21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (2577)

Stjórnarmyndun

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væru flokkar eins og minn flokkur, sem ekkert vildu gera til þess að afstýra kreppunni: Hvað hefir hæstv. ráðh. fyrir sér í þess? Er nokkuð það í sögu Sjálfstæðisflokksins eða gamla Íhaldsflokksins, sem bendir til þess, að hann vilji síður en flokkur hæstv. fjmrh. afstýra kreppunni? Ég veit ekki betur en að þegar þeir hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. Skagf. fóru með völdin í landinu, hafi þeir gert allt, sem bezt sýndist duga, til þess að afstýra kreppunni í landinu á öllum sviðum.

Ég varð þess var í síðari ræðu hæstv. ráðh., að honum var það ljóst, að það skipti ekki svo litlu máli, hvernig haldið væri á samtíma fjármálum í landinu. Það gleður mig, að hæstv. ráðh. er þetta ljóst, og ég vona, að hann fari eftir því.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri rangt hjá mér, að skattalöggjöf síðustu ára hefði haft áhrif á kreppuna. Ég sagði þetta ekki beinlínis, en hitt sagði ég, að ef eitthvað af þeim millj. kr., sem eytt hefir verið úr buddum skattborgaranna undanfarin ár, lægi þar ennþá, þá stæðum við betur að vígi að bera hallann af atvinnurekstrinum en nú er. Ég sagði ennfremur, að ef nokkur hluti af þeim millj. kr., sem kastað hefir verið á glæ til miður þarfra fyrirtækja, væri nú til í sjóði, gæti hið opinbera betur hlaupið undir bagga með atvinnurekstrinum en nú getur það.

Hæstv. forsrh. sagði, að hann teldi gagnslítið að tala hér fyrir verkum sínum. Það væri hin objektiva saga, sem ætti að dæma þau. Ég skal ekki ræða við ráðh. um sögulega dóma. Hefi ég litla trú á þeim. Ég álít, að við, sem nú lifum og störfum samtímis hæstv. stj., séum eins bærir um að dæma um, hvernig hún hefir haldið á stjórnmálunum eins og þeir, sem lifa hér í landinu eftir mörg hundruð ár.

Ég verð að segja það, að mér finnst undarlegt, að hæstv. ráðh. skuli finna ástæðu til þess að finna að því, sem ég sagði, að það hefði verið gæfuleysið, sem hefði einkennt allan hans feril. Það er ekki hægt að bera á móti því, að síðasta kjörtímabil hefir árferðið verið þannig, að aldrei hefir verið svo gott um framkvæmdir sem þá. Ég veit, að framkvæmdir hafa verið miklar í landinu, en hvaða stj. ætli það hefði verið, sem hefði haft aðrar eins tekjur sem þessi stj. hefir haft og ekki gert neitt? Engin. Hitt er vitað, að það eru stórar fúlgur, sem stj. hefir kastað á glæ í bein og bitlinga.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann skilaði landinu nú í betra og byggilegra horfi en það hefði verið í þegar hann tók við því. Þetta er hlægilegt af hæstv. ráðh. Veit hann ekki, að hvaða stj., sem verið hefir í landinu eitthvert framfaratímabil, hefir innt ýmislegt af hendi, sem orðið hefir til þess að bæta landið? Ég vildi sjá þá stj., sem hefði megnað að hindra það undanfarið kjörtímabil, að bændur hefðu ræktað land sitt og borgarar þjóðfélagsins reist hús.

Mér finnst, að stj. hafi lifað líkt og sumir menn eftir stríðið. Þeir lifðu þá í auði og allsnægtum, en kunnu ekki fótum sínum forráð og enduðu svo á vonarvöl. Mér finnst stj. hæstv. ráðh. vera sambærileg við slíka menn. Eftir þau einstöku góðæri, sem yfir þetta land hafa komið, er stj. í fjármálalegum skilningi upp á aðra komin. Og ég vona, að hæstv. ráðh. sé ekki svo illviljaður, að hann óski, að svo fari fyrir mér, ef ég á eftir að lenda í því að vera í stj. þessa lands, að svo illa fari fyrir mér eins og hans hlutskipti hefir orðið eftir 4 ára stjórnartímabil.

Il. Afgreiðsla þingmála.

Á 15. fundi í Nd., 29. júlí, áður en gengið væri til dagskrár, mælti