31.07.1931
Neðri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

Landhelgisgæsla

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mér þykir vænt um að fá tækifæri til þess að gera grein fyrir þessu máli, því um það eru nokkrar missagnir, en það er skylt að verða við kröfum hv. þm. Ísaf. í þessu efni.

Um leið og ég svara fyrirspurn hv. þm. mun ég skýra frá því, hvernig nú er ástatt og hvernig verða muni um landhelgigæzluna.

Skipin, sem við höfum yfir að ráða, eru ekki 3, heldur 4. Eitt þeirra, Óðinn, varð fyrir slysi, eins og hv. þm. Ísaf. gat um, en það var ekki við sjómælingar, því að skipið var fyrir nokkru búið að fá skipun um að láta af þeim. Það var á ferð vegna landhelgigæzlunnar, er því hlekktist á. Annars er þetta slys nokkuð, sem stj. verður ekki kennt um. Slys sem þetta geta alltaf komið fyrir, þó að maður gæti að vísu síður búizt við þeim á svæði, þar sem nýbúið er að gera sjómælingar.

Varðskipið Ægir hefir verið í viðgerð. Hv. þm. gat um, að komið hefði til orða, að Ægir færi með fél. eitt upp í Hvalfjörð. Þegar kvartanir þessar komu að norðan, var sú ákvörðun tekin, að hætta skyldi við þessa för skipsins, og í stað þess fer það nú norður í kvöld eða með morgninum. Fél. það, sem Ægir ætlaði með, mun aftur á móti fá aðra lausn á málum sínum.

Þriðja varðskipið, Þór, hefir fyrir alllöngu fengið fyrirskipanir um að hætta síldveiðum, en snúa sér eingöngu að landhelgigæzlunni. Hafi Þór stundað veiðar nú nýlega, þá hefir hann óhlýðnazt fyrirskipunum héðan að sunnan.

Fjórða skipið, Fylla, er sömuleiðis fyrir norðan og hefir verið þar jafnlengi og Þór. Hafa þessi tvö skip skipt með sér svæðinu, sem þau eiga að gæta, til þess að geta haft landhelgigæzluna sem fullkomnasta. Einnig vil ég geta þess, að samstarf hefir verið á milli Þórs og flugvélar þeirrar, sem hefir á hendi síldarleit, þannig að einn af mönnunum á Þór hefir verið í flugvélinni, þegar hún hefir farið síldarflug, og hlutverk þessa manns hefir einungis verið að hafa gát á landhelginni.

Þessu er þá þannig varið, að tvö skip hafa um hríð haft á hendi landhelgigæzluna nyrðra, og þriðja skipið er nú að fara norður til þess að gera landhelgigæzluna fullkomnari.

Það skal að vísu játað, að vegna þessa slyss, sem Óðinn varð fyrir, hefir landhelgigæzlan e. t. v. ekki verið um stuttan tíma eins fullkomin og bezt hefði mátt á kjósa, en hinsvegar hefir verið tekið fyllsta tillit til þeirra kvartana, sem stj. hafa borizt frá útgerðarmönnum og sjómönnum, og ég lít svo á, að með þeim tækjum, sem við nú höfum, þá sé ekki hægt að hafa landhelgigæzluna öllu fullkomnari en orðið er.