11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

Afgreiðsla þingmála

Pétur Ottesen [óyfirl. ]:

Það var að ég ætla á þinginu 1929, eftir að fram voru komnar till. frá póstmálanefndinni um allverulegar breyt. á póstsamgöngunum í landinu, að samþ. var þál. um, að þeim skyldi ekki verða breytt án þess að þær breyt. væru bornar undir viðkomandi héraðsstjórnir og þær ættu þess kost að láta uppi álit sitt á þessum breyt., hver í sínu héraði. Jafnframt var svo ákveðið í þessari þál., að þær óskir, sem fram kæmu frá sveitarstj., væru lagðar fyrir samgmn. Alþingis.

Á síðastl. þingi skrifaði ég samgmn. Nd. bréf um þetta og sendi henni þær óskir, sem mínir kjósendur höfðu að gera viðvíkjandi breyt. á póstsamgöngunum, sem þá voru komnar í framkvæmd í héraðinu.

Nú vildi ég spyrja að því og biðja hæstv. forseta að grennslast eftir, hvort samgmn. hefir tekið þetta til athugunar og gert nokkrar till. út af þessu eða komið þessum óskum á framfæri við póstmálastjórnina.

Það er mjög óskað eftir því í mínu kjördæmi að fá nokkrar breyt. í þessu efni, og þær óskir fólust í þessu erindi mínu til samgmn.

Mér þætti vænt um, ef hæstv. forseti vildi grennslast eftir því, hvað þessum störfum n. líður.