19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

1. mál, fjárlög 1932

Guðrún Lárusdóttir:

Áður en ég fer að tala um brtt. þær, sem ég flyt, ætla ég að fara nokkrum orðum um brtt. hv. fjvn. Það er þá fyrst brtt. nr. X,1 á þskj. 346. Ég hefir þegar fært hér fram ástæðurnar fyrir styrkbeiðni þessarar konu, og ég legg áherzlu á, að þingið verði við þessari litlu beiðni, Ég sé ekki, þó að þessi till. hv. fjvn. yrði samþ., að nokkur sparnaður geti að því orðið fyrir ríkissjóð. Þessi sjúklingur dvelur nú á hressingarhæli og kostar ríkið 5 kr. dag lega, en hér er aðeins farið fram á 1200 kr. á ári. Ég hefi talað við Helga Ingvarsson, lækni hælisins í Kópavogi, og telur hann mjög æskilegt, ef þessi sjúklingur fengi tækifæri til þess að dvelja utan hælis til hvíldar og tilbreytingar frá sjúkrahúsvist, því að hún mun hafa dvalið á hælinu um 20–30 ár, og ég veit það frá minni persónulegu viðkynningu við þessa konu, að hún er alveg að gefast upp og örmagnast af þessari löngu hælisvist. Ég vona því, að Alþ. sjái sér fært að verða við bón þessarar konu. Líka má taka tillit til þess, að hún var um langt skeið starfsmaður ríkisins. og vann sér mjög gott álit bæði sem kennari og póstafgreiðslumaður.

Þá ætla ég að fara nokkrum orðum um brtt. XXIII á þskj. 342, sem hv. 5. landsk. flytur; það er viðvíkjandi styrknum til Stórstúkunnar. Ég teldi vel fara, ef hv. þdm. sæju sér fært að halda áfram með þann 10 þús. kr. styrk til þessarar merku og þörfu stofnunar, sem nú er kominn í fjárl. Það má ekki skilja þessi orð mín svo, að ég sé mótfallin aukinni bindindisfræðslu í skólum landsins. En ég held að til þess væri hægt að fara aðrar leiðir en að rýra fé Stórstúkunnar. Mér er kunnugt um það, að mikill áhugi er nú fyrir því í reglunni að vinna með nýjum aðferðum og vinna vel á næstkomandi árum; t. d. er áformað að stækka blað reglunnar, sem hingað til hefir verið lítið mánaðarblað, gera það að vikublaði með fjölbreyttu efni. Ennfremur hefir Stórstúkan í hyggju að senda regluboða um land allt til þess að skýra hugsjónir bindindismanna og vinna á móti Bakkusi eftir megni. Slíkt hefir áður gefizt vel. Ég treysti því hv. þdm. að skerða ekki styrkinn til Stórstúkunnar á þann hátt, sem hér er farið fram á, vera ekki að klípa af þessum 10 þús. kr., því að þeim er sannarlega vel varið.

Þá ætla ég að minnast á mínar brtt. og byrja þá á brtt. XXIV á þskj. 342, um hækkun á styrk til prestsekkjunnar Guðrúnar Björnsdóttur. Það eru um 40 prestsekkjur, sem styrk hafa í fjárl. Af þeim fá 16 undir 200 kr. á ári, 5 á milli 200 og 300 kr., og hinar flestar 300 kr. Auk þess fá sumar þeirra 100 kr. á ári með hverju barni sínu, sem er í ómegð. Getur það tæplega talizt ríflega tiltekið, og ekki þætti það vel skammtað hjá hreppsnefndum eða fátækrastjórnum kaupstaðanna, þó að ekkjur prestanna verði að gera sér slíkt að góðu.

Mér þykir vænt um að sjá, að hv. 5. landsk. hefir borið fram eina prestsekkju til eftirlaunahækkunar, en þær hefðu gjarnan mátt vera fleiri. Því að það er hrein og bein minnkun fyrir fjárveitingavaldið, úr því að starfsmenn þjóðkirkjunnar eru taldir embættismenn ríkisins, að ekkjum þeirra eru boðin slík sultarlaun, minni en allra nánasarlegustu fátækrastjórnir miðla ekkjum, sem þær eiga að sjá um. Það er því engin furða, þó að fátæk, aldurhnigin prestsekkja fari þess á leit við hið háa Alþingi, að það sjái henni fyrir nokkurri viðbót á þessum vesæla lífeyri. Þessi umsókn Guðrúnar Björnsdóttur lá fyrir hv. fjvn. Nd. á síðastl. vetri og var send herra biskupnum til umsagnar. Manni til mikillar undrunar leggur yfirhirðir kirkjunnar á móti þessari hóflegu beiðni ekkjunnar. Hann studdi mótmæli sín með því að skírskota til þess, að hún hefði ekki fengið neinn styrk af opinberu landsfé í full 20 ár eftir að hún varð ekkja. Stóð hún þá uppi eignalaus með 3 ungbörn, er maður hennar andaðist, og fór ekki fram á neinn fjárstyrk af Alþ. Maður hennar hafði verið aðstoðarprestur í 4 ár af prestsskapartíð sinni, en settur var hann prestur að Svalbarði í Þistilfirði við andlát prests, er þar hafði þjónað, og starfaði hann þar á eigin ábyrgð um rúmt ár. En þrátt fyrir það leit ekkjan svo á, að sér bæri ekki eftirlaun, sökum þess að maður hennar hafði aðeins verið prestur hjá öðrum, eða aðstoðarprestur, og í þeirri meiningu stóð hún, þar til er hún kom til Rvíkur og leitaði til Þórhalls biskups Bjarnarsonar, sem sagði henni ótvírætt, að henni bæri eftirlaun sem öðrum prestsekkjum, hvatti hana til þess að sækja, og var henni hjálplegur í því, svo að hún fékk strax 300 kr. eftirlaun. Er hún mjög þakklát hinum skjótu og göfugmannlegu undirtektum hins látna biskups, sem sýndi þá, eins og oftar, sitt góða og frjálslynda hugarfar. En nú er öldin önnur. Þegar þessi sama ekkja, mörgum árum síðar, orðin öldruð og heilsulítil og fátæk, fer þess á leit, að litið verði á kjör hennar og henni bætt að nokkru þau árin 20, sem hún fékk engan eyri úr ríkissjóði, þá leggur biskup landsins á móti því og byggir mótmæli sín á því, að maður ekkjunnar hafi aðeins verið aðstoðarprestur. Nú virðist svo, sem Þórhallur heitinn Bjarnarson biskup hafi öðruvísi á það mál litið, því að hann taldi engin tormerki á því, að konan hefði fengið eftirlaun strax eftir að maður hennar dó, því að hann hefði verið þjónandi sóknarprestur í eitt ár, hefði hún aðeins sótt. En það gerði hún ekki, og spöruðust með því 6000 kr. útgjöld samanlagt í þau 20 ár, sem hún hefði getað fengið 300 kr. styrk árlega. Það hlýtur því að teljast sanngjarnt að líta á þessa hlið málsins nú, þegar þessi sama kona, 77 ára að aldri, þrotin að heilsu og kröftum, kemur fram fyrir Alþingi og biður um þá launahækkun, sem brtt. tilnefnir. Hvað hv. þdm. sjá ástæðu til að gera í þessu efni, er mér ókunnugt um, en ósanngjarnt getur það tæplega talizt að taka beiðni þessa til greina, og það því síður, sem í hlut á háöldruð kona.

Þá er það brtt. nr. XII á sama þskj. Það er beiðni frá kvenfél. Ósk á Ísafirði um hækkun á styrk til húsmæðrafræðslu úr 6000 kr. upp í 7500 kr., eða til vara 7000 kr. Kvenfél. Ósk á Ísafirði hefir um 12 ára skeið haldið uppi húsmæðrafræðslu á Ísafirði, starfrækt þar kvennaskóla, sem kunnugir segja, að sé í alla staði hinn prýðilegasti. Þangað hafa til jafnaðar sótt fræðslu um marga nytsama hluti 24 stúlkur á ári. Skólinn hefir haft aðsókn svo mikla, að hann hefir ekki getað sinnt nærri öllum umsóknum um skólavist sökum rúmleysis. Stúlkurnar, sem sótt hafa skólann, eru úr öllum fjórðungum landsins. Þeir, sem séð hafa skóla þennan, dást mjög að regluseminni og hinu góða fyrirkomulagi, sem þar er lögð stund á. Og námsmeyjarnar lúka miklu lofsorði á kennsluna, enda eru kennslukonur skólans sannkallað einvalalið, og býst ég við, að mörgum hv. þdm. sé það ljóst, ýmist af afspurn eða fyrir eigin kynni. — Stjórn skólans hefir sett sér það lofsverða mark að hafa skólann svo ódýran, að fátækar stúlkur gætu notið hans engu síður en þær, sem efnaðri eru. Skólagjaldið hefir verið einar 75 kr. á mánuði, og er í því innifalið allt, fæði, húsnæði og kennsla, og engin inntökugjöld hafa verið greidd. Húsnæði skólans er afardýrt, um 4000 kr. á ári, og þó of lítið, svo að skólinn hefir ekki getað rúmað allar þær stúlkur, sem til hans hafa leitað, og því síður getað bætt úr húsnæðisleysinu með því að byggja. Til þess er hann allt of fátækur. Nú er það lýðum ljóst, hve þýðingarmikill þáttur menntun kvenna er í lífi þjóðarinnar, og þá ekkert síður sérmenntun kvenna í þeim efnum, sem að heimilinu lúta. Að heimilunum sé stjórnað af hagsýni, þekkingu og göfugri menningu, hlýtur að vera einhver sterkasta stoðin undir velmegun þjóðarinnar í andlegu og efnalegu tilliti. Mun því engum blandast hugur um, að því fé, sem varið er þessu málefni til styrktar, er vel varið. Það hefir og upp á síðkastið virzt vaka fyrir hinu háa Alþingi. Fjárframlög til húsmæðrafræðslu hafa aukizt til mikilla muna, þótt betur megi, ef duga skal, því að ennþá er húsmæðrafræðslunni ekki gert jafnhátt undir höfði eins og t. d. bændafræðslunni. En að því ber þó að stefna, að húsfreyjuefni landsins eigi jafnan kost þess að afla sér fræðslu og þekkingar undir lífið eins og bændaefnin. Þá fyrst, þegar ríkið kostar húsmæðraskóla í öllum fjórðungum landsins, á borð við búnaðarskólana, tel ég, að húsmæðrafræðslan sé komin í gott horf. En svo að ég hverfi aftur að því, sem ég var að tala um, lít ég svo á, að kvenfélagið Ósk hafi unnið vel og dyggilega fyrir þeirri styrkhækkun, sem brtt. fer fram á. Það er þegar fengin reynsla fyrir því, að skólinn er nýt stofnun, að stjórn hans er sýnt um málefni skólans og að margar konur hafi þar aukið þekkingu sína og orðið færari um að stunda verk sinnar köllunar á heimilum sínum, og þá jafnframt lagt sinn skerf til vors sameiginlega heimilis — þjóðfélagsins. Mér virðist það mjög misráðið að skera við nögl þá styrki, sem slíkum stofnunum eru nauðsynlegir.

Hið sama vil ég taka fram um brtt. XII á sama þskj., um hækkun á rekstrarkostnaði Kvennaskólans í Reykjavík. Ástæðurnar eru svipaðar, fjárþröng sem stendur, aðallega sökum kaupa á húsinu og þungra afborgana af húsverðinu, en þar að auki vegna hækkunar á kaupi stundakennara, sem nam yfir 3000 kr. á síðasta starfsári skólans. En skólagjald hefir hinsvegar ekki hækkað, og skoðar skólastjórnin það sem hreinasta neyðarúrræði að hækka skólagjaldið og íþyngja þannig efnalitlum stúlkum og foreldrum þeirra, sem margir hverjir munu eiga fullt í fangi með að standast útgjöld, sem af skólavist leiðir alla jafnan, því að þar ber að líta á fleira en skólagjaldið eitt. Um Kvennaskólann í Reykjavík þarf ekki að fjölyrða. Hann er löngu kunnur orðinn, og að góðu einu. Þar hafa mjög margar merkiskonur notið náms fyrr og síðar; þangað á mörg konan, yngri og eldri, til góðra minninga að telja, minninga um nákvæma aðhlynningu að andlegum gróðri, um nýta tilsögn í hagkvæmum fræðum til munns og handa. Stofnun þessi telur þegar það mörg árin og á svo mikil ítök í hugum hinnar ísl. þjóðar, að óhætt má treysta því, að þjóðin samsinni fúslega af sameiginlegum sjóði sínum þá viðbót, 4000 kr., sem brýn þörf skólans biður um. Ég vona, að hv. þdm. sjái sóma sinn í því að hlynna að gróðri þeirra stofnana, sem vinna að menntun dætra landsins. Ég vona, að hv. þdm. samsinni með mér orð skáldsins:

„Í sálargöfgi svanna

býr sigur kynslóðanna,

og hvað er menning manna,

ef menntun vantar snót?“

Með það fyrir augum hygg ég, að bezt verði hlúð að uppvaxandi lýð landsins, og með það fyrir augum getum við greitt atkv. með styrk á báðum þessum stöðum með góðri samvizku. Þjóðin fær það fé aftur í annari og betri mynd.

Þá flyt ég 2 brtt. við 16. gr. Fyrri brtt. er að efni til shlj. brtt., er ég bar fram við 2. umr. um aukinn styrk til landssýningar heimilisiðnaðarfélaganna. Ég benti á það við 2. umr., hvílík fjarstæða það væri að láta rekstrarhallann af sýningunni lenda á forgöngumönnum hennar. Sýningin var haldin fyrir allt landið á því ári, sem öll þjóðin hélt hátíð og útlendingar þyrptust í stórhópum hingað. Mér er kunnugt um, að bæði innlendir menn og útlendir höfðu ánægju af að kynnast handaverkum landsmanna á sýningunni. En vitanlega hafði hún mikinn kostnað í för með sér. Rekstrarhallinn varð um 7000 kr. Nú eru ætlaðar í fjárlagafrv. 2000 kr. upp í þennan rekstrarhalla, en brtt. mín fer fram á, að sú upphæð verði hækkuð upp í 2500 kr. Þykist ég vita, að hv. d. þyki ekki til of mikils mælzt.

Hin brtt. við 16. gr. er þess efnis, að fjárveiting til Halldóru Bjarnadóttur verði hækkuð úr 1800 kr. upp í 2000 kr. Ég þarf ekki að færa nein rök að því, að H. B. verðskuldi þessi laun fyrir starfsemi sína, enda hefir hún haft þau áður. Lítið munar ríkissjóð um þessa hækkun á fjárl., en fátæka stúlku, sem berst fyrir hugsjónum sínum af áhuga og einlægni, munar töluvert um hana.

Þá á ég brtt. við 12. gr. Það er nýr liður, sem e. t. v. er ekki vel séður, en þó hygg ég, að ef hv. þdm. gæfist kostur á að sjá og kynnast þessari ungu stúlku, sem hér er beðið um sjúkrastyrk fyrir, væru margir þeirra ekki kaldari innan rifja en það, að þeir greiddu þessari till. atkv., enda er upphæðin lítilræði í samanburði við ýmislegt annað, sem varið er til óþarfra eða ónauðsynlegra hluta. Ég þarf ekki að segja annað en það, að allir sem komnir eru til vits og ára, hafa vafalaust hitt fyrir manneskju, sem „hvíti dauðinn“ hefir svipt æsku- og framtíðarvonum. Þetta út af fyrir sig skuldbindur að vísu ekki þingið til að veita styrk sem þennan, en svo lítils virði sem þessi fjárveiting er fyrir þingið, svo mikils virði er hún fyrir allslausa, veika stúlku, sem ekkert á framundan nema sveitina, sem hún getur ekki hugsað sér að leita til. Þetta hefir valdið því, að ég hefi tekið að mér að flytja þessa brtt., enda þótt ég játi, að hér sé farið inn á nokkuð óvenjulega braut. Annars vil ég benda á það, að sjúkrastyrkir hafa oft verið veittir áður og m. a. s. í þessum fjárl. Treysti ég öllum alvörugefnum mönnum til að stinga hendinni í sinn eiginn barm, og þá munu þeir ekki verða í vafa um, hvernig þeir eiga að greiða atkv.

Þá á ég brtt. við 10. gr.brtt. er í sparnaðaráttina og á að vega á móti þeim hækkunartill., sem ég flyt. Í 10. gr. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að ráðh. fái 8000 kr. til veizluhalda. Þessi upphæð er stór í augum þeirra, sem lítið fé hafa til umráða, ekki sízt á þeim tímum, þegar neyð og skortur blasir við fjölda manns. Ég legg til, að þessi upphæð verði færð niður í 4000 kr., eða til vara í 6000 kr. Ég vil með þessu gefa hv. þdm. tækifæri til að sýna sparnaðarhug sinn í verki. Verði hvorki aðaltill. mín né varatill. samþ., verð ég að líta svo á, að hann sé fremur í orði en á borði. Það munu vera margar fjölskyldur, sem ekki hafa meiri tekjur en upphæðin í aðaltill. minni nemur til allra sinna nauðsynja. En að verja 8000 kr. í átveizlur handa mönnum, sem á allan hátt eru færir um að afla sér góðgætis, það verð ég að telja einhverja hina lökustu meðferð á landsfé, sem ég get hugsað mér, ekki sízt þegar fátækum námsmönnum og blásnauðum sjúklingum er samtímis neitað um smástyrki. Ég viðurkenni þó, að nokkurt fé þurfi til risnu, og ekki vil ég íþyngja neinum embættismanni með því að láta hann greiða veizlukostnað fyrir landið úr eigin vasa. Mér virðist 4000 kr. vera fulldrjúgur skildingur til gestaboða og veizluhalda, svo að vel megi við hann una. — Þá hefi ég minnzt á þær brtt., er ég flyt að þessu sinni, og læt því hér staðar numið.