25.07.1931
Sameinað þing: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

Minning Einars Jónssonar

forseti (ÁÁ):

Áður en störf þessa fundar hefjast, vil ég nokkrum orðum minnast fyrrv. þingmanns, sem lézt hér í bænum í gær, Einars Jónssonar, fyrrv. prests og prófasts á Hofi í Vopnafirði.

Hann var þm. Norðmýlinga á árunum 1893–1901 og 1912–1913.

Einar Jónsson var Austfirðingur að ætt og uppruna, fæddur á Stóra-Steinsvaði í Hjaltastaðaþinghá 7. des. 1853. Varð stúdent 1876 og guðfræðikandidat 1879. Vígðist sama ár að Felli í Sléttuhlíð og var þar prestur til 1885, er honum var veittur Miklibær í Blönduhlíð. Árið 1889 var honum veitt Kirkjubæjarprestakall í Hróarstungu, 1909 Desjarmýri og loks 1912 Hof í Vopnafirði. Þjónaði hann því prestakalli til 1929, er honum var veitt lausn frá embætti, og hafði hann þá verið þjónandi prestur í 50 ár. Hann var prófastur í Norður-Múlaprófastsdæmi óslitið frá 1896 til 1929, er hann lét af embætti. Hann hafði flutzt til Reykjavíkur fáum dögum áður en hann andaðist.

Það er almælt um séra Einar Jónsson, að hann hafi verið fjölhæfur maður, einkar athugull, gætinn og samvizkusamur í öllum störfum sínum, bæði hér á þingi og heima í héraði, og hið mesta ljúfmenni, enda var hann hverjum manni vinsælli.

Það, sem lengst mun þó halda minningu hans uppi, eru ritstörf hans í þágu íslenzkrar ættfræði. Hann vann að því svo að segja alla æfi að semja ættartölur og fékkst sérstaklega við ættir Austfirðinga. Í því efni liggur eftir hann mikið handrit, sem nú verður eign Landsbókasafnsins. Um þetta verk farast þeim dr. Guðmundi Finnbogasyni landsbókaverði og dr. Hannesi Þorsteinssyni þjóðskjalaverði m. a. svo orð í bréfi til Alþingis 1929:

„Með þessu verki hefir ættfræði Austfirðingafjórðungs verið svo að segja reist frá grunni af frábærri elju, lærdómi og samvizkusemi, og þar með varðveittur margvíslegur fróðleikur um einstaka menn og ættir, er nú mundi glataður að fullu og öllu, ef höfundurinn hefði eigi aflað hans meðan tími var til. Verkið er því ómetanlegur fjársjóður fyrir ættfræði vora, og má ekki annarsstaðar vera en á Landsbókasafni Íslands, enda hefir það verið löngun og ásetningur höfundarins að koma því þangað“.

Ég vil biðja hv. þingmenn að minnast þessa látna merkismanns með því að standa upp.

Allir þm. stóðu upp úr sætum sínum.

VI. Kosningar.

1. Orðunefnd.

Á 4. fundi í Sþ., 25. júlí, var tekin til meðferðar

kosnings eins manns í orðunefnd samkv. 3. gr. reglugerðar 3. júlí 1921, um hina íslenzku fálkaorðu, fyrir þann tíma, sem eftir er árabilsins 1927–1932.