20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

Afgreiðsla þingmála

Jónas Jónsson:

Ég vil benda hv. 1. þm. Reykv. á það, að lendingarbæturnar á Eyrarbakka eru ekki sambærilegar við þessar hafnargerðir, enda eru þær í allt öðrum flokki í fjárl. Ef átt hefði að gera höfn á Eyrarbakka, þá hefði vitanlega verið krafizt meira en gert var. Ég vil benda hv. þm. á það, að fyrir mína tilstuðlan voru einnig sett þau ákvæði í frv. um lendingarbætur á Eyrarbakka, að lánið skyldi tekið innanlands, til að tryggja það, að menn, sem máske er ekki tekið mark á, fari að bjóða út lán í slíku augnamiði erlendis. Hér er um milljónafyrirtæki að ræða, en lendingarbæturnar á Eyrarbakka kosta ekki nema nokkra tugi þúsunda. Ennfremur vil ég benda hv. þm. á, að þessum hafnamálum hefir alltaf verið sýnd velvild hér í þessari hv. d., og hann ætti ekki að reyna að spilla fyrir þeim með því að vilja flaustra þeim af.