22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

Afgreiðsla mála í stjórnarráðinu

Vilmundur Jónsson:

Ég hafði óskað eftir leyfi hæstv. forseta til þess að fá að beina nokkurri umkvörtun til hæstv. stj. utan dagskrár, áður en þingi yrði slitið. Vil ég ekki deila á hæstv. stj. deilunnar vegna, heldur til þess að reyna að fá það lagfært, sem frekleg ástæða er til að lagfæra, en það er hin ákaflega stirða afgreiðsla mála í stjórnarráðinu. Við, sem erum embættismenn úti á landi og eigum t. d. sæti í bæjarstjórnum, verðum fyrir miklum óþægindum og skaða af hinni tregu afgreiðslu stjórnarráðsins. Úrskurðir falla afarseint oft og tíðum, reglugerðir, sem sveitarstjórnum er ætlað að fara eftir, eru of seint staðfestar og stundum gleymist alveg að birta þær í Stjórnartíðindum. Svo var t. d. um eina reglugerð viðvíkjandi l. frá 1929 um kosningar í málefnum sveitar- og bæjarfélaga. Reglugerð þessi skipaði fyrir um það, hvenær varafulltrúar í sveitar- og bæjarstjórnum ættu að koma inn. Þessi misgáningur stjórnarráðsins gerði það að verkum, að mér er nær að halda, að mikill vafi geti leikið á því, að t. d. sumir fundir bæjarstjórnarinnar hjá okkur á Ísafirði hafi verið löglegir fundir. — Ég ætla ekki að rökstyðja mál mitt frekar með einstökum dæmum, því að þessi tregða stjórnarráðsins er almennt viðurkennd.

Mér dettur ekki í hug að ásaka núv. hæstv. stj. um það, að hún sé sérstaklega brotleg í þessum efnum fram yfir aðrar undangengnar stjórnir. Þetta sleifarlag hefir alltaf átt sér stað, og hefir það þó frekar farið versnandi en batnandi. Má auðvitað segja, að til þess séu nokkrar ástæður, þar sem þeim málum fjölgar með ári hverju, sem ganga gegnum hendur stj. Stjórnarráðshúsið er líka ófullkomið. Þá mun þetta ekki hvað sízt því að kenna, að starfskraftar stjórnarráðsins eru ekki svo góðir og skyldi. Flestir þeirra, sem vinna þar, eru gamlir menn, sem ekki geta unnið með þeim hraða, sem hinn nýi tími krefst.

Ég geri ekki ráð fyrir, að mikill árangur verði strax af þessari umkvörtun. Ég myndi láta mér það nægja, ef hæstv. stj. viðurkenndi, að þessar misfellur ættu sér stað, og að hún hefði vilja til þess að kippa þessu í lag með einhverjum ráðum. En sjái hæstv. stj. engin ráð til þess, þá vildi ég, að hún lýsti yfir því, að hún vilji íhuga þetta fyrir næsta þing og leita ráða hjá því til að bæta úr misfellum þessum.