22.08.1931
Efri deild: 38. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

Afgreiðsla þingmála

Jón Baldvinsson:

Hv. 4. landsk. telur þarna upp mörg verkamannamál, sem mikils eru verð og gott er að fá í framkvæmd, og ég skoða það sem hól, að Alþýðuflokkurinn hafi knúð þau í gegn; en ég neita því sem alveg tilhæfulausu, að Alþýðuflokkurinn hafi fallið frá nokkru sínu áhugamáli til að koma þessum málum fram. En út af samningum yfirleitt skal ég geta þess, að það er kunnugt, að Sjálfstæðisflokkurinn gerði samninga við landsstj., og því er yfirlýst af hv. 1. landsk. og hv. 1. þm. Reykv., að þeir hefðu getað gert þessa samninga vegna fyrirfram yfirlýstrar afstöðu Alþýðuflokksins í tilteknu máli.

Viðvíkjandi „samningum“ um landsreikninginn vil ég aðeins segja hv. þm. það, sem sagt er í bænum, að Sjálfstæðisfl. hafi gert út sendinefnd til Framsóknarfl. og lýst yfir því, að þeir væru reiðubúnir — eins og þeir voru í Nd. — til þess að greiða atkv. með öllum fjandanum fyrir stj., landsreikningi og hverju einu, svo framarlega sem flokkurinn vildi fella tóbakseinkasöluna. Það er rétt, að hv. 4. landsk. svari þessum bæjarsögum, sem um þá ganga.