22.08.1931
Efri deild: 38. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

Afgreiðsla þingmála

Jón Þorláksson:

Ég var ekki neitt að ámæla hv. 2. landsk. fyrir, að hann hefði ekki viljað vera í samvinnu við Sjálfstæðisfl. um öll þingmál. Það er rétt hjá honum, að Sjálfstæðisfl. og Alþýðufl. eru andstæðir í ákaflega mörgum málum, og ég skal ekki ámæla hv. þm. fyrir það, þótt hann frá sínu sjónarmiði átelji framkomu okkar í þeim málum, sem hann er okkur ósammála um. En hitt er fíflsháttur með afbrigðum, þegar þessi hv. þm. stendur hér upp og fer að ámæla mér og mínum flokki fyrir framkomu okkar í máli eins og virkjun Sogsins, og ég get ekki skilið þetta með öðrum hætti en að hann sé að reyna að draga athygli einhverra þarna uppi á pöllunum, sem hann oft skýtur augunum til, frá því, sem nú er höfuðumtalsefnið í bænum, en það er sú verzlun, sem fram hefir farið hér síðustu dagana, þar sem þessi hv. þm. sjálfur er skýrt og opinberlega verzlunarvaran, þó að þrælasala sé fyrir löngu úr lögum numin hér á andi og annarsstaðar.