19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

1. mál, fjárlög 1932

Pétur Magnússon:

Ég á hér aðeins 2 brtt., á þskj. 342. Fyrri brtt., VI. till., er við 13. gr., um styrk til flóabátaferða. Þessi till. lá fyrir við 2. umr., en var þá tekin aftur eftir samkomulagi við n. Ég talaði þá fyrir þessari till. og þarf því ekki að eyða mörgum orðum um hana nú. Í brtt. er farið fram á, að styrk til flóabáta skuli hækka um 500 kr., og er ætlazt til, að sú upphæð gangi til Hvalfjarðarbátsins, og er þá styrkur til hans 2000 kr. Þetta er gert með tilliti til þess, að hann fari fleiri áætlunarferðir upp í Hvalfjörð. Það er mjög þýðingarmikið atriði fyrir íbúa 3–4 hreppa, sem liggja að Hvalfirði, beggja megin fjarðarins, vegna þess að nú eru þeir farnir að selja mjólk og mjólkurafurðir til Reykjavíkur, en áætlunarferðir bátsins eru skilyrði fyrir því, að það geti orðið áfram. Hér er um svo litla fjárhæð að ræða, sem mundi hinsvegar koma að svo miklu gagni fyrir íbúa þessara sveita, að ég get naumast hugsað mér, að hv. þd. neiti um þennan litla styrk.

Þá á ég XVII. brtt. á sama þskj., við 15. gr., þar sem ætlazt er til, að komi nýr liður, 3000 kr., til Sambands ísl. karlakóra. Þetta samband er stofnað fyrir 2–3 árum, og eru í því flestir starfandi karlakórar hér á landi. Tilgangur þessa sambands er eins og allir skilja að auka söngmennt í landinu og glæða áhuga fyrir þessari sérstöku tegund söngmenntar. Sambandið hefir haldið eitt söngmót hér, og það var í sambandi við Alþingishátíðina í fyrra. Nú hefir það í huga að gefa út sönglög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld, sem hafa ekki verið gefin út ennþá, a. m. k. ekki raddsett fyrir karlakór. Það hefir vitanlega mikinn kostnað í för með sér, meiri kostnað en þetta samband sér sér fært að standa straum af, því að það er vitanlega fátækt. Sambandið mun og hugsa sér að halda söngmót eftirleiðis, en við það yrði einnig nokkur kostnaður, sem það verður varla fært um að bera, því að söngmennirnir leggja vitanlega alla sína miklu vinnu fram án nokkurs endurgjalds. Ég skal og geta þess, að sambandið hefir fengið styrk 2 síðustu ár í sambandi við söngmót það, sem ég gat um.

Ég þykist ekki þurfa að útlista fyrir hv. þd., hvers virði það er fyrir þjóðina, að þessi list glæðist hér, sem jafnan hefir verið talin einna mest þroskandi og göfgandi af öllum listum, og er það vissulega eftirsóknarvert, ef hægt væri að gera þessa þjóð að syngjandi þjóð.

Ég vona, að ég þurfi ekki að færa fleiri rök að því, að rétt sé að taka vel undir þessa till., en þess mætti þó geta, að það er í raun og veru rétt, að sá styrkur, sem veittur er til karlakóra, sé veittur sambandinu, og að það úthluti honum síðan til hinna einstöku söngflokka. Þessi leið hefir ekki verið farin, því að nú er í fjárl.frv. styrkur til sérstaks söngflokks.

Þó að ég hafi ekki farið fram á hærri styrk en 3000 kr., hefi ég samt flutt varatill., 2000 kr., og geta því hv. þdm. dæmt um, hvort þeim þykir of ríflegur sá styrkur, sem farið er fram á í aðaltill., og geta þá samþ. síðari till., ef þeim finnst, að 3000 kr. sé of hár styrkur.