11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

Afgreiðsla þingmála

Héðinn Valdimarsson:

Flest af þessum málum, sem liggja fyrir fjhn., allshn. og menntmn., eru frá 20. júlí og eru því búin að liggja þar 3 vikur óhreyfð. Mér virðist þó einfaldast, ef n. er öll á móti máli, að hún gefi út nál., þar sem hún leggur til, að það verði fellt. N. eru til þess að segja álit sitt um málin, en ekki til þess að svæfa þau. Í þessu tilfelli býst ég við, að hinir flokkarnir taki upp hanzkann fyrir sína menn í n. En ef þessi venja er upp tekin, að n. skili ekki áliti um mál, sem þær eru andvígar, þá eru vitanlega þeir flokkar, sem ekki eiga menn í n., beittir mesta ranglæti. Hinsvegar get ég vel hugsað mér, að mál komist í gegnum þingið, þó að n. vilji ekki mæla með því.

Ég skildi hæstv. forseta þannig, að frv. um læknishéraðasjóði kæmi bráðlega fyrir þingið, og skal því ekki endurtaka ósk mína um að taka það á dagskrá, en ég óska þess fastlega, að frv. um jöfnunarsjóð ríkisins verði tekið fyrir á morgun eða hinn daginn, hvort sem álit verður komið frá n. eða ekki.