteypustj. Og ég tók það fram, að ég gæti ekki um það sagt, hver endir hefði orðið á slíkri málaleitan, ef fram hefði komið ósk um það. Ég tók það einnig fram, að ekki hefði verið við því að búast af Framsóknarflokknum, að slíks hefði verið farið á leit, en hinu hefði ég búizt við, að flokkurinn myndi reyna að mynda sína stj. þannig, að kraftar hans kæmu sem bezt í ljós.

Hæstv. forsrh. varð það á að líkja mér við Þórð kakala. En hann áttaði sig nú samt á því, að þetta myndi vera fullmikill heiður fyrir mig, og reyndi að draga dálítið úr því, og ég skal fúslega játa, að það er margt óréttara gert en draga eitthvað úr því lofi, að ég sé maður á við Þórð kakala. En út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um það, að það væri ósamræmi í því hjá mér að ætlast til þess, að Framsóknarflokkurinn leitaði samvinnu við aðra flokka, og lá honum þó svo mjög, að hans flokkur skyldi standa saman um stjórnarmyndunina. Ég hefi aldrei ámælt Framsóknarflokknum fyrir annað en það, að hann skyldi standa saman um óþrifaverkin. Það vita allir, að flokkurinn er sundurþykkur innbyrðis, þó að gömul syndasamábyrgð hafi nú þjappað honum saman um stund. Ef Framsóknarflokkurinn hefði viljað standa saman um aðalviðfangsefni hvers flokks, þó ekki væri annað en um það, að mynda þannig stj., að hún útilokaði ekki aðra flokka frá samvinnu, þá hefði hæstv. ráðh. — getað hælzt um það, að Framsókn hefði gert sitt til þess, að allir hefðu getað staðið saman. Fyrst hæstv. ráðh. var að minna mig á það, að rétt væri á hverjum tíma að láta umhugsunina fyrir heill ættjarðarinnar sitja í öndvegi, þá leyfi ég mér að spyrja þennan hæstv. ráðh.: Hefir hans stjórnmálaferill verið sá, að hægt sé að segja, að hann hafi gert sér að kjörorði að láta heill ættjarðarinnar sitja í öndvegi? Hefir þessi hæstv. ráðh. ekki verið óvenjulega því marki brenndur, að setja flokkshagsmunina ofar þjóðarheillinni? Er ekki óhætt að segja, að flokkurinn hafi staðið nær hjarta hans heldur en þjóðin? Er þetta ekki undirrót þess auðnuleysis, sem hefir fylgt stj. þessa manns? Ef hæstv. forsrh. hefði aldrei vikið frá því kjörorði, sem hver einasti stjórnandi á að hafa, að meta þjóðarheillina meir en flokksheillina, þá veit ég, að hjá flestu af því illa, sem skeð hefir á undanförnum árum, hefði verið stýrt. Höfuðsyndin er sú, að flokkurinn hefði setið í fyrirrúmi fyrir þjóðinni, og því er nú komið sem komið er. Það lætur því einkennilega í munni þessa hæstv. ráðh., að vera að brýna fyrir öðrum að halda þau boðorð, sem hann sjálfur öllum öðrum fremur hefði átt að hafa í minni á undanförnum árum, og sem hann hefir sýnt, að hann öllum stjórnarformönnum fremur hefir brotið og lítilsvirt.

Hæstv. fjmrh. sagði, að engri stj. mundi hafa verið fagnað, hvernig sem Framsóknarflokkurinn hefði myndað hana. Þetta er rétt. Ég álít, að stjórnarandstæðingar hefðu ekki fagnað neinni stj. frá Framsóknarflokknum, þótt það sé nokkuð viðmiðað (reelt) hugtak. Við höfum aldrei búizt við, að hún yrði eins og okkar óskir standa til, ef Framsóknarflokkurinn myndar hana, en þó er það mála sannast, að mikill munur er á, hverjar viðtökur stj. Framsóknarflokksins fær í okkar herbúðum. Ég hefði t. d. ekki talið ástæðu að standa hér upp og játa í ljós óánægju mína, ef 2 menn eins og hæstv. fjmrh. hefðu setið hér í stjórn. Aftur á móti finn ég ástæðu til þess, þegar þessi maður, hæstv. fjmrh., sezt við hlið þess manns, sem ég, fyrir allra hluta sakir, tel verst til þess fallinn að sitja í stj. á þessum erfiðleikatímum. Ég get ekki annað en ámælt þeim flokki, sem teflir fram slíkum manni.

Ég skal ekki ræða um það við hæstv. ráðh., hverjar séu orsakir kreppunnar. Ég hygg þó, að hann verði að gera sér ljóst, að stjórn hans á fjármálum landsins getur átt veigamikinn þátt í því, hver verði áhrif hverrar þeirrar kreppu, sem leiðir yfir ísl. atvinnulíf. Hæstv. ráðh. má ekki láta sér nægja að hugsa svo sem hann virðist hugsa, eftir þeim orðum, sem hann mælti hér, að íslenzka stj. þurfi ekki að gera annað, þegar kreppan skellur á, en segja, að hún eigi rætur sínar í Ameríku, Afríku, Asíu eða einhversstaðar annarsstaðar en hér.

Hæstv. ráðh. virðist vera það ljóst, að rætur þeirrar kreppu, sem nú ríður yfir, liggja að mestu leyti fyrir utan endimörk ísl. stjórnmálabaráttu. Hitt verður hæstv. ráðh. einnig að skilja, að ísl. stjórnmálastarfsemi hefir veruleg áhrif á, hvernig þjóðin er við því búin að taka á móti kreppunni á hverjum tíma, hvort sem aldan rís nær eða fjær ísl. landamærum.

Um þá stj., sem farið hefir með völd síðasta kjörtímabil, er það að segja, að fjármálastj. hefir verið svo bág, að ekki er hægt að hugsa sér, að þjóðin geti verið verr undir það búin að taka á móti kreppunni en hún er. Við værum betur stæðir að taka á móti kreppunni en við nú erum, ef við ættum nú handbærar í ríkissjóði þó ekki væru nema 10 millj. af þeim 60 millj. kr., sem sóað hefir verið síðustu árin, eða ef skattar hefðu verið léttir og sú upphæð þannig verið skilin eftir í buddu skattborgaranna. Hæstv. ráðh. verður að gera sér ljóst, að kreppa ísl. atvinnulífs stafar fyrst og fremst af því róti, sem orðið hefir á tilkostnaði og atvinnurekstri. Hún þarf ekki eingöngu að stafa af því, að verð framleiðsluvörunnar hafi fallið; hún getur líka stafað af því, að tilkostnaður hefir aukizt. Og einn kostnaðarliðurinn eru skattar þeir, sem framleiðendur verða að bera og hafa þau áhrif, að þeir hafa eytt hverjum eyri, svo ekkert er í varasjóði, þegar kreppan skellur yfir. Hæstv. ráðh. verður því að gera sér ljóst, að það skiptir atvinnurekendur ekki litlu máli, hvernig fjármálastj. er á hverjum tíma.

Þá sagði hæstv. ráðh. nokkur orð í lok ræðu sinnar, sem ég veit, að hann meinar, en hljóma nokkuð hjáróma undir þessum kringumstæðum. Hæstv. ráðh. sagði, að hér dygðu engin ráð önnur en vanda sinn málstað. Guð hjálpi okkur! Hæstv. ráðh. hefir nú framið það afbrot, sem minnst ber vott um, að hann vandi sinn málstað. Hann hefir ekki lagt lag sitt við þá, sem saklausastir eru í ytri og innri framkomu, án þess að ég vilji nokkuð dylgja um innræti hans. Og þetta viðurkennir hæstv. ráðh., þegar hann kemur hér fram á örlagastundu æfi sinnar. Hann vill ekki selja sálu sína mansali. En hæstv. ráðh. hefir nú vikið af braut sinni með því að setjast í stjórn með þeim manni, sem guð og menn vita, að hann álítur, að ekki eigi að sitja í stj., og með því tekið á sig ábyrgð á mörgum ófrömdum verkum þess ráðh. Hæstv. ráðh. vill vanda sinn málstað, en hann verður að gera sér ljóst, að það er ekki hægt að þjóna bæði guði og mönnum. Það er ekki hægt að hafa óflekkaðan skjöld og bera um leið höfuðábyrgðina á því, að sá maður er seztur í stjórnarsessinn, sem hæstv. ráðh. álítur, að hafi hegðað sér þannig, að óviðunandi sé, og engin hugsanleg leið er, að hegði sér öðruvísi framvegis.